Kosningaklúður ársins

Í gær fór fram athöfn sem kennd er við íþróttamann ársins. Þótt því sé hampað að 30 íþróttamenn í 15 greinum hafi komist á blað, segir það ekki alla söguna. Þessum hópi má skipta í boltaíþróttir og aðrar greinar. Í 20 efstu sætunum voru þannig 14 boltaíþróttamenn og sex úr öðrum greinum.
Í sjálfu sér kemur þetta ekki á óvart. Íþróttafréttamenn hafa löngum haft þá skoðun að ef bolti kemur ekki við sögu í íþrótt, séu afrek í henni varla í frásögur færandi. 90-95% af íþróttakálfum blaðanna fjalla um boltagreinar og er jafnvel seilst til úrslita í 2. deild handbolta í ýmsum löndum. Alkunn er dýrkun á ensku knattspyrnunni en vandfundinn er sá fréttatími að vetrarlagi þar sem hún kemur ekki við sögu. Þessar staðhæfingar eru vissulega stílfærðar en svona blasir þetta við mér. Þess vegna kjósa íþróttafréttamenn ár eftir ár boltagreinafólk í efstu 10 sætin. Meðan Eiður Smári er á mála hjá erlendu liði, verður hann meðal tíu efstu. Engu máli virtist skipta að hann sat lengst af á varamannabekk félags síns og var síðan seldur til annars félags þar sem hann kemst ekki einu sinni í leikmannahópinn. Hann er samt í 2. sæti í kjörinu í ár. Fyrir hvað??

Á þennan 30 nafna lista vantar t.d.Gunnlaug Júlíusson ofurhlaupara, Sigurjón Sigurbjörnsson, Íslandsmethafa í 100 km hlaupi og Þorberg Jónsson, methafa í Laugavegshlaupinu. Þeir hafa á sínum ferli unnið mörg afrek sem lenda ekki á íþróttasíðum. Þegar afrek Gunnlaugs hafa fengið smá umfjöllun í Mbl, eru þau sett undir fyrirsögnina Fólk í fréttum. Ekki á íþróttasíður.

Við sem stundum almenningsíþróttir höfum oft reynt undanfarna áratugi að vekja á þeim athygli fjölmiðla. Það tekst fimmta hvert ár að meðaltali. Við sendum úrslit til fjölmiðla en bréfunum er stundum eytt óopnuðum. Við höfum beðið um myndatöku og umfjöllun á fjölmennum viðburðum okkar en fáum jafnan þau svör að allir tökumenn séu að sinna boltagreinunum.

Ég hef undir höndum bréf frá RÚV þar sem farið er háðuglegum orðum um „miðaldra skokkara á rölti um hálendið“ og þeirri iðju jafnað við gönguferð á Hornströndum. Erindi hafði þá verið sent til íþróttadeildar og farið fram á umfjöllun um Laugavegshlaupið. Meðan þessi viðhorf ráða, verðum við áfram úti í kuldanum.

Ég efast stórlega um að íþróttafréttamenn séu hæfir til að sjá um þessa kosningu meðan þeir hygla boltagreinum í svona ríkum mæli. Aðrar greinar líða fyrir þessa þráhyggju þeirra og þetta elur á einsleitni. Miklu nær væri að hvert samband, bæði innan og utan ÍSÍ, tilnefndi tvo fulltrúa til að greiða atkvæði og þá fæst réttlátari mynd.

Auglýsingar

18 athugasemdir við “Kosningaklúður ársins

 1. Tek undir hvert orð. Tel raunar það hreina og klára móðgun við aðra íþróttamenn á þessum lista – svo ekki sé talað um aðra framúrskarandi íþróttamenn sem landið á – að maður sem hefur helst afrekað á árinu að verma varamannabekk hjá liðum útí Evrópu skuli vera talinn annar „besti“ íþróttamaður þjóðarinnar“. Það er ekki verið að verðlauna lið heldur einstaklinga og þeirra afrek, en svo virðist sem klíkan telji að einstaklingar verði sjálfkrafa betri við það eitt að liðið sem þeir eru bendlaðir við ná árangri. En ef menn fá ekki að spila er ekki hægt að dæma um getu þeirra og afrek – eða hvað??

  Það þarf kerfisbundinn og kröftugt átak allrar íþróttahreyfingarinnar til að breyta viðhorfinu. Líklegra er betra að íþróttasambandið sjálft sjái um að tilnefna til þessara verðlauna, því Félag Íþróttafréttamanna er greinilega algerlega fyrirmunað að líta hlutlaust til allra íþróttagreina þegar kemur að þessu vali. Ég hef furðað mig á þessari kosningu árum saman, en þykir annað sætið í ár með því grófara sem komið hefur út úr þessu.

  Og að sjálfsögðu á að veita tvenn verðlaun – karla og kvenna.
  Og svo ég klári reiðilesturinn – hvað er málið með þennan verðlaunagrip?

 2. Verðlaunagripurinn er sérkapítuli í þessu undarlega máli. Hann líkist öfugum eldhúskolli sem einhverju hefur verið klastrað á. Ljótari gripur er vandfundinn.

 3. Það mætti alveg velta fyrir sér hvað væri í íþróttafréttum ef knattspyrna, handbolti og körfubolti fengi vikufrí. Fréttir af úrslitum í öllum þessum greinum eru tiltæk á netinu og boltagreinafólk gæti prófað að setja sig í spor okkar í smátíma.

 4. Ætli að atvinnumennska og launareikningur séu ekki breytur í þessari kosningu hjá þeim – Það er allavega nóg talað um peningahliðina í fréttatímunum.
  Það er náttúrulega alveg óþolandi að fá þessa ,,sneisafullu íþróttapakka“ í hverjum einasta fréttatíma og svo koma þeir líka í hina og þessa dægurþættina með sitt ,,púlara“ og ,,mansteftir júnæted“ hjakk. Alveg þótti mér yndilegt þegar DR þurfti að skera niður fyrir nokkrum árum – þá fékk íþróttadeildin reisupassann, eða að mestu leyti, eitthvað haldið eftir til að sinna því sem aðrar stöðvar sinntu ekki: Fötluðum, konum etc.. Þetta var bara réttlætt með því að það væri nóg umfjöllun í boði um slíka hluti og engin ástæða fyrir ríkið að bæta þar við.
  Það væri nú hressandi að þurfa ekki að lækka í ríkisfréttunum í lokin alltaf.

 5. Mér finnst þú eigir að birta háðulega bréfið frá RÚV, engin ástæða til að hlífa þeim við því. Og algerlega sammála hverju einasta orði.

 6. Satt segirðu, Jóhannes. Ég sé þetta núna. 20 manns að elta einn bolta er auðvitað miklu merkilegri iðja.

 7. Nei alls ekki, en það er það sem almenningi finnst gaman að. Ég geri ekki athugasemdir við áhugamál manna eða dreg menn í dilka eftir áhugamálum. Ég fékk einu sinni verðlaunapening fyrir bridge. Ekki á sú íþrótt upp á pallborðið hjá sjónvarpi allra starfsmanna 🙂

 8. Að öllu gamni slepptu má líkja íþróttaumfjöllun fjölmiðla við mötuneyti þar sem plokkfiskur er á boðstólum 350 daga ársins. Þeir sem eru vanir plokkfisk, geta ekki skilið tilganginn með öðrum réttum.

 9. Sammála þér Gísli, mig rak eiginlega í rogastans. Að mínu mati komast fæstir þeirra sem tilnefndir voru með tærnar þar sem t.a.m. þeir Gunnlaugur og Sigurjón eru með hælana. Kannski þarf að efna til nýrra verðlauna?

 10. Fréttamenn gætu reyndar kjörið þann íþróttamann sem er oftast í fréttunum hjá þeim. Svo gætu þeim víðsýnni aðilar kjörið íþróttamann ársins.

 11. Gæti ekki verið meira sammála þér Gísli. Ég hef fyrir löngu misst allan áhuga á þeim íþróttafréttum sem boðið er upp á í fjölmiðlum þessa lands og fannst það hrein móðgun við hlaupasamfélagið að Gunnlaugur Júlíusson kæmist ekki á blað hjá þessum spekingum. Líst vel á þá hugmynd að íþróttahreyfingin veiti verðlaun fyrir framúrskarandi árangur því íþróttafréttamenn hafa sýnt að þeim er ekki treyst fyrir þessu verki.

 12. Steingrímur fjármálaráðherra var á háskólaárum sínum um tíma íþróttafréttamaður á Ríkissjónvarpinu. Ég minnist viðtals við hann þar sem hann lýsti þeim drápshug sem margir báru til hans fyrir að vilja auka fjölbreytnina í íþróttafréttunum. Sveitastrákurinn frá Þistilfirði bauð upp á fréttir af hestaíþróttum en margir hugsuðu honum þegjandi þörfina fyrir að dirfast að troða bykkjum í íþróttaþáttinn!

 13. Tek undir hvert orð, Gísli. Boltaíþróttir eru fyrir löngu búnar að keyra minn áhuga á íþróttafréttum alveg í kaf. Hestaíþróttir og hlaup eru gjörsamlega vanræktar í fréttum. Stórlega vanmetnar. Rúv ætti svo sannarlega að bæta úr þessu. Er ekki hægt að gera eitthvað í þessu?

 14. Gísli, ég tek undir með Kristínu hér að ofan, þú ættir að birta bréfið frá RÚV! Það að talað sé um að laugavegsmaraþonið snúist um að „rölta um hálendið“ minnir mig á það þegar einhverjir töluðu um að Hell Weekend snérist um að „stunda létta leikfimi í marga klukkutíma“…en það væri gaman að sjá bréfið frá RÚV birt.

 15. Ég hef visst álit á ykkur þessum miðaldra skokkurum sem finnst þið ekki fá nægilegt umtal í fjölmiðlum nema Gunnlaugur ofurhlaupari. En af prúðmennsku ætla ég bara að hafa þetta álit út af fyrir mig.

 16. Til fróðleiks: 10 efstu 2008
  Alexander Petersson, handknattleiksmaður í Flensburg
  Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður í Barcelona
  Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður í Rhein Neckar Löwen
  Hermann Hreiðarsson, knattspyrnumaður í Portsmouth
  Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður í KR
  Katrín Jónsdóttir, knattspyrnukona í Val
  Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona í Val
  Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður í Ciudad Real
  Snorri Steinn Guðjónsson, handknattleiksmaður í GOG
  Þormóður Jónsson, júdómaður JR

  Níu úr boltagreinum. Einn júdómaður.

  10 efstu 2007

  Birgir Leifur Hafþórsson kylfingur úr GKG
  Eiður Smári Guðjohnsen knattspyrnumaður hjá Barcelona
  Guðjón Valur Sigurðsson handknattleiksmaður hjá Gummersbach
  Jón Arnór Stefánsson körfuknattleikismaður hjá Lottomatica Roma
  Margrét Lára Viðarsdóttir knattspyrnukona hjá Val
  Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður hjá Ciudad Real
  Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona úr TBR
  Ragnheiður Ragnarsdóttir sundkona úr KR
  Snorri Steinn Guðjónsson handknattleiksmaður úr GOG
  Örn Arnarson sundmaður úr SH

  Sex úr boltagreinum. Fjórir úr öðrum greinum.

  Topptíu frá upphafi er hér: http://www.sportpress.is/topp10.htm
  Athyglisvert er að sjá greinadreifingu milli ára.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s