Náðhús nafnleysingja

Ég hef einlægan áhuga á hvers konar málefnalegum umræðum og berst fúslega fyrir rétti fólks til að tjá sig og hafa skoðanir, þótt þær séu ekki mér að skapi. Það er gaman að rökræða. Flest skoðanaskipti nútildags falla undir þennan hatt. Af öðrum toga eru umræður undir dulnefnum.
Ég hef séð það staðhæft víða á netinu að fólk þurfi að hafa vettvang til að tjá sig í skjóli nafnleysis og hefur sú umræða blossað upp í tengslum við lokun malefnin.com. Ég ætla mér ekki að fullyrða um alla sem hafa skrifað þar, en mín kynni af nafnleysingjum á netinu eru þannig að mér er meinilla við þá, ætla ekki að skiptast á skoðunum við þá og vil ekki sjá nafnleysingja á vef sem ég held úti. Ef fólk nennir að kynna sér skrif nafnleysingja eru hæg heimantökin að skoða vef Blaðamannafélagsins, press.is. Þar stunda tugir nafnleysingja skítkast á blaðamenn og telja það heilagan rétt sinn að fá að gera það. En það er önnur saga.

Í morgun birtist hér á síðunni athugasemd frá „Ásgeiri Páli.“ Nokkru seinna kom önnur athugasemd með svipuðu innihaldi, frekar gífuryrt, og þá hét höfundurinn „glymur.“ IP talan 85.220.108.180, sýndi að sendingarnar komu úr sömu tölvu og þá er rökrétt að álykta að þetta sé einn og sami einstaklingurinn. Einnig kom í ljós að netfang viðkomandi var falsað. Þegar þetta lá fyrir eyddi ég athugasemdunum.
Við þetta hljóp nafnleysingjanum kapp í kinn og hrúguðust inn athugasemdir, allar frekar rætnar og skítlegar. Mér gramdist þetta og af einskærri illkvittni breytti ég 2 athugasemdum hans en fleygði öðrum. Eftir það var stillingum breytt. Núna eru fimm athugasemdir sem bíða samþykkis en þar sem þær eru allar samhljóða, settar fram af frekju og yfirgangi verður þeim bráðum sturtað niður.

Það þarf ekki að taka fram að almennt fagna ég athugasemdum. Netið er gagnvirkur miðill. En ég hef engan áhuga á að verða náðhús nafnleysingja þar sem þeir þykjast hafa rétt til að skíta að vild. Ef einhverjum er kunnugt um hver á IP-töluna 85.220.108.180, má gjarna láta mig vita. Netfang mitt er gisli (hjá) internet.is. Ég heiti Gísli Ásgeirsson. Niður með nafnleysingja!

15 athugasemdir við “Náðhús nafnleysingja

 1. Ég get ekki séð að ummæli nafnleysingja eigi neinn rétt á sér. En svo er til fólk sem gerir athugasemdir undir nafni en gefur ekki upp netfang eða heimasíðu. Mér finnst slík komment ígildi nafnlausra athugasemda.

 2. Hvernig geta IP tölur fallið undir persónuverndarlög? IP tölum er oft úthlutað í hvert skipti sem notandi tengist internetveitu sinni og það þarf lögreglu til að komast að því hver tengdist á hvaða tölu hverju sinni.

 3. Þetta er nú eiginlega svolítið athyglisverð spurning. Það er einkenni Netsins, og um það hafa fallið dómar, að þegar fólk birtir skrif sín þar teljist þau opinber. En hvað um það sem fylgir skrifunum? IP tölur og netföng? Verður ekki að álykta sem svo að sé ekki sérstaklega beðið um að um þær upplýsingar sé þagað séu þær hluti bréfsins og sem slíkar opinberar?
  M.a.o. Þetta ritar Matthías Kristiansen. Ég skrifa undir fornafni á þessari síðu enda veit eigandi hennar hvaða gaur er þar á ferðinni. Ég hef m.a. búið í Borgarnesi.

 4. IP- tölur sem slíkar njóta engrar verndar í lögum. Upplýsingar um eigendur
  þeirra teljast viðkvæmt mál og t.d. fær lögreglan ekki þær upplýsingar nema
  í tengslum við rannsóknir. Það er því áreiðanlega ekki lögbrot að birta tölurnar en
  rétt að hugsa sig um áður en menn birta nafn þeirra sem skráðir eru fyrir tölunum.

 5. Ég sé ekki betur en föst IP-tala fylgi mér hvert sem ég flakka í vinnutölvunni. Önnur IP-tala fylgir heimatölvunni. Þeir sem skrifa athugasemdir á wordpress-vefi og fleiri svipaða, þurfa að gefa upp netfang, en það birtist ekki á viðkomandi síðu. Ég hefði ekki birt þessa IP-tölu ef eigandi hennar hefði skrifað undir réttu nafni og netfangi. Mér finnst óþarfi að misnota upplýsingar.

 6. Ég er fylgjandi nafnleysu og tel það mjög mikilvægur faktor á internetinu sem og annarsstaðar. Það þýðir samt ekki að ég sé fylgjandi dónaskap hvort sem hann er undir nafni eða nafnleysu og finnst mér bara gott mál að skítkasti sé eytt og þannig séu búnar til kurteisisvenjur. Rétt einsog mönnum er bara fleygt út af skemmtistöðum og öðrum stöðum ef um dólgslæti er að ræða. Ég vona bara að 85.220.108.180 læri eitthvað af þessu og tileinki sér betra orðbragð og komi undir nafni, því hérna er engan að óttast.

 7. Hugsanlegt er að nafnleysinginn hafi dregið þá ályktun að það væri í lagi að nota dulnefni, því að á þessari síðu skrifa menn undir nöfnum eins og Matti, Dunni, Iðunn nemönd o.s.frv. Jafnvel tvínefnið Páll Ásgeir getur átt við a.m.k. 8 Íslendinga. Það sem nafnleysinginn virðist ekki hafa gert sér grein fyrir að enginn okkar hinna reynir að villa á sér heimildir. Gísli veit vel hverjir við erum enda þekkjast flestir sem skrifa á þessa síðu. Það sem gerir nafnleysingjann að lítilmenni er að hann reynir að villa á sér heimildir og dreifir skít í kringum sig.

 8. Við spurningunni um nafnleysið er varla til eitt algilt svar. Annars vegar er það sjónarmið að menn skuli geta séð, hver setur fram tiltekið efni eða sjónarmið, svo hægt sé að láta hann sæta ábyrgð ef hann brýtur gegn samborgurum sínum. Það er vissulega sjónarmið sem vegur þungt.

  Hitt er svo annað mál að til eru einstaklingar sem búa yfir vitneskju sem á fullt erindi til almennings eða yfirvalda, en eru þess eðlis eða um þessháttar starfsemi að óráðlegt er að láta þær frá sér fara undir nafni. Má þar t.d. benda á að á Íslandi er engin raunveruleg löggjöf sem verndar vitni og engin löggjöf um svokallaða wistle-blowers. Slíkt væri enda sennilega gagnslaust í ríki sem telur rétt um 300.000 íbúa.

  Almennt hallast ég að því að nafnleynd sé skjól bleyðunnar til að fremja illvirki sín. Hún virðist allavega vera þannig notuð á flestum svokölluðum bloggsíðum. Ég sé ekki, og hef aldrei séð, hvað tölvupóstar Jónínu Benediktsdóttur, svo dæmi séu nefnd, koma hinu svokallaða Baugsmáli við. Það mál snýst um sekt eða sakleysi tiltekinna einstaklinga sem eru aðeins örfáir af þeim ógæfusömu einstaklingum sem ár hvert eru hafðir fyrir sökum um refsiverða háttsemi. Tölvupóstsamskipti einhverra einstaklinga, í aðdraganda lögreglurannsókna, skipta engu nema verið sé að sannmælast um að bera menn röngum sökum. Það er vissulega lögreglumál en svo virðist ekki vera í þessu tilviki (ég tek það þó fram að ég hef ekki lesið innihald póstanna og ætla mér ekki að gera það).

  Þetta vekur allt saman spurningar um þá afsiðun sem virðist hafa átt sér stað í íslensku þjóðfélagi. Menn virðast vera þeirrar skoðunar að allt sé siðlegt ef ekki er hægt að sanna að það sé refsivert. Jafnvel geti verið siðlegt að fremja ólögmætan verknað ef það skilar nægum hagnaði og hægt er að komast upp með það refsilaust.

  Ég vil taka það skýrt fram að með þessum skrifum er ég ekki að taka afstöðu í einu eða neinu refsimáli sem nú er til meðferðar í dómsmálum. Það er dómsmálanna að gera það. Ég veit hina ákærðu, í hinu svokallaða Baugsmáli, vera hina ágætustu menn og sé enga ástæðu fyrir mig að fella nokkra dóma yfir þeim.

  Ég hef, með þessum stutta pistli, brotið þá gullvægu reglu sem ég setti mér nýverið; „að taka ekki þátt í skoðanaskiptum á Netinu“. Hana setti ég mér eftir að ég hélt úti bloggsíðu og yfir mig rigndi nafnlausum óhróðri af ótrúlegustu sort. Nú hef ég rofið bindindið og verð sennilega að finna mér eitthvað 12 spora prógramm til að rétta mig af.

 9. Hér er fullyrðing til umhugsunar: Eins öfugsnúið og það kann að hljóma þá gerði DV Styrmi og Jónínu stórkostlegan greiða með að birta frétt af ástarsambandi þeirra.
  Rökin eru þau að fréttin, sem nota bene var hófstillt, tók slagkraftinn úr hinni ókræsilegu síðu sem Magga Refur opnaði síðar og finna mátti innihélt skannaða pósta Jónínu, Styrmis og fleira fólks. Og þó menn vilji sennilega telja „sorpblaðið“ hafa hlakkað sjálft yfir þeirri frétt þá er nú ekki svo. Og hvernig sem menn óska sér nú að heimurinn sé, velkist og fari, þá skipti sú staðreynd að þetta ástarsamband var máli í því helsta fréttamáli sem þá var uppi — og er enn.

  Kveðja,
  Jakob

 10. Ps. Bölvað er að geta ekki lagað ambögur sínar þegar skrifað er inn á svo virðulegan vef. Ég sé að þarna hefur slegið saman setningum en erfitt við að eiga þegar forritið þitt, ágæti Gísli, krefst þess að maður skrifi brot athugasemda sinna blindandi.

 11. Jáhá.

  Alltaf skrifaði Regína undir nafni og það geri ég líka.

  Annars heiti ég Guðni Þorleifur og er Ölversson. Hef aldrei verið kallaður annað en Dunni og þess vegna stendur það nafn undir skrifum mínum hér.

  Annars get ég svo sem viðurkennt að mér finnst í einstaka tilfellum geti verið þörf á að skrifa undir nafnleynd. En það er þða í algerum undantekningar tilvikum og alls ekki til að mæla með.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.