Þetta eru erfið orð í þýðingu og þess vegna sjást þau svona í íslenskri mynd. Síðast í Fréttablaðinu í umfjöllun um „Heimska, hvíta menn“ eftir Michael Moore sem nú er væntanleg í íslenskri þýðingu. Miðað við sýnishornið sem birt var, líst mér ekki á. Enskan skein víða í gegn og kauðslegt orðalag var í of ríkum mæli þótt ekki væri kaflinn langur sem var birtur.
En hvað varðar þýðingu á þessum orðum þá hefur oft verið talað um þrýstihópa og fulltrúa þrýstihópa sem ég vil reyndar kalla málafylgjumenn. Málafylgjumenn eru algengir vestanhafs og kjörlendi þeirra er nálægt þingmönnum. Viðskiptajöfrar og stórfyrirtæki sem eru önnum kafin við að græða, ráða sér iðulega málafylgjumenn sem gæta hagsmuna þeirra og þrýsta á þingmenn að greiða atkvæði með réttum málum og koma réttu málunum í gegn.
Lobbýistar og lobbýismi
Auglýsingar