Dýr er dropinn

Á Íslandi er dýrt að drekka. Jafnvel ódýrasta rauðvínið kostar þúsundkall sem þætti mikið í flestum Evrópulöndum. Samt lætur maður þetta stundum eftir sér því með góðri steik er gott að súpa á þokkalegu rauðvíni og ekki leiðinlegt að horfa á sólarlagið hýrður víns af tári. En af því vínið er dýrt þá kaupir maður það ódýrasta og ákveður að láta sér þykja það gott. Ég þekki varla muninn á svonefndum „góðum“ vínum og „lélegum.“ En það er af því ég er smáborgari og sáttur við það. Mér er slétt sama hvað stendur utan á flöskunni á frönsku eða ítölsku ef innihaldið er gott. Og bragðið verður ekki betra þótt flaskan kosti nokkur þúsund.
Þess vegna var merkilegt að lesa umkvörtun víngæðings Mbl um daginn þar sem hann vildi fá dýr úrvalsvín í hillur ÁTVR. Skilja mátti að stór hópur fólks vildi gjarna borga meira fyrir rauðvínið sitt en þúsundkallinn og ekkert nema gott um það að segja því fólk sem á peninga, vill gjarna eyða þeim. Þessi hópur velur sér að sama skapi baráttumál við hæfi. Það hlýtur að vera gaman að berjast fyrir því að fá að borga meira fyrir það sem er þegar of dýrt.
En eftir svar Höskuldar Jónssonar í útvarpinu og Mbl. efast ég um að gæðingurinn spretti mikið úr spori á næstunni. Þar sannaðist gamla vísan. „Margur hratt úr hlaði reið og hugði veginn greiðan. ..“

7 athugasemdir við “Dýr er dropinn

  1. bragðið verður ekki betra, hann var góður þessi 😀 speak for yourself. Hví kaupirðu ekki þessi sem kosta 750 ef vín er allt jafn gott?

    Reyndar eru toppvín ódýrari hér í Ríkinu heldur en víðast hvar annars staðar, vegna þess að vínprósentan ræður álagningu en ekki eftirspurnin. Sem er besti punkturinn fyrir okkur ríkisbubbana og vínsnobbarana.

    hvað sagði Höskuldur annars?

  2. Þetta kemur samt með tímanum, að maður lærir að gera greinarmun á góðu víni og vondu. Maður þarf bara að drekka nógu assg. mikið af þessu til þess að þekkja hauk frá hegra. Það er ekkert allt of létt á Fróni, nema með ærnum tilkostnaði. Á Spáni keypti ég mér ágætt rauðvín í sumar á þetta þrjár og fimmtíu til sex evrur. Munurinn er svo mikill, að ég er ekki frá því að „vínprósentan“ rýrni hérna á Ultima Thule.

  3. nú í sumar á Ítalíu gerðum við ekki þessi mistök að kaupa „ágæta“ tveggja til þriggja evru vínið eins og síðast (fyrir þremur árum) Þessi á fjórar til sex voru hins vegar ljómandi góð.

    Alveg satt, að sjálfsögðu, að þessi þokkalega drekkandi hversdagsvín eru allt of dýr hér á landi.

    Lenti í einum svona – rauðvín eru bara rauðvín – í Skálholti í sumar. Vildi til að við vorum nokkur með flöskur opnar, valdi ólíkustu vínin til að gefa honum að raðsmakka (Malbec og chianti), hann varð að viðurkenna að þetta var hreint ekki sami drykkur.

  4. Og rauðvínslegin Parísardaman missti af þessu öllu saman!
    Reyndar er ég sammála flestu hér að ofan, það þarf ekki mjög dýr vín til að gera mig sæla og ánægða en ég forðast langódýrustu vínin af alúð.

Skildu eftir svar við Ilmur Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.