Þá var bolti…


Ég man fyrst eftir enska boltanum 1969. Ég var í landsprófi á Siglufirði og fylgdist með manni föðursystur minnar sveittum af ákafa yfir svarthvítum jafnteflisleik sem var rúmlega vikugamall og Bjarni Fel lýsti. Bjarni var samnefnari enska boltans og lengi vel hélt fólk að enginn gæti lýst leik nema Bjarni. Margar slíkar þráhyggjur voru þá viðurkenndar í samfélaginu.
Svo var allt í einu kominn litur á boltann en enn voru leikirnir vikugamlir, allir vissu úrslitin en horfðu samt því RÚV var eina stöðin og hagaði sér eins og Hansi kokkur í Reykjanesinu sem réði matseðlinum og ef okkur þótti átta daga súpan vond og hakkaða flugslysið orðið þreytt, sagði Hansi okkur að éta úldinn hund eða það sem úti frysi.
Smám saman fór fólk að uppgötva að það var hægt að fá boltann í beinni. Það var upp úr 1985 minnir mig. Það var of dýrt, sagði RÚV-ið. Þegar leið að bikarúrslitaleik um vorið slógu einhverjir saman og borguðu fyrir útsendingartímann um gervihnöttinn. RÚV-ið lét tilleiðast með eftirgangsmunum. Pantaðar voru 105 mínútur á hnettinum sem átti að duga. Leikurinn var hins vegar framlengdur. Ekki hafði RÚV-ið gert ráð fyrir því. Sambandið var rofið. Þá var blótað. Úrslitin fengust síðan í kvöldfréttunum.
Hvort sem það var þessu að þakka eða ekki fór beinum útsendingum smám saman að fjölga. Þá var einn leikur í viku.
Síðan tók Íslenska útvarpsfélagið við og það leið ekki á löngu þar til RÚV-árin voru gleymd og grafin. Knattspyrnufíklar hafa fengið þörfum sínum fullnægt og gott betur undanfarin ár.
Allt er falt og Skjár 1 yfirbauð Norðurljósin nú fyrir nokkrum dögum. Magnús sjónvarpsstjóri var hálf ringlaður í útvarpsviðtali á föstudaginn og það var auðheyrt að hann hafði aldrei órað fyrir að sitja upp með boltann. Eitt er að bjóða 500 milljónir í sýningarrétt og gervihnattakostnað. Allt hitt vantar. Á Skjá einum hafa aldrei verið íþróttir. Þar er engin íþróttadeild. Engir með þekkingu og yfirsýn. Það vantar alla burðina til að gera boltanum jafn góð skil og Sýnarmenn hafa gert undanfarin ár. Knattspyrnuáhugamenn eru góðu vanir.
Ummæli Magnúsar lýsa sjálfsagt viðhorfi Skipholtsbænda betur en margt annað. Hann sagði eitthvað á þá leið að þeir gætu rétt eins stungið leyfinu niður í skúffu og ekki sýnt neitt. Það hlýtur að vera moldrík sjónvarpsstöð sem hefur efni á jafn dýrum brandara.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.