Mig minnir að einu sinni hafi verið þáttur með þessu nafni í útvarpinu sem, meðan aðeins var ein rás, og þar voru leikin lög sem viðkomandi stjórnandi þáttarins valdi. Þetta vil ég heyra. Það er fast í mér að þetta hafi verið Svavar Gests. Hvað sem því líður þá er það viðtekin venja hér á vinnustaðnum að svara. „Svavar Gests“ þegar maður hefur á tilfinningunni að spyrjandinn vilji fá ákveðið svar. Ég gerði þetta stundum í skólanum þegar blessuð börnin spurðu að einhverju sem var þeim hjartans mál og hreinskilið svar hefði brotið þau niður. Fólki líður vel ef það heyrir það sem það vill heyra. Sumum finnst mjög óþægilegt að heyra sannleikann og þess vegna er sendiboðinn oft skotinn og bakarinn hengdur í staðinn fyrir smiðinn. Stundum er víst betra að lýsa samfélaginu eins og það ætti að vera en ekki eins og það er.
Ég held að við ættum ekki að fá hland fyrir hjartað þótt einhver þáttastjórnandi úti í Amríku vilji draga upp aðra mynd af landi og þjóð en sumum hérna heima líkar. Hafi einhver áhuga á að lesa handritið að þættinum þá er það hérna. Þetta er bara spjallþáttur, einn af tugum slíkra þátta, dægurfluga sem kemur og fer, gleymist fljótt og hefur örugglega engin áhrif á ferðamannastraum hingað. Ég veit hvernig ég er. Ég nenni ekki að eyða ævinni í að hafa áhyggjur af því hvað öðrum kann að finnast um mig. Það væri aumt líf.