Eftir fúkyrðagusuna í gær verður slegið á bókmenntastrengi. Þetta var upphaflega glósa á fésbók en er færð hingað vegna eindreginna tilmæla.
Í frumgerð sinni en vísan óttalegt holtaþokuvæl, sennilega kveðin í fylliríi og volæði á hestbaki endur fyrir löngu. Kristján Fjallaskáld var bæði drykkfelldur og þunglyndur. Það fer illa saman.
Við nútímamenn verðum að hemma karlinn upp. Fyrstu tilraunir í þá veru voru gerðar fyrir löngu.
Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima-mikið.
Nú er horfið Norðurland
nú er ég kominn yfir strikið.
Nú er árið 2009 og farartæki er ekki lengur digur og vambsíð meri.
Yfir kaldan eyðisand
ætla ég að skreppa.
Nú er horfið Norðurland
nú er ég á jeppa.
Sumir kunna frumlegri ferðamáta
Yfir kaldan eyðisand
ætla ég á hreini
Bráðum sé ég Suðurland
Sólheima og Reyni.
Ég vil greiða leið um land
sem liggur eins og beint strik
Yfir kaldan eyðisand
á að vera malbik.
Hjálmar lagði þessa í púkkið:
Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég strunsa
kyssti stelpur víða um land
svo er komin frunsa
Þá kom þetta svar:
Yfir kaldan eyðisand
ældi viskispýju
eftir napurt Norðurland
og nótt með klamidíu.
Matti bætti við:
Yfir kaldan eyðisand
einn ég sveima.
Nú er horfið Norðurland,
nú er heima.
Enn lengdist halinn:
Yfir kaldan eyðisand
eins og köttur sveima
Nálgast bráðum Norðurland
nú er ég orðinn breima.
Þessi var skrifuð á töflu í einni stofunni í Menntaskólanum á Akureyri :
Yfir kaldan eyðisand
eitthvað suð’r á bæi
nú er horfið Norðurland
nú er allt í læi
Yfir kaldan eyðisand
aldrei vil ég sveima
fremur vildi fá mér hand-
fyll’af (setjið inn tveggja atkvæða nafnorð að eigin vali) heima
Fer ég yfir fokkings sand
firði sé og annes
Núna birtist Norðurland
núna sé ég Hannes.
Sæll, Gísli, og takk fyrir hressileg tilskrif sem er nú annað hvort; maður sem hefur slík tök á tungutækni sem þú fer nú varla að tala tæpitungu. En þessar eyðisands- og Norðurlandsvísur; mér skilst að þetta tilbrigði sé eftir Jón Ingvar Jónsson:
Yfir kaldan eyðisand
enginn kemst.
Nú er horfið Norðurland,
nema fremst.
Jón Ingvar er snillingur.