Misnotkun á syrgjendum

DúddiFyrir nokkru lést maður nokkur á besta aldri. Af tillitssemi við hann og ættingjana verður þessi frásögn nafnlaus, en þar sem mig grunar að finna megi hliðstæður, skiptir það ekki máli.

En nokkrum vikum eftir andlátið var hringt í náinn ættingja mannsins, sem hafði þá lengi reynt að fá tíma hjá þekktum miðli og huglækni, og tilkynnt að skyndilega hefði losnað tími hjá miðlinum. Þangað fór ættinginn í fylgd vinkonu og er ekki að orðlengja það að skilaboðin streymdu að handan þar sem hinn látni kvaðst vera farinn að hlaupa út um allt, en það hafði verið hans líf og yndi á yngri árum. Hann lét vel af sér og bað að heilsa. Hlaupin þóttu staðfesta að þetta væri rétti maðurinn. Einnig bar fasteignaáhyggjur ættingjans á góma og vissi miðillinn allt um þau og fullyrti að þetta færi vel og bæði yrði af sölu og kaupum. Ættinginn kom uppveðraður af fundi miðilsins og hafði heimsóknin mikil áhrif. Vinkonan, sem hafði haft milligönguna, var ekki síður ánægð.
Allar upplýsingarnar sem fram komu á miðilsfundinum mátti finna í minningargreinum um hinn látna og ekki hefði þurft margar fyrirspurnir til að komast að fasteignaviðskiptum ættingjans. Aðeins þarf sannfærandi framsetningu, innsæi og þokkalegan leik til að verða sannfærandi miðill. Þeir sem vilja hafa syrgjendur að leiksoppi og féþúfu, geta legið yfir minningargreinum, skoðað lista yfir eftirlifandi og fundið fórnarlömb. Heimsókn til miðils eða spákonu kostar slatta af þúsundköllum og eftirtekjan er góð því mikið framboð er af trúgjörnu fólki.

Ég trúi ekki á miðla og finnst það alltaf jafn hlægilegt þegar framliðnir birtast á miðilsfundum og hafa það eitt að segja að áminna þá sem lifa um að taka til í skápnum á ganginum eða passa sig á að drekka ekki of mikið kaffi því það valdi nábít. Þegar ég hrekk upp af eftir hálfa öld eða rúmlega það og fæ hugsanlega að hafa samband við þá sem lifa mig, ætla ég ekki að eyða svona langlínusímtali í kjánaleg smáatriði.

19 athugasemdir við “Misnotkun á syrgjendum

 1. Mikið bull er þetta ,heldur þú virkilega að miðlar hafi tíma til að að lesa allar þær fjölda af minningargreinum sem byrtast í blöðum.Þeir hefðu þá engan tíma til að taka á móti fólki til að flytja þeim sem eftir eru á jörðu skilaboð frá þeim sem farnir eru.Þetta lýsir bara fávisku og þröngsýni fólks,og það má alveg virða skoðun annara,ég er sannfærð að engin miðill biður fólk að koma til sín og eru það öllum frjálst. Góðar stundir

 2. Ég held að miðlar undirbúi sig fyrir vinnuna eins og aðrir. Gott dæmi um það er Lára miðill en látið fólk átti það til að birtast á miðilsfundum hjá henni og síðan voru fregnir um það færðar eftirlifandi aðstandendum. Þér væri eflaust hollt að lesa bókina um Láru.
  Maður að nafni James Randi hefur lengi boðið hverjum þeim sem sannað getur yfirnáttúrulega hæfileika sína milljón dali.
  http://www.randi.org/research/index.html
  Enn hefur enginn hreppt hnossið. Ég held að þessir miðlar sem hamast við að færa fólki fánýt skilaboð að handan, ættu að bera sig eftir peningunum.

 3. Rétt hjá Jóhönnu! Meina, ég sé morgunblaðið hér og það eru 9 síður bara með minningagreinum! Hvernig helduru að einhver geti lesið 9 síður og haft tíma til að lifa venjulegu lífi!? Og hvað þá að miðlast! Það getur enginn venjuleg manneskja lesið 9 síður bara sísvona! Það er fjarstæðukennt að hugsa til þess!

 4. Ég sé ekki ástæðu til að hengja sig í lengd minningargreina enda getur meðallæs maður rennt yfir þær á stundarfjórðungi og haft nægan tíma fyrir daglegt líf eftir það. Kjarni málsins er þessi: Miðlar hafa trúgjarnt fólk að féþúfu og það er skammarlegt.

 5. Ég get ekki annað að brosað þegar það er orðið erfitt að lesa heilar 9 bls af minningargreinum. Miðillinn veit hvaða fólk er að koma í heimsókn og hann þarf rétt að renna yfir aðalatriðin í minningargreininni til að plata fólkið upp úr skónum og hirða síðan peningana af því.

  Miðlar eru ekkert annað en svikahrappar allt saman, sumir vita það, aðrir ekki og alltaf er nóg til af fólki lætur þetta lið svindla á sér.

 6. Mér dettur í hug bara þröngsýni og hrikalega mikil vanþekking í þér Gísli.Þú ert með skoðun á þessum málum og er það vel,en að hrauna annarkonar þvælu eins og þú gerir að miðlar séu að kanna feril þeirra sem til þeirra koma,það hlýtur að vonlaust.Nú bý ég erlendis og hef gert mjög lengi,fór til miðils sem kom hingað,eina sem ég gaf upp var gælunafn mitt og síman minn (erlent númer).Hvernig átti þessi ágæti miðill að hafa tök á því að kanna mína fortíðarsögu og nöfn á þeim sem farnir voru.Mér finnst að svona þröngsýni og fáranleg skoðun eiga ekki rétt á sér.En ég skal virða hana ef þú virðir fólk sem hefur þessa löngun að fara til vandaða miðla,þó þú hafir það ekki. Þó að einhverjir miðlar hafa gert mistök þá á það ekki við alla,ef einn læknir,vísindamaður gerir mistök eru þá allir fúskarar og fjárplokkarar?.Góðar stundir

 7. Ég held að þessi ágæti miðill þinn ætti að vinna sér inn milljón dalina við tækifæri fyrst hann er svona fróður. Leitt að láta allt þetta fé liggja óhreyft úti í heimi.

 8. Ég skal gefa Jóhönnu milljón dali ef miðillinn hennar knái hafi sagt henni nöfn þeirra sem látnir voru í fyrstu tilraun.

 9. Þeir sem eru sannfærðir um hæfileika miðla til að bera skilaboð úr öðrum heimi ættu líka að kynna sér sögu Harrys Houdinis. Hann varði miklum tíma og peningum í að sanna það sem hann var sannfærður um að væri rétt – en tókst það aldrei.

 10. Ég hef ákveðið að trúa á rök Jóhönnu. Þeir sem trúa á miðla eru víðsýnir og opnir og þurfa enga sönnun. Þeir sem trúa á skynsemina eru þröngsýnir og til skaða bundnir að vanþekkingu.

 11. Ég held að ég sé miðill. Þegar ég rýni í nafn Sigurðar sé ég ferðalag, hugsanlega flugferð í suðurátt. Kannastu við það?

 12. æh, svona svona, það er ljótt að hæðast að trúgirni annarra, þið vitið jú að það er ákveðið gen sem trúað/trúgjarnt fólk hefur, en við ekki hin.

  (já, það er líka ljótt að misnota sér það…)

 13. Ótrúlegt! Ég var að koma heim eftir að hafa flogið suður til höfuðborgarinnar um helgina, en ég bý norður á Akureyri. Hvernig gastu vitað þetta! Hefurðu aðgang að skráningakerfi flugfélaga? Stundarðu persónunjósnir…eða ertu víðsýnn og opinn miðill?

 14. Miðilshæfileikar mínir eru ótvíræðir. Ég sé mikið af börnum og unglingum í kringum þig á fjölmennum vinnustað. Ertu hugsanlega húsvörður í grunnskóla?

 15. ,,Þeir sem trúa á miðla eru víðsýnir og opnir og þurfa enga sönnun“

  Síðan hvenær er það gott að þurfa ekki sönnun? Er það dyggð að láta plata sig? Eða að gefa gott færi á því?

  ,,Þeir sem trúa á skynsemina eru þröngsýnir og til skaða bundnir að vanþekkingu“
  =
  Þeir sem fylgja skynseminni hljóta skaða af?

  Ég vil líka benda Jóhönnu á að það eru margar fleiri leiðir fyrir miðla að sannfæra kúnna um hæfileika sína en sú að lesa sér til um þá fyrirfram, til dæmis háttlestur. Manneskjan varpar fram hugmynd, ef hún les jákvæð viðbrögð úr fari kúnnans heldur hún áfram með hugmyndina, annars breytir hún henni í eitthvað annað svo lítið beri á. Dæmi: ,,Ég finn fyrir karlmanni… umm, líklega ættingi, kannski frændi…? eða fjölskylduvinur…? Nei heyrðu, þetta er gamall vinnufélagi…“

  Góð grein hjá þér, Gísli. Ógeðsleg tilhugsun ef miðlar eru farnir að eltast við fólk út frá minningargreinum. Þetta er reyndar hugmynd sem var alls ekki búin að hvarfla að mér – þegar svona miklu plássi er eytt í minningargreinar í blöðum eins og morgunblaðinu, þá er gífurlegt magn af upplýsingum um nákomna látinna auðfáanlegt.

  ___________
  ,,Vertu með opinn huga, en ekki svo opinn að heilinn þinn dettur út“

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.