Beinar þýðingar?!

Það fylgir starfinu að vera of vakandi fyrir málvillum og beinum þýðingum sem koma kauðslega út. Þegar fréttamaður á RÚV hafði sagt tvisvar að Halldór Ásgrímsson hefði „gefið orð sitt“ fór ég að horfa á fréttina, þótt ég forðist almennt að horfa á framsóknarmenn.
Í Víkverja um daginn var þusað yfir stórum jeppum í umferðinni og endaði sá pistill á því að „kannski væri bara verið að prédika upp í kórinn.“ Það er náskylt hinum ógleymanlega skjátexta þar sem bent var á að best væri “ að segja straumbreytinum það.“ Hér er náttúrulega verið að þýða orðtökin „preaching to the choir“ og „preaching to the converted“ en í seinna tilfellinu taldi þýðandi að um straumbreyti væri að ræða.
Í myndinni „Góða stelpan“ á Bíórásinni á föstudagskvöldið voru tveir herramenn sem þótti gott að tilbiðja Maríu Jónu í möttlinum græna og komust í tilheyrandi vímu, urðu „stoned“ eins og sagt er í Kanans landi. Þetta hét í skjátexta að vera „grýttur“.
Ljósvakapistillinn í Mogganum á mánudaginn hitti reyndar vel í mark. Dæmi:
„MÉR finnst Íslenski bachelorinn á Skjá einum geðveikt skemmtilegur. Bachelorinn er ýkt kúl gæi og píurnar ógisla sætar, sumar eiginlega bara sexí. Ég þori alveg að segja það þó ég eigi væf og kidds og allt. Hóstinn er líka næs og settið klikkað. Truflað að skjóta þetta í kántríinu. Hver fékk eiginlega þessa ædíu? Pródúsentinn hlýtur líka að vera alveg brjálæðislega pró. Þetta er allt svo ríl, maður. Ekkert feik.“ (Höf: Orri Páll Ormarsson)
Svona pistil er ekki öllum lagið að setja á blað. Ég hló við fót.

20 athugasemdir við “Beinar þýðingar?!

 1. uppáhalds þýðingin min er þegar svalur gaur með píu upp á arminn spyr – would you like to come up to my penthouse to see my Jacuzzi? Þýðingin: Viltu koma upp í toppíbúðina mína og skoða jakuxann minn?

 2. Mér er það ógleymanlegt þegar ég sá einhverja mynd í Austurbæjarbíói. Þar kom einhver gálan sem vann við löggæslustörf og sagði „Please, leave me alone, I need some breathing space“ og þýðandinn var sko vel með á nótunum… „Æ, láttu mig í friði, mig vantar morgunverðarrúm“… hvort hann hefur verið svangur eða bara að hugsa um eitthvað allt annað veit ég ekki en þessi leikkona var rosalega skýrmælt í þessu atriði. Því miður man ég ekki hvaða mynd það var. En Orri Páll hefur greinilega ekki tileinkað sér þann stíl að orðið ógeðslega sé bara fjögurra stafa orð… óxla…

 3. Í Arrested Developement á stöð 2, var leikari að rétta einum kvikmynda-
  framleiðanda mynd af sér. Hann sagði „Can I give you a head-shot“ og það var þýtt
  „mætti ég skjóta þig í hausinn“!

 4. Þetta er að vísu góð saga hjá Tótu en því miður á hún ekki við rök að styðjast.
  Tóta hlýtur að hafa verið að horfa á einhvern annan þátt eða mislesið og/eða misheyrt eitthvað
  því hvorki þessi setning né nein lík henni hefur komið fyrir í þýðingu þáttanna fram að þessu.

 5. Skemmtilega orðað um Maríu Jónu. Vímufíkn kemur í staðinn fyrir guð. Loksins skil ég Haustvísu til Máríu eftir Einar Ólaf Sveinsson:

  Máría, ljáðu mér möttul þinn,
  mæðir hretið skýja;
  […]
  mér væri skjól að möttlinum þínum hlýja.

  Máría, ljáðu mér möttul þinn,
  […]
  að mér sækir eldurinn,
  yfir mig steypist reykurinn;
  mér væri þörf á möttlinum þínum svala.

  Þegar mér sígur svefn á brá
  síðastur alls í heimi,
  möttulinn þinn mjúka þá,
  Móðir, breiddu mig ofan á,
  svo sofi ég vært og ekkert illt mig dreymi.

  Þetta er alsæla!

 6. Það er kannski ekki hægt að tala um þýðingarvillu á bls. 69 í Birtu vikunnar en þar auglýsir Magnús Ólafsson Stúf sinn undir fyrirsögninni: Jólaböllinn í góðum höndum !!!!

 7. Gísli, ég held að þú og jámenn þínir séuð að búa til sögur af vitlausum þýðingum.
  Sagan af jakuxanum í toppíbúðinni er svo fáránleg að hún hefur ekki getað sést
  í sjónvarpi. Þótt þýðandi hafi gert þannig skyssu er öruggt að prófarkalesari
  hefur gert athugasemd við hana. Og ég trúi ekki að skot í hausinn hafi verið
  í Entourage. Akkorðsvinna býður upp á þetta. Í vor varð mér á að rugla saman orðunum
  face og faeces. Ég reyni að afsaka mig með því að orðin komu bæði fyrir í sömu
  málsgrein. Allir sem starfa við þetta gera gloríur, meira að segja þú eins og ég
  benti þér eitt sinn á. En nóg um það.
  Björn

 8. Björn! Ég bý ekki til sögur af vitlausum þýðingum! Ég á enga jámenn og sækist ekki eftir því.
  Við getum verið sammála um það að allir þýðendur gera villur. Ég get hlegið að mínum villum og annarra. Þú ættir að gera það líka. Hláturinn lengir lífir. Ég stefni á að verða allra karla elstur.

 9. prófarkalesari einmitt gerði athugasemd við jakuxann, bróðir minn var viðkomandi prófarkalesari og leiðrétti þýðinguna. Þannig að það er rétt, hún birtist ekki í sjónvarpinu. Fyndin fyrir því…

 10. Gott að fá þetta á hreint, Hildigunnur. Að sama skapi verður meint þýðingavilla: I live in a condo-ég bý í smokk, afar grunsamleg hér eftir.

 11. Hey, ég tel mig vera heimildarmann þýðingarvillunnar þar sem condo var ruglað saman við smokk og stend fyllilega við að þessi misskilningur hafi birst í skjátexta við bíómynd fyrir mörgum árum. Þori samt ekki að hengja mig uppá nákvæmt orðalag þýðingarinnar, en mig minnir að hún hafi verið: „Íbúðin mín er eins og smokkur.“
  Þetta rifjar upp gátuna norsku: Hva er forskjellen på en kondom og Nidarosdomen? I Nidarosdomen er det 500 sitteplasser, men i en kondom er det bare en ståplass!

  PS. Joðið á eftir nafninu mínu stendur ekki fyrir jámann þótt ótrúlegt megi virðast…

 12. Já… Fyrir mörgum árum lagði Kristelig folkeparti í Noregi til að hætt yrði að selja smokka á bensínstöðum eftir kl. 16 á laugardögum til að koma í veg fyrir lauslæti. S’u tillaga dó reyndar drottni sínum…

 13. Aðaljámaðurinn er Sigfinnur, gamli maðurinn í Spaugstofunni. Ekkert skyldur, held ég, öðrum Sigfinni í Hafnarfirði.

 14. Ekki villa en hefur setið í minninu í mörg, mörg ár. Kom í lok einhvers grínþáttar að þýðandi hefði verið Þröskuldur Háinsson 🙂 Tók af þessu mynd sem ég ætla að leita að í ellinni…

 15. Ábending frá lesanda:
  Í Wife Swap á Stöð 2, 31. okt, var orðið „pool“ tvisvar þýtt sem „vasabilljard.“

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.