Að leika Stykkishólm og Eyrarbakka

Við Steinn og Erla Rut skemmtum okkur ágætlega í Útsvarinu í gærkvöldi, tókum þetta hæfilega alvarlega en höfðum kjörorð séra Friðriks að leiðarljósi þar sem hann brýnir fyrir mönnum að láta kappið aldrei bera fegurðina ofurliði. Okkur gekk þokkalega að svara spurningunum en í látbragðsleiknum náðum við járnbræðurnir aldrei flugi og vorum heppnir að merja fjögur orð rétt. Þau hefðu mátt vera fleiri. Erla Rut lagði sig fram og samkvæmt umtali reyndi hún ekki að leika eitt orðanna. Sama gerðu andstæðingar okkar frá Ísafirði. Á þessu er skýring.
Til þessa hafa keppendur þurft að leika ýmis lönd og höfuðborgir, þekkta einstaklinga (með misjöfnum árangri) og í gærkvöldi var komið að íslenskum smáþorpum. Á æfingum höfðum við reyndar velt fyrir okkur hvernig hægt væri að túlka höfuðborgir eins og París, New York og Kaupmannahöfn, en gerðum ekki ráð fyrir Stykkishólmi og Eyrarbakka.
Ég hef aldrei þótt góður í Actionary og er illa læs á látbragð fólks. Ég þigg öll ráð í þessum efnum og þætti gaman að vita hvernig hægt er að túlka Stykkishólm og Eyrarbakka á 12 sekúndum. Við töldum útilokað fyrir þáttinn að eyða tíma í að reyna þetta og sögðum því pass tafarlaust. Kannski misstu áhorfendur af skemmtilegum tilraunum séra Fjölnis og Erlu fyrir vikið. En ef svo heldur sem horfir má í næstu þáttum gera ráð fyrir Súðavík og Þórshöfn, Sandgerði og Hofsósi og eru þá mörg krummaskuð ótalin.
Ég reyndi í morgun að túlka Trékyllisvík fyrir köttinn. Hann geispaði og fór að sleikja á sér óæðri endann.

Auglýsingar

14 athugasemdir við “Að leika Stykkishólm og Eyrarbakka

 1. Hmm… fyrsta skrefið væri að liðið kæmi sér upp merki til að gefa til kynna að orðið sem um er spurt sé örnefni. Það gerir ágiskanirnar markvissari. (Reyndar væri skynsamlegt fyrir liðin að koma sér upp slíku merkjamáli fyrir nafnorð, sagnorð og lýsingarorð – og etv. fleira sem þrengt getur hringinn.)

  Stykkishólm táknar maður með því að þykjast spila badminton – enda Hólmurinn vagga badmintonsins á Íslandi. Eyrarbakki er erfiðari… Kannski sýna mann á bak við rimla – ergo: fangelsi – Litla-Hraun – Eyrarbakki…

 2. Merkjamál okkar er þokkalega þróað og einboðið að bæta við tákni fyrir smáþorp eða örnefni.
  Hvort ég hefði skilið þessa túlkun á Stykkishólmi og Eyrarbakka er önnur saga, en það hefði mátt reyna. Hvað með Súðavík?

 3. Þetta var fínn þáttur þrátt fyrir að ekki hafi tekist að leika Eyrarbakka eða Stykkishólm. Þið ættuð þó að óska eftir því að hlaupið að bjöllunni verði lengt, það ætti að gefa þér og Steini nokkuð forskot þegar kemur að því að ná bjöllunni ef hlaupið að henni er nokkrir kílómetrar.

  Ef þú ert að leita eftir uppbyggilegri gagnrýni þá bendi ég á að í fyrstu fimmtán stiga spurningunni var spurt um frekar auðgúgglanlegar upplýsingar – þ.e. hver lék Goodman Sýngmann. Þar hefði verið sterkur leikur að taka afgerandi forystu með notkun símavinar.

  Til hamingju annars með sigurinn 🙂

 4. Það stóð til að hringja í símavininn út af Gúddmanni en við héldum okkur vita þetta. Eftir á að hyggja hefði þetta hæglega getað kostað okkur sigurinn. En svo slapp þetta til.
  Til hamingju með frábæran árangur í maraþoninu í gær, Máni. Þetta var flott hjá þér.

 5. Það var gaman að fylgjast með ykkur félögum í gærkvöldi. Þið tókuð ykkur vel út í „montbolunum“. Um að gera að sigla undir fullum seglum og láta sjóða á keipum. Þið sluppuð þó varla fyrir horn í fyrstu vísbendingarspurningunni. Ég áttaði mig þegar leiðin lá fram hjá Windsorkastala. Ég held síðan að það sé betra að vera í þröngri sundskýlu við að leika Trékyllisvík.
  P.s. Litla Hraun er á Stokkseyri en ekki á Eyrarbakka. Þetta er mikið principmál þar eystra.

 6. Gunnlaugur… Litla Hraun er á Eyrarbakka – nánast inni í þorpinu. Auk þess er póstnúmer skv. ja.is 820 Eyrarbakki.

  Á ekki að skipta um mynd hérna líka, Gísli? 😉

 7. Slæmt að missa af þessum þætti! Stykkishólmur er minn heimabær og ég veit eiginlega ekki sjálf hvernig ég hefði túlkað hann. Kannski með því að leika Flóabátinn Baldur, drippla körfubolta og taka netta badmintonsveiflu? Eða tákna kökubita (stykki) og hólm…en þið hefðuð líklega þurft heilan þátt í þetta þannig að ég hefði bara sagt PASS eins og þið!

 8. Sóla, þátturinn er á netinu – var að enda við að horfa á hann hér.

  Væri svindl að vera búinn að læra stafina á táknmáli og stafa ofan í fólk? Já kannski. Flottur þáttur, til hamingju með sigurinn!

 9. Til hamingju með sigurinn. Fyrir utan Ey. og Sty. hefði getað gengið betur að túlka hinn orðinn eins og strókleður. Þið járnbræður ættuð kannski að hittast nokkru sinni yfir veturinn og æfa „activity“ 😉 Hvað var annars á montbólum?
  Kv. Corinna

 10. Mar fer bara á flug við þetta… Eg get varla beðið eftir því að sveitabæjanöfnin haldi innreið sína í þáttinn. Dratthalastaðir, Geldingalækur, Páfastaðir, Ljótunnarstaðir, já eða Fremri-Gufudalur. Svo ekki sé minnst á Kúskerpi eða Ingvarir.

 11. Eyrarbakki er náttúrulega leikinn með því að benda á eyrað á sér og svo halda uppi bakka (með því að teikna hann með annarri hendinni, halda á honum glæsilega með hinni). Stykkishólmur: fyrst að gera stykki sín á gólfið, svo ganga upp á hól og síðan leika muru, mjög einfalt. Ég skil bara ekki þennan vælutón, hvað þá að liðin gefist bara upp fyrirfram, huh.

 12. Fréttablaðið í dag minnist á þáttöku Páls Ásgeirs bróður þíns. Hann tók þátt fyrir Ísafjörð fyrir ári en var símavinur Hafnarfjarðar í ár, nú gegn Ísafirði. Blaðamaður sem ritar segir að Páll Ásgeir hafi þar með launað ísfirðingum lambið gráa. Hann gefur þar með í skyn að ísfirðingar hafi gert honum eitthvað þá og nú hafi verið komið að sætri hefndinni.

  Nú er alveg mögulegt að ísfirðingar hafi gert eitthvað á hlut Páls Ásgeirs, og getur hann þá útskýrt hvað það hafi verið. Samt hallast ég frekar að því að blaðamaður hafi haft í huga annan dýratengdan málshátt en ekki komið honum fyrir sig: sjaldan launar kálfurinn ofeldið.

 13. Ég held að viðkomandi blaðamaður hafi viljað finna einhvern illkvittniflöt á þessu máli og vegna málfátæktar sinnar datt honum ekkert annað í hug, eins og þú nefnir.

  Ég hafði ekki samband við PÁÁ vegna Útsvarsins fyrr en nokkrum dögum fyrir þáttinn. Hefðu Ísfirðingar viljað hafa hann fyrir símavin, hefðu þeir án efa haft samband við hann með góðum fyrirvara. Svo var ekki.

  Allt þetta bar á góma í spjalli við lið Ísafjarðar fyrir þáttinn og varð ég ekki var við annað en þeim þætti þetta ósköp eðlilegt og fór vel á með okkur.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s