Um sameiningu

Hverju samfélagi er nauðsynlegt að hafa annað minna samfélag til að líta góðlátlega niður á, hafa að skopi og flími svo jaðrar við kvikindisskap og fá þannig útrás fyrir einhverja yfirburði sem engir skynja nema íbúar stóra samfélagsins. Svona ástar-og haturssamband var á milli Ísfirðinga og Súðvíkinga á mínum sokkabandsárum. Á tímabili litu Ísfirðingar niður á Hnífsdælinga en hættu því þegar félagsheimilið þar opnaði. Bolvíkingar voru náttúrulega eins og hvert annað þróunarríki í huga Skutulsfirðinga. Allt var þetta vegna þess að Ísafjörður var stærri en Hnífsdalur, Súðavík og Bolungavík.
Nú stendur víst til að bjóða Vogum á Vatnsleysuströnd að sameinast Hafnarfirði og hafa staðarblöðin hérna reynt að kynna þetta þjóðþrifamál fyrir íbúunum. Áhuginn er að vísu í svo sögulegu lágmarki að kynnisferðir frá Vogum til Hafnarfjarðar og frá Hafnarfirði til Voga hafa verið blásnar af vegna áhugaleysis því aðeins skráðu fjórir sig í Vogunum og tveir í Hafnarfirði. Ef svo heldur sem horfir, greiða aðeins sveitastjórnarmenn atkvæði í þessum kosningum, hugsanlega eldri borgarar sem hafa ekkert annað að gera og halda kannski að framundan verði spennandi kosninganótt. Hver veit.
Auðvitað gætum við gert innrás í Vogana og lagt þá undir okkur eins og hvert annað smáríki og hagað okkur eins og ótíndir nýlenduherrar og kúgað heimamenn skefjalaust. En það má víst ekki núna.
Ég á eftir að gera upp hug minn. Það er á mörkunum að ég viti hvar þessi skiki er hér suður með sjó en ef þarlendir vilja verða Hafnfirðingar þá er mér það að meinalausu.

4 athugasemdir við “Um sameiningu

  1. Ég vona bara að blessaðir ráðamennirnir vilji ekki nafnbreytingu í kjölfar sameiningar. Ég vil ómögulega búa í Hafnarfjarðarleysubæ!

  2. Það er eins og athugasemdir vistist ekki hérna. Í anda tjáningarfrelsis eru þær hér settar inn með handafli.
    „Allar þessar sameiningar; þær enda sjálfsagt þannig að við verðum öll ein þjóð. 😉 “ sagði Binni.
    „Hafnleysubær“ vildi Matti að nýja bæjarfélagið fengi að heita.

  3. Og Vatnsleysa er að sjálfsögðu sama nafn og Vanløse, þ.e. að á báðum stað er laust vatn en ekki vatnslaust. Þar hafa Danir misst gagnsæið í orðinu eins og t.d. gerðist með Århus en skjaldarmerki þess staðar var um langa hríð þrjár árar í húsi – Árahús. Það er eins gott að þeir áttuðu sig ekki á því að hafa ára í húsi.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.