Fíkniefnalaust Ísland?

Mig minnir að Ísland hafi átt að verða fíkniefnalaust kringum aldamótin. Því héldu stjórnmálamenn á lofti og köstuðu fram loforðum um fjárveitingar til þess arna, án þess að hafa gripsvit á málaflokknum, en vissu að þetta hljómaði vel fyrir kosningar. Síðan eru liðin tíu ár og erfitt að sjá hvort eitthvað hafi miðað.
Tvennt vakti því athygli í þessari viku. 10. bekkingar á Hvolsvelli skunduðu á heilsugæslustöð og létu kanna hvort í þeim fyndust merki um efnaneyslu. Svo var ekki. Þetta þótti gott mál. Síðan mætti lögreglan með leitarhunda í Tækniskólann, leitaði og hafði lítið upp úr krafsinu, en forvarnargildi slíkrar aðgerðar er ótvírætt. Því kemur á óvart að þetta þykir sumum ólögleg aðgerð, brjóta gegn mannréttindum, stjórnarskrá og talað er um heimildarleysi og offör og menntamálaráðherra hyggst ræða þetta við skólastjórnendur.
Sá sem hefur ekkert að fela, þarf ekki að óttast fíkniefnahunda og lögreglu. Fólk með slæma samvisku kvartar auðvitað og kveinar. Þeir sem kjósa að neyta fíkniefna, eiga nógu bágt, en verri eru þeir sem selja og dreifa og græða þannig á eymd annarra. Þeir eiga ekkert gott skilið.

Auglýsingar

16 athugasemdir við “Fíkniefnalaust Ísland?

 1. Þarna er ég algerlega ósammála þér Gísli – hvað verður næsta skref? Gengið upp að fólki í Kringlunni með hunda til að tékka? Fráleit aðgerð (og nei, ég hef aldrei neytt neins sterkara en alkóhóls þannig að ég hef ekkert að fela). Lögregluríkið er feikinægt nú þegar þó ekki bætist svonalagað við.

 2. Markaðurinn er í framhaldsskólunum. Væri ég foreldri nemanda, hefði ég ekkert á móti reglulegum heimsóknum leitarhunda. Þetta er lúmskara en andskotinn.

 3. Oft er ég sammála þér en ekki hér, langtífrá. Ég las pistilinn og átti lengi von á viðsnúningnum, kaldhæðnislegri slátrun hins víðsýna uppfræðara á þessum yfirgengilegu aðgerðum í Tækniskólanum – en svo þykir þér þetta bara hið besta mál eftir alltsaman. Jahérna hér. Tilgangurinn helgar meðalið, er það málið? Í ögn siðmenntaðri löndum, þar sem púrítanískur ótti smáborgarans við ógnir kannabisdjöfulsins er ekki jafn útbreiddur (þótt kannabis sé þar mun útbreiddara og eiturlyf almennt einnig – óvíða jafn lítil neysla og hér og fer minnkandi í þessum aldursflokki) og þar sem meðvitund um eitthvað sem heitir borgaraleg réttindi er meiri – þar væri skólastjórinn fokinn, og líklega lögreglustjórinn líka. En hér jarmar ótrúlegasta fólk um að það sé ekkert að því að loka fleiri hundruð ungmenni inni og siga á það hundum undir yfirskini einhverra forvarna – alltílagi að allir fái stöðu grunaðra uns sakleysi er sannað, afþví forvarnir eru svo æðislegar…

 4. Sko!
  Ég gef mér að stjórnendur skólans hafi haft eitthvað fyrir sér í þessu tilfelli. Ég sá engum hundum sigað og þótt gengið sé um ganga með hunda fá ekki allir stöðu grunaðra um leið.

 5. Púritanskur smáborgari eða kaldhæðinn uppfræðari? Mér líkar ágætlega við það seinna en verð að vera púritaninn í þetta sinn.

 6. Þú gefur þér að stjórnendur skólans hafi haft eitthvað fyrir sér? Og sást engum hundum sigað?
  Sko! (svo ég vitni nú í þig) Um það bil 100 manns tóku þátt í þessari aðgerð – og hundar. Vissulega færi ég í stílinn þegar ég tala um að þeim hafi verið sigað á nemendur, en þeir fóru um allt og hnusuðu ekki bara af skápum og veggjum, heldur pjönkum nemenda og jafnvel nemendum sjálfum. Og þar var ekki farið í neitt manngreinarálit, þessi aðgerð beindist gegn öllum í skólanum. Hún var ekki hnitmiðuð, hún beindist ekki að neinum ákveðnum. Og nei, það er ekki kostur í þessu tilfelli, heldur megingallinn. Það hefur þegar komið fram að enginn rökstuddur grunur um fíkniefnaviðskipti eða -notkun lá til grundvallar þessari aðgerð. Og nú er að koma uppúr dúrnum að svipaðar aðgerðir hafa þegar farið fram í Flensborg og FB. Þú segir að allir fái ekki stöðu grunaðra – gott og vel, formlega séð er það rétt hjá þér. En í raun var það þó þannig – ef fólk vildi yfirgefa staðinn áður en „aðgerðinni“ var lokið mátti það eiga von á sérstakri meðhöndlun og ítarlegri leit.
  Svar þitt við þessu er kannski sú setning, sem mér fannst hvað ótrúlegast að komið gæti úr penna/tölvu þess frjálslynda húmanista sem ég taldi – og tel – þig vera: „Sá sem hefur ekkert að fela, þarf ekki að óttast fíkniefnahunda og lögreglu.“ Þetta gæti verið tilvitnun í 1984, að breyttu bretanda, ég vona að þú áttir þig á því, svona ef þú hugsar aðeins málið…
  Því hér ertu að snúa hlutunum alvarlega á hvolf; sá sem hefur ekkert að fela (t.d. allir nemendur Tækniskólans þennan dag) á, í lýðræðis- og réttarríki, ekki að þurfa að óttast að lenda í því að lögregla og fíkniefnahundar hindri för þeirra upp úr þurru og að tilefnislausu.
  Þessi röksemdafærsla, að sá sem er á móti því að löggan – eða hver sem er – sé að snuðra í sínum málum sísvona, hljóti að hafa eitthvað á samviskunni, gengur einfaldlega ekki upp. Það eru nefnilega sjálfsögð réttindi hvers og eins, að fá að lifa sínu lífi án afskipta lögreglu, nema lögreglan hafi rökstuddan grun um að viðkomandi hafi eitthvað gert af sér.
  Þú segir líka að þessi aðgerð hafi ótvírætt forvarnargildi. Hér leyfi ég mér líka að vera ósammála: Ég tel það allsekki ótvírætt að þetta hafi forvarnargildi yfirhöfuð, og að það sé þá í besta falli afar takmarkað. En aðalmálið er þó enn sem fyrr það, að þú ert hér að segja að tilgangurinn helgi meðalið. Og því mun ég aldrei kyngja.

 7. Ég held að við verðum að vera ósammála í þetta sinn. Mínar skoðanir markast af reynslu kennsluáranna þar sem við höfðum stundum á tilfinningunni að passa þyrfti ungdóminn eins og lömb.

 8. Og það, að einhverjir kennarar hafi eitthvað á tilfinningunni réttlætir lögregluaðgerðir í anda einræðisríkja? Því þótt líkamlegu ofbeldi hafi ekki verið beitt þá er það alveg sami hugsunarhátturinn sem þarna ræður för. Ég er ansi hræddur um að t.d. þýskur skólastjóri, sem léti svonalagað yfir nemendur sína ganga, sæti ekki lengi á friðarstóli. Og mér finnst reyndar makalaust að þú sjáir engan mun á því að passa „ungdóminn eins og lömb“ eins og þú orðar það og meðhöndla ungdóminn einsog réttlausan skríl og samansafn mögulegra krimma, líkt og þarna var gert.

 9. Sko!
  Mér finnst þú gera of mikið úr þessu og líkingin við einræðisríki er að mínu mati ekki réttlætanleg. Fyrst þú nefnir þýska skólastjóra, kynntist ég því í Cuxhaven-ferð fyrir mörgum árum að þar giltu reglur sem þættu strangar hér heima.
  Þótt gengið sé með snuðrandi hund meðal unglinga, verða þeir ekki „réttlaus skríll“ og „mögulegir krimmar“ fyrir vikið. Þótt hundur þefi af þeim sem fara út, jafnast það ekki á við stranga leit. Ég vona að ekki megi skilja skrif þín þannig að þú viljir gefa efnanotkun frjálsa.

 10. hmm … athyglisvert. Þetta mætti þá gera í öllum skólum og stofnunum. Loka fólk inni þar til sakleysi þeirra hefur verið sannað. Sanna þurfi sakleysi en ekki sekt.

 11. Prófaðu að skipta um vettvang, eða glæp, eða hvort tveggja. Athugaðu hvernig þér líst á t.d. samskonar aðgerð undir sömu formerkjum í Kringlunni. Ekki er að efa að alltaf má finna þar innan dyra eina eða fleiri manneskjur sem einhverntímann hafa neytt eiturlyfja. Töluverðar líkur má telja á því, að þar leynist líka einhver sem hefur og jafnvel er að selja eiturlyf, og líka einhver, sem er með eiturlyf á sér til eigin nota. Framkvæmdastjóri Kringlunnar hefur áhyggjur af þessu, hefur einmitt eitthvað – eða allt – af ofantöldu á tilfinningunni. Hefur samband við lögguna, sem mætir með hundrað manna lið og hunda, lokar öllum útgöngum og hleypir engum út fyrren gengið hefur verið úr skugga um að – tja, tilfinning forstjórans reyndist ekki á rökum reist… Ímyndaðu þér svo samskonar aðgerð á, segjum bara sjúkrahúsi. Í einhverjum háskólanum. Í næstu bókabúð…
  Við búum í réttarríki – amk í orði kveðnu. Svona aðferðir eiga ekkert erindi í réttarríki sem vill standa undir nafni.
  Þetta er svo galið Gísli, að ég næ því ekki enn, skil ekki enn að þú teljir þetta verjandi. Líkingin við einræðisríki er hinsvegar fullkomlega réttlætanleg, því þetta eru stjórnarhættir sem tíðkast í slíkum ríkjum. Þar sem íbúar eru þegnar sem eiga að sitja og standa einsog yfirvöld segja, en ekki frjálsir borgarar.
  Í Þýskalandi gilda vissulega strangar reglur á mörgum sviðum einsog þú bendir á – en þær gilda líka um kennara, skólastjóra, lögreglumenn og aðra embættismenn. Og því get ég lofað þér, að aðgerð einsog sú sem hér er til umræðu teldist alvarlegt brot á fjölmörgum þeirra. Það, að þetta hefur að líkindum engin eftirköst hér, og það, að ágætlega skynsömu og vel meinandi fólki einsog þér skuli þykja þetta hið besta mál veldur mér hinsvegar áhyggjum. Ég held einmitt að ég geri síst of mikið úr þessu – auðvitað ætti ég að hætta að tuða í þér á einhverju bloggi og reyna frekar að gera eitthvað í málinu – en því nenni ég auðvitað ekki. Þá þyrfti ég að standa upp, sjáðu til.

 12. og eitt enn: „Þótt gengið sé með snuðrandi hund meðal unglinga, verða þeir ekki “réttlaus skríll” og “mögulegir krimmar” fyrir vikið,“ segir þú. Heldur hvað? Einhver vill fara út. Honum/henni er meinuð útganga nema að undangenginni leit. Viðkomandi vill ekki láta leita á sér. Er ekki að fara í gegnum tollhlið, er ekki að fara í heimsókn til fanga, er ekki að gera neitt sem kveður á um að hann/hún hafi samþykkt möguleikann eða kvöðina um slíkar aðfarir. Frjáls borgari í frjálsu landi, mætir í skólann og vill fara heim til sín, án afskipta lögreglu. Neitar að láta leita á sér – sem er sjálfsagður réttur viðkomandi, nema lögreglan hafi rökstuddan grun um að hann/hún hafi óhreint mjöl í sínu pokahorni. Og það, að viðkomandi neiti að taka þátt í svona skrípaleik, neiti að láta leita á sér er ekki nóg til að hægt sé að tala um rökstuddan grun.

 13. Þetta eru ágætar rökræður. Ég hugsa samt að ég bregði mér í hitt hlutverkið næst, held jafnvel að það fari mér betur en púritaninn .

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s