Á Arnarhóli

var kalt síðdegis og þeir sem voru illa búnir, skulfu sér til hita. Ég mætti svo snemma að ég hafði tíma til að rölta um nágrennið og sá aðallega sendiferðabíla með löggæslumönnum í ýmsum búningum. Við Þjóðleikhúsið voru sérsveitarmenn að fara í lambhúshettur. Þeir sneru í mig baki.
Á Arnarhóli var kalt en ræðurnar yljuðu og svo margir reyktu sér til hita að ég kom þegjandi hás á kontórinn, vegna reykjarofnæmis, en engu að síður var þetta ágætur fundur, margt gott lagt til mála en jafn margt í innantómum æsingastíl. Fundirnir eiga ekki að vera eins og landsleikur þar sem menn hrópa áfram Ísland og fara svo í kaffi í hálfleik. Það er kominn tími til að lyfta þessari hreyfingu á næsta stig, stig aðgerða, eitthvað sem er raunhæft að framkvæma, því það er ekki nóg á áttundu eða níundu viku að hrópa pereat á ríkisstjórn og Davíð. Fólk kann það núorðið. En ég nenni því ekki lengur ef það er allt og sumt. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr, er ekki skipt um stjórnir og þing með upphrópunum. Við verðum að fara að reglum lýðræðisins meðan við höfum það. Þótt viljinn sé fyrir hendi að skipta um stjórn, er alls ekki ljóst hvað kæmi í staðinn.
Í fólkinu sem mætir viku eftir viku á fund er mikill kraftur. En þess gætir núna að ef sá kraftur verður ekki virkjaður, fjarar hann út smám saman og hrópin verða hjáróma. Þá vitum við hverjir hafa sigrað.

14 athugasemdir við “Á Arnarhóli

 1. nákvæmlega það sem ég er hrædd við – að ekkert breytist þrátt fyrir mótmælin. stjórnvöld rorra áfram, kæra sig kollótt um hrópin. fannst hreint ótrúlegt að lesa að Geir nyti víðtæks stuðnings sem „leiðtogi“ – hvað er að þessari þjóð? mér dettur helst í hug að spurningin hafi verið orðuð svona: hvor er að þínu mati betri leiðtogi, Geir Haarde eða Ástþór Magnússon?

 2. Sammála. Ræðurnar á fundunum fara brátt að verða heldur klisjukenndar. Ekki vegna þess að þær séu endilega slæmar sem slíkar heldur vegna þess að það er búið að segja þetta allt saman svo mörgum sinnum. Það er talað um spillingu, óréttlæti o.s.frv. og þetta er allt saman hárrétt en þetta fer að verða svolítið margtuggið.

  Annars kunni ég ekki alveg við allt þetta tal í dag um að ESB væri ógn við fullveldi þjóðarinnar. Kunnum við Íslendingar nokkuð með fullveldið að fara? Á að stefna í einhverja últra þjóðernishyggju? Og áróðurstalið hjá Einari Má olli mér vonbrigðum, þegar farið er að tala um aðrar þjóðir sem vondar finnst mér allt of langt gengið og ég átti von á vandaðri málflutningi frá honum.

 3. Ég óttast klofning í þessum hóp sem getur orðið breiðfylking. ESB andstaðan kom á óvart. Við höfum prófað þetta svonefnda fullveldi í 90 ár og það er óttaleg afdalamennska að vilja ríghalda í allt en vilja um leið njóta fríðinda frá öðrum þjóðum, bara af því við erum svo mikil smáþjóð.

 4. Við vorum að stíga okkar fyrstu skref hér í París í dag, ykkur til stuðnings. Ég kokkaði upp ræðu á rúmri klukkustund, fulla af klisjum.
  Mér finnst hræðilegt að lesa um að þetta sé að fjara út, bæði hér og hjá Baun. Hvert er þá næsta skref? Að fylgja aðgerðarsinnum sem ryðjast inn í byggingarnar? Ég styð það heilshugar. Það verður að fá þessa menn (konur eru líka menn) til að hlusta og skilja og taka mark á þjóðarviljanum.
  Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af gengi Geirs í skoðanakönnun. Hann getur tekið sín samúðaratkvæði og hengt á jólatréð. Samúðaratkvæði eru lúsera-atkvæði.

 5. Það er skiljanlegt að þreyta hlaupi í fólk þegar það sér engan árangur af athöfnum sínum. Ég veit ekki með að ryðjast inn í byggingar. Ég skil vel það sem býr þar að baki og lýsi líka fullum stuðningi við það en hef efasemdir um árangurinn. Mér dettur í hug tvennt sem gæti skilað árangri: fjöldaverkföll og að fólk hætti að greiða reikninga.

  Reyndar tel ég að þótt mótmælafundir hafi ekki bein áhrif á stjórnvöld þá skili þeir samt heilmiklum árangri. Þeir efla samkennd, bæði meðal þeirra sem á þá mæta og hinna sem heima sitja en deila skoðunum mótmælendanna (og ættu auðvitað að hunskast á næsta fund). Þeir gefa skilaboð um vilja þjóðarinnar, bæði innan lands og utan. En það þarf að finna einhverjar leiðir til að virkja þann kraft sem mótmælafundirnir hafa hjálpað við að magna.

  Fyrirgefðu sníkjubloggið, Gísli. Það er svona þetta lið sem nennir ekki að halda út eigin bloggi.

 6. Já, við fundum fyrir miklum krafti og baráttuvilja hér. Á fundinn mættu tæplega 30 manns. Þar á meðal var fólk sem ég hefði aldrei búist við að léti sjá sig, fólk sem hefur frekar verið í „auðmannaklassanum“. Það er mjög ánægjulegt.
  Mér finnst vont að sjá uppgjafartal hjá bloggurum sem mig grunar að hafi marga lesendur og geti virkilega haft áhrif á mætingu á fundina.

 7. Eftir nóttina er niðurstaðan þessi: Ég held að fundirnir verði fámennari á aðventunni en ekkert dragi úr reiði fólks. Þrátt fyrir meinta kreppu koma jól og það sem þeim tilheyrir. Ég segi „meint kreppa“ því hún kemur ekki af fullum þunga fyrr en í upphafi febrúar þegar fyrirtæki leggja upp laupana eftir jólakauptíðina og atvinnuleysið eykst enn meira. Ef ekkert hefur þá verið hróflað við verðtryggingu og neysluvísitölu fer fólk unnvörpum í þrot. Ætli kraumi þá ekki einhvers staðar?
  Núverandi ríkisstjórn situr áfram, en eftir landsfundi flokkanna skýrast línur í ESB málum og ég held enn að kosningar verði í vor. Þá skiptir máli að hafa góðan kost. Mitt atkvæði er bara eitt en ég ætla að nota það.

 8. Ég er sammála.. ég hætti að klappa þegar drullið yfir ESB byrjaði, ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á því en sýnist í fljótu bragði að það eigi alls ekki að slá það út af borðinu enda virðist okkur varla treystandi fyrir okkar málum sjálf. Enda hefur það sýnt sig að bæði Finnar og Svíar mátu það nauðsynlegt í sinni bankakreppu að ganga í bandalagið og ég sé ekki að þeirra sjálfstæði sé eitthvað ómerkilegra eða þeirra auðlindir eitthvað minna virði en okkar. Þetta var líka skrýtið í ljósi þess að Þorvaldur Gylfason var þarna meðal ræðumanna sem er helsti talsmaður ESB landsins.

 9. Ég vil gjarna vinna að stofnun samtaka um framboð í kosningum. Þau þurfa að vera til staðar þegar verður kosið, sem valkostur fyrir þá sem treysta ekki núverandi flokkum.
  Ég hef litla þörf fyrir að trana mér fram, enda hógvær og lítillátur að eðlisfari.

 10. Blessuð kýlið á þetta bæði tvö. Ég get ekki komið nálægt þessu því þá er kominn ansi einsleitur hópur svo maður noti máltískuna. Hins vegar þekki ég fullt af klárum kollegum…

 11. Ég kýs ykkur! Mig sárvantar einmitt flokk. Ég er þó ekki til í að flytja heim til að fara vinna í eggjabúinu við Austurvöll.

 12. Drífið endilega í þessu og safnið til ykkar góðu og skynsömu fólki. Ég treysti ekki núverandi flokkum svo þið fáið pottþétt mitt atkvæði.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.