Hvað kostar góður dómur?

Oft veit maður ekki hvað maður á að hugsa. Það er til mikils unnið að vera á réttum nótum, verja góðan málstað, vera ekki skoðanalaus taglhnýtingur og vita einhverju viti. Fyrir mann sem fer mjög sjaldan í bíó er mikils virði að eiga góða að á dagblöðunum, fólk sem kann að vega og meta og segja kost og löst. Morgunblaðið hefur farið þar fyrir hvað mig varðar, í mörg ár, og var gaman að lesa úttekt blaðsins á myndum ársins. Þar var dregið í dilka, framhaldsmyndir og hollyvúddrusl sett til slátrunar, en eðalræmur fá að lifa áfram, enda vel á vetur setjandi. Ég treysti mínum smölum þegar komið er í réttina.
Þess vegna var dapurlegt að sjá hvernig hinn glöggi ræmudómari Sæbjörn Valdimarsson virðist hafa misst sig gersamlega að kvöldi nýársdags og gefið Opinberun Hannesar þrjár stjörnur. Hún er hérumbil jafngóð og Kaldaljós. Hún er í flokki með mörgum frábærum myndum síðasta árs, myndum sem munu lifa áfram í minningunni. Var Sæbjörn fullur þegar hann skrifaði þetta? Varla. Var honum skipað að skrifa vel um myndina? Tja. Hefur hann svona hrikalegan smekk? Það held ég ekki. Eitthvað hefur komið fyrir hann og ég vona að Sæbirni batni sem fyrst og nái áttum.
Davíð Þór Jónsson hitti naglann á höfuðið í DV í dag þegar hann sagði að Hrafni Gunnlaugssyni hefði farið jafnt og þétt aftur sem listamanni. Enda virðist Hrafn vinna alla tæknivinnu við myndir sínar, semja tónlist og texta, klippa og eftirvinna allt. Þá vantar aðhaldið.
Sumir kvikmyndanördar eiga góð myndbandstæki og nenna að spóla fram og til baka í leit að slysum og mistökum í klippingunni. Þeir ættu að komast í feitt í Opinberuninni. Það þurfti reyndar ekki spólun til að taka eftir kertum sem ýmist voru snúin eða bein á matarborði Hannesar, klukkunni á þilinu sem var rúmlega tvö þegar þau mæðgin snæddu kvöldverðinn, matnum sem Hannes og Björt voru allt í einu komin með upp í sig í koníaksatriðinu og þurftu að kyngja í snatri milli klippinga. Ríkisútvarpið hefur oft reynt að drepa fólk úr leiðindum. Það munaði mjóu í þetta sinn. Stofnun sem er undir smásjá misglaðra afnotagjaldsgreiðenda má ekki við því að ergja fólk svona á stórhátíðum.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.