Gæsun

Bjánahrollurinn nær oft hámarki þegar maður verður vitni að gæsun eða steggjun þar sem allar lágkúrulegustu hvatir vina brúðgumans væntanlega eða brúðarinnar fá að njóta sín. Mér hefur alltaf verið fyrirmunað að sjá hvað er fyndið við að ráfa sauðdrukkinn um Kringluna og falbjóða sig gestum og gangandi eða gera sig að fífli á Laugaveginum eða álíka miklu almannafæri. Alltaf er nokkur hópur vina í nálægð við gæsina eða stegginn, aðallega til að festa athæfið á filmu og hella meira áfengið í fórnardýrið. Við altarið daginn eftir standa brúðhjónin síðan næpuhvít og æla til skiptis inni í skrúðhúsinu. Sannkallaður gleðidagur. Þannig var hann í það minnsta hjá ónefndum hjónum sem ég kannast við en brúðguminn fullyrti að það hefði tekið hann þrjá daga að jafna sig eftir steggjunina og þar af var brúðkaupsdagurinn sjálfur verstur.
Þetta er frekar langur aðdragandi að þátttöku minni í gæsun í dag. Þar kom áfengi ekki við sögu og ekki stóð til að gera neinn að fífli. Þess vegna sló ég til eftir nokkrar fortölur.
Upp úr hádeginu í dag renndi ég því út á Álftanes, lagði í hæfilegri fjarlægð frá kirkjunni og fylgdist með í kíki þegar ung stúlka var skilin eftir við kirkjutröppurnar. Þegar hún hafði beðið hæfilega lengi mætti ég á staðinn. Fyrst hélt hún að ég væri amrískur túrhestur að skoða kirkjuna en þegar sólgleraugun hurfu sá hún að þarna var kominn kennarinn hennar úr barnaskóla fyrir 22 árum.
Það gladdi mig að hún mundi eftir mér. Ég mundi vel eftir henni því hún var skapmikil og ákveðin, klár stelpa með hugmyndaflugið í góðu lagi og það kom mér ekkert á óvart að heyra að hún hefði lært grafíska hönnun. Hún sýndi listræna tilburði strax í tíu ára bekk. Nú er hún 32 ára og á leið í hjónabandið.
Þetta urðu fagnaðarfundir og margt bar á góma á leið út í Hagaskóla þar sem næsti maður tók við henni. Þessi gæsun fólst í því að einstaklingar úr fortíð stúlkunnar áttu við hana stefnumót hist og her á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit ekki hver sá er sem við tók af mér en hún fagnaði honum með álíka undrun og gleði og mér.
Mér hafði verið uppálagt að gefa henni góð ráð fyrir hjónabandið. Þess þurfti reyndar ekki með þar sem mörg sambúðarár eru að baki hjá henni og þau þekkjast nógu vel til að vilja binda trúss sitt saman til frambúðar. Eftir almenn heilræði um nauðsyn þess að ræða málin og sættast eftir deilur kvöddumst við með kærleikum. Ég held að þetta verði hamingjusamt hjónaband hjá þeim.

4 athugasemdir við “Gæsun

  1. Ohh, ég er alltaf jafn fegin þegar ég hugsa til þess að þetta gæsa/steggjarugl var ekki byrjað þegar ég gifti mig. Reyndar held ég nú að slíkt fari oft fram 2-3 vikum fyrir brúðkaupið núorðið, sjaldnar daginn fyrir, sem betur fer.

  2. Þessi gæsun hljómar of góð til að geta verið sönn.
    Sammála með hitt, ömurlegur siður sem ég hélt reyndar að væri að hverfa aftur en hann mun líklega lifa meðan moggablogg og barnalönd hjara.

  3. Þeir sem sáu fréttir Stöðvar 2 í gærkvöldi geta líka haldið að svona gæsun þekkist ekki. Þar var ung stúlka látin stökkva í Tjörnina því gæsir eiga jú að kunna að synda. Lögregla var kvödd til og einhvern veginn rataði myndatökumaður á staðinn. Ekki fór á milli mála hve drukkun stúlkan var.
    Ég held að vinkonur minnar gæsar ættu að gefa út leiðbeiningar um góða og nútímalega gæsun.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.