Smitandi málfar

Valur leika í bikarkeppni í næstu viku. Fram ætla að ráða nýjan þjálfara….
Mér finnst alltaf sérkennilegt að sjá eintöluorð taka með sér sögn í fleirtölu. Íþróttafréttamenn eru frægir fyrir þetta, bæði í ræðu og riti og varla er þverfótað fyrir svona villum á síðum dagblaðanna. Svo smitar þessi málvilla yfir í næstu bása og unglingarnir sem basla við að þýða poppfréttir og slúður ofan í okkur, halda að þetta sé rétt.
Dæmi: Arsenal leika þrjá leiki í næstu viku. Manchester United mæta Liverpool á morgun. Rolling Stones eru of gamlir…
Meðan ég þýddi fyrir Sýn reyndi ég af veikum mætti að hafa áhrif málfar íþróttafréttamannanna með þokkalegu orðalagi í handritum. Þar fengu Arsenal-menn eða Skytturnar að leika sína þrjá leiki, United-menn (oft kallaðir Fergusynir á tyllidögum) mættu Liverpool og ef meðlimir Stones hefðu ekki verið svona gamlir, hefðu þeir jafnvel verið í boltanum í einhverri mynd. Samstarfið var gott og Lynghálsverjar voru almennt vel máli farnir, þótt ýmislegt hafi fengið að fjúka í beinum útsendingum.

Fyrst minnst er á smitandi málfar væri gaman að vita hvernig tuggan „með þeim hætti“ komst í tísku hjá stjórnmálamönnum. Hikorð eru þreytandi til lengdar, eins og hvert annað hismi sem drekkir kjarnanum og þegar stjórnmálamenn sem eru nógu leiðinlegir svona almennt, nota þessa tuggu að jafnaði 5-6 sinnum á mínútu „með þeim hætti“ slekkur maður fyrr á þeim en ella.

9 athugasemdir við “Smitandi málfar

 1. Auðvitað ætti ég, manna síst, að setja út á málfar íþróttafréttamanna. En ég fékk DV, frá þriðjudeginum 3. jan. í hendurnar í vikunni. Þar er fjallað um frægt olnbogaskot, með krepptum hnefa, sem átti sér stað í leik nágrannaliðanna UMFN og Keflavíkur í efstu deild körfuboltans. Þessi stutta umfjöllun er ekki rituð á neinni gullaldar íslensku og ég nenni ekki að tína allt til sem þar gæti betur farið. En hér nefni ég eitt dæmi um kunnáttuleysi þess er greinina ritaði: „Í dag kl. 17 hittist aganefnd KKÍ“. Ætli hún hittist af tilviljun eða komi saman til að fjalla um olnbogaskotið?? Þetta finnst mér gott dæmi um fátæklega málnotkun.

  En það eru ekki eingöngu íþróttafréttamenn sem sýna fátæklega meðferð móðurmálsins. Fyrirsögn í sama blaði. „Útigangsmenn sagðir margfalt fleiri en þeir sem hýrast í Öskjuhlíð“ Orðið „sagði“ er farið að tröllríða fyrirsögnum íslenskra prentmiðla síðustu árin. Má vera að þetta sé ekki málvilla en ofnotkunin lýsir fátæklegu hugmyndaflugi og tungutaki blaðamanna og slælegu starfi málfarsráðunauta fjölmiðlanna.

 2. Eitt hafa íþróttafréttamenn tekið upp sem ég er ánægður með. Það er fjölbreytileg notkun sagnorða þegar þeir tilkynna mörg úrslit, t.d. úrslit úr heilli umferð í ensku deildinni eða NBA. Liverpool vann, lagði, sigraði, burstaði…

 3. Hér kemur eitt dæmi, úr mbl.is 09.01.06 um klúðurslega frásögn af leik Íslendingaliðsins Reading og WBA frá því í gær.

  „Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku vel saman í miðvarðarstöðunum hjá Reading sem náði jafntefli, 1:1, gegn úrvalsdeildarliði WBA á The Hawthorns, heimavelli WBA.

  Það leit allt út fyrir að WBA væri að tryggja sér sæti í 4. umferðinni þegar ungverski landsliðsmaðurinn Zoltan Gera skoraði úr vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok þegar Chris Makin braut á Geoff Horsfield en toppliði 1. deildarinnar tókst að jafna þegar Kevin Doyle jafnaði tveimur mínútum síðar úr vítaspyrnu sem dæmd var á Martin Albrechtsen fyrir að handleika boltann eftir skalla frá Ívari Ingimarssyni.“ Ég er ekki viss um að Stella hefði sætt sig við þessa ritsmíð!!!

 4. Stella yrði ágæt á íþróttadeildinni og það mætti líka setja hana yfir slúðrið. Þar tek ég einkum eftir ofnotkun á sögninni „að viðurkenna.“ Fólk viðurkennir allt milli himins og jarðar, eins og það sé að játa á sig glæpi. Þýðingafnykurinn finnst líka langar leiðir.

 5. „Eitt hafa íþróttafréttamenn tekið upp sem ég er ánægður með. Það er fjölbreytileg notkun sagnorða þegar þeir tilkynna mörg úrslit, t.d. úrslit úr heilli umferð í ensku deildinni eða NBA. Liverpool vann, lagði, sigraði, burstaði…“ Hörður Magnússon las þessa frétt í á NFS um daginn. Með smáaðstoð undirritaðs fór hún svonaí loftið svona í loftið „Cleveland lagði Chicago, Washington marði Lakers, Orlando vann Millwaukee, Knicks tapaði fyrir New Jersey, Phoenix bar sigurorð af Minnesota, Dallas hafði betur gegn Indiana, Seattle sigraði Boston, Portland skellti Sacramento og Golden State laut í lægra haldi fyrir Denver.“

 6. Svona eiga bændur að vera! Hörður er góður maður enda fæddur árið 1966 og alinn upp í Hafnarfirði.

 7. Íþróttafréttamennska býður upp á mikla fjölbreytni í málnotkun. Bæði í ræðu og riti. Íþróttafréttamönnum sem leggja sig eftir krydda málfar sitt með faglegum hætti eru gullsígildi fyrir íslenskukennara sem geta haldið uppi löngum samræðum við nemendur um málið okkar og eitthvað sem flestir hafa áhuga á. Fjölbreytt notkun sagnorða, lýsingarorða og jafnvel atviksorða gerir umfjöllun um íþróttir mun fjölskrúðugri en umfjöllun um almennar fréttir bjóða upp á. Því ber að þakka hugmyndaríkum íþróttafréttamönnum og ekki minnst þeim sem hafa alið hefur aldur sinni Hafnarfirði og Fimleikafélaginu og þar að auki er dyggur stuðningsmaður drengjanna frá Anfield í Liverpool.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.