Jerry Springer 60 ára


Þáttastjórnandinn, heimspekingurinn, fyrrverandi borgarstjórinn Jerry Springer fagnar nú sextíu ára afmæli sínu. Þekktastur er hann fyrir störf sín í fjölmiðlum og þá einkum spjallþætti sína sem brutu blað í sögu slíkra þátta vestanhafs.
Kynni okkar Jerrys hófust á útmánuðum 1997 ef mig brestur ekki minni. Þá bar ég heim fullan kassa af spólum frá Lynghálsinum og var þar að finna marga helstu gullmolana frá ferli Jerrys. Þættir hans voru á sínum tíma mjög umtalaðir enda er Jerry laginn að finna hvar skórinn kreppir hjá fólki og hjálpa því að leysa þessa litlu hnökra sem urðu á lífi þess. Áhorfendur í sal tóku virkan þátt í atburðum á sviðinu og blönduðu sér oft í átök gestanna. Ef hinn þrekvaxni gæslumaður Steve hefði ekki stillt til friðar hefðu margir gengið óvígir af sviði.
Kynlífsvandamál alls konar voru Jerry hugleikin og oft leiddi hann saman systur, vinkonur og mæðgur sem deildu sama elskhuga eða elskhugum. Kvenfólkið byrjaði þáttinn á því að rekja raunir sínar og síðan voru sökudólgarnir kallaðir inn. Oft kom til mikilla slagsmála sem iðulega voru sviðsett meira og minna en stundum fóru þau úr böndunum og fólk gekk blóðugt af vígvellinum.
Kynskiptingar mættu reglulega til Jerrys, aðallega til að upplýsa elskhuga sína um fortíðina og tóku þeir því misjafnlega. Samkynhneigðir voru áberandi á tímabili og komu fúslega út úr skápnum fyrir framan myndavélarnar við blendin viðbrögð aðstandenda. Feitt fólk átti einnig málsvara þar sem Jerry var og sá þyngsti sem lét braka í sviðinu var 800 pund. Mannvinurinn Jerry reddaði honum næringarfræðingi og sálgæslu og hefur sennilega kallað hann til sín ári eða tveimur síðar, þá öllu léttari.
Fjölskylduvandamálum kunni Jerry glögg skil á og leysti þar næstum hvers manns þrautir þótt ekki hafi hann náð að sætta fjölskylduna sem var boðið í Þakkargjörðarhlaðborð á sviðinu. Ekki þarf að orðlengja að maturinn sá fór að mestu utan á fjölskyldumeðlimi og kastaði hver í annan af miklum móð. Þótti mér illa farið með kalkúna, sultur, kartöflur og góðmeti og tók steininn úr þegar dóttirin hellti úr sósukönnu yfir móður sína.
Í lok hvers þáttar kom rúsínan í pylsuendanum. Lokaorð Jerrys. Þar var hann jafnan á heimspekilegum nótum, dró vandamálin saman á hnitmiðaðan hátt og gaf góð ráð með föðurlegu ívafi. Hann brýndi jafnan fyrir fólki að vera gott við hvert annað og gleyma ekki kærleikanum. Oft urðu spakmæli hans mér að góðu veganesti og vitnaði ég mikið í Jerry á tímabili.
Þáttaskil urðu í hjálparstarfi Jerrys þegar dómstólar úrskurðuðu að hann mætti ekki láta fólk slást á sviðinu. Þá var allur vindur úr þáttunum og sjálfur var Jerry ekki jafn sperrtur og djúpvitur. Ég lagði oft fram óskir um það við dagskrárfólk efra að pantaðir yrðu valdir þættir frá gullaldarárum Jerrys þegar ýmis húsdýr og samband þeirra við eigendur var áberandi í þáttunum. Okkar sveitalega þjóð hefði haft gaman af því að sjá þáttinn: „Ég giftist hesti“ þar sem miðaldra karlmaður segir frá sambandi sínu við smámeri eina og teymir hana upp á svið í brúðarkjólnum og slörinu.
Sambandi okkar Jerrys lauk eftir 150 þætti að því mig minnir. Ég óska honum farsælla elliára.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.