Fengitími eða stefnumót?

Því er haldið fram að á íslensku sé til orð yfir allt sem er hugsað á jörðu. Starf þýðandans er oft leit að þessu orði. Stundum finn ég það ekki og fer þá einhverjar krókaleiðir til að koma merkingunni á framfæri. Heilabrot þessa morguns hafa snúist um eina litla setningu á ensku: „I’m dating.“ Þetta segir ungur læknanemi og er mærin nokkuð roggin með sig, enda gengur þessi þáttur út á ástarsambönd starfsfólks á sjúkrahúsi sem fær þess á milli stórfurðulega sjúklinga sem margir hverjir taka virkan þátt í ástalífi þess. Ég hef tvisvar legið á sjúkrahúsi og finnst núna að ég hafi misst af einhverju þar.
Samkvæmt Google eru til 9950 síður með sögninni „að deita.“ Ég man eftir forsíðufyrirsögninni: „Er að deita en ekki að leita.“ Mér er fyrirmunað að nota þetta orð því það er stæk enskufýla af því og þar að auki held ég að amerísk stefnumótamenning eigi ekkert erindi hingað. Það er reyndar aukaatriði því merkingu orðsins verður að koma á framfæri.
Eftirfarandi lausnir urðu til í samtali við málfarsið á Lynghálsinum.
Ég hitti menn.
Ég er með mönnum.
Ég er á karlafari.
Ég er mönnum sinnandi.
Nú er fengitími hjá mér. (í merkingunni: verð að fá það)
Ég er mannelsk.
Ég stunda stefnumót.
Ég er stefnumætin.
Ég er hittin. (Sbr. fyrstu lausn)

Ég upplýsi ekki hvaða lausn varð fyrir valinu. En „deita“ kemur ekki til greina.

Auglýsingar

14 athugasemdir við “Fengitími eða stefnumót?

 1. „Því er haldið fram að á íslensku sé til orð yfir allt sem er hugsað á jörðu.“

  Hvaða heimaöldu kjánar hafa eiginlega haldið þessu fram???

 2. P.S. Þú ert sem sagt að þýða þættina Grey’s Anatomy og mun það vera persónan Meredith sem mælir þessi orð. Ég tek undir að þessi orð er ómögulegt að þýða á íslensku, enda held ég að Íslendingar eigi hvorki orð né hugtök yfir lykilatriði bandarískrar deitmenningar.

 3. „Ég skildi að orð er á íslensku til
  um allt, sem er hugsað á jörðu.“
  Einar Benediktsson orti.

  Ég kalla þig annars góða að hafa kannast við persónuna af lýsingu minni.

 4. Hvernig hljóma orðin „karlsækin“ og „kvensækinn“, nú ef karl vill „deita“ karl þá er hann „karlsækinn“.
  Svo dettur mér í hug „karltæk“ og „kventæk“, þeir/þær sem ekki skeyta um kynið eru þá „altækir“ eða „altækar“.
  Þeir sem eru á föstu á einhvern hátt eru þá „ótækir“.

 5. Karlmenn geta auðvitað farið á stefnumótin eins og Tómas kvað um forðum. Vandinn er að þýða sögnina „að deita.“

 6. Þetta hlaut að hafa verið einhver eins og Einar Ben.

  Nú er ég alltaf að velta fyrir mér mögulegri þýðingu á þessu og er varla mönnum sinnandi yfir því. Í rauninni finnst mér „Ég er mönnum sinnandi“ ná merkingunni best en það er spurning hvort það mundi skiljast. Ef merkingin á almennilega að komast til skila þyrfti þetta að vera einhvern veginn svona: „Ég hef ákveðið að taka til greina tilboð frá karlmönnum um stefnumót með rómantískt samband og jafnvel kynlíf í huga (eða „kynlíf og jafnvel rómantískt samband“, eftir því hvernig er forgangsraðað).“ En þetta kæmist trúlega illa fyrir á skjánum. Hmm, hvað með „Ég hef látið af skírlífinu“ sem er jú í rauninni það sem sögupersónan er að koma til skila þarna? Sem sé þá hef ég séð þennan þátt og man um hvað málið snýst.

 7. Allt eru þetta góðar tillögur. Eyja kemst vel að orði um vandann að koma merkingunni til skila því skjátextinn er stuttur, að hámarki 70 slög í tveimur línum. Mesta þraut þýðandans er að sjóða frumtextann niður í textaeiningar.

 8. Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki séð þessa þætti og get því ekki sett mig almennilega inn í þetta tiltekna mál. Svona almennt talað finnst mér að setningin „I’m dating“ geti vel þýtt „Ég er í sambandi“. Hins vegar skal ég alveg viðurkenna að það á kannski ekki alltaf við. Af samhenginu í svarhalanum ræð ég að þessi persóna hafi aldrei farið á stefnumót en sé allt í einu byrjuð á því – ef það er rétt skilið hjá mér er þýðingin kannski ekki kórrétt, en gæti gengið. Að því gefnu að sjálfsögðu að persónan eigi í sambandi við einhvern einn tiltekinn mann, en sé ekki á svokölluðu „stefnumótafylleríi“.

  Góðar stundir… 🙂

 9. Einn maður sem ég þekki notar: skvetta saman rössunum. Og hefur gert um árabil.

  Ég er ekki viss um að ég myndi velja þann kost sjálfur.

 10. „Ég er á föstu“ væri kannski eðlilegasta þýðingin á orðunum „I am dating“ en hljómar kannski eins og öfugmæli um vergjarna klamydíubera á sjúkrastofnunum sem týna nærbrókunum sínum í vinnunni. „Ég er á lausu“ væri því líklega betur við hæfi, en gengur samt ekki, því þótt þessir heilbrigðisstarfsmenn séu allir á lausu eru þeir á föstu líka. „Ég hef látið af skírlífinu“ hljómar eins og tillaga karlmanns sem gleymir því að samband snýst um fleira en kynlíf; „einlífið“ ætti kannski betur við? En mér finnst orðasambandið „ég er að slá mér upp“ lýsa best alvöruleysinu í hinni flaskenndu ráðagerð.

  En þú ert ekki í vandræðum með þetta, Gísli.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.