Katanesdýrið

„Árið 1874-76 þóttust menn verða varir við undarlegt dýr nálægt tjörn einni hjá bænum Katanesi á
Hvalfjarðarströnd. Eftir blaðafregn var það á stærð við þrevetran nautgrip, aflangt með digran haus og þriggja
álna langan hala. Það átti að hafa sex klær á stuttum fótum, afar mikinn kjaft með fjórum hvössum framtönnum.
Það synti hraðar en það hljóp og elti menn og sauðfé. Með fulltingi landhöfðingja lágu menn um hríð við
tjörnina. Skurður var grafinn úr henni í átt til sjávar og dagsverkum jafnað niður á hreppsbúa. Aldrei fundu
menn þó skepnuna.”

Þetta er Katanesdýrið, eina skepnan sem ég trúi að hafi verið til og að afkvæmi þess lifi góðu lífi einhvers staðar á Hvalfjarðarströndinni. Eftir að umferð þar minnkaði, er meira næði fyrir alls kyns kykvendi að lifa þarna góðu lífi.

Oft hef ég öfundað Skota af Loch Ness skrímslinu sem malar þeim túristagull. Nú berast þær fregnir frá Skotlandi að minnkandi tiltrú á skrímslið ógni túrhestastreymi til landsins. Æ færri segjast sjá skrímslið og því miður, fyrir Skota, hefur engum dottið í hug að ráða óljúgfróða heimamenn til að „sjá“ það öðru hverju.

Nú er lag fyrir okkur að græða á Katanesdýrinu. Þetta er tíu ára verkefni sem hefst með því að vandaðir og óskyggnir menn sjá dýrið á ferli, ná jafnvel hreyfðum ljósmyndum af því og birta í blöðum. Ef vel er á haldið má kynda undir gott fár og áhuga útlendinga, sem eru trúgjarnir að eðlisfari. Framhaldið blasir við.

Ég á leið þarna uppeftir á morgun. Ég á fastlega von á því að sjá Katanesdýrið um hádegisleytið. Ég verð með myndavél.

4 athugasemdir við “Katanesdýrið

  1. Sjáðu bara Héraðsmennina – þeir eru með vel skrásett skrímsli í grugguga vatninu sínu og það fær bara að vera þar í friði fyrir túristum.

    Það þyrfti líka að sjást endrum og sinnum.

  2. Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur, skrifaði eitt sinn merkilega grein um þetta skrímsli og önnur, sem annað slagið sjást hér og þar um landið í einhvern tíma og hætta svo að láta á sér kræla. Ekki hvarlar að Helga, vini mínum, að ásaka sjónarvotta um lygi. Hann telur að stundum álpist hingað otrar og orki svona á menn.

  3. Mér fannst ég sjá Katanesdýrinu bregða fyrir niðri við sjóinn um hádegisbilið. Það var vel í holdum og vagaði.

    Best að skreppa austur næsta sumar og sjá Lagarfljótskykvendið.

  4. Verst að ég held að búið sé að þurrka Katanestjörnina upp. Ég er alin upp þarna í næsta nágrenni og gerði í æsku ítrekaðar tilraunir til að berja kvikindið augum en það tókst aldrei. Og Símon Jónsson, afi minn, (sem lést árið 1896) var hreppstjóri í Hvalfjarðarstrandarhrepp þegar Katanesdýrið grasseraði þar. Hann fékk mann til að skjóta kvikindið og sagðist sá hafa náð að hitta það en dýrið flúið sært ofan í tjörnina. Sá vildi fá sína greiðslu fyrir en afi gamli neitaði að borga nema hafa sönnun fyrir því að dýrið væri dautt.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.