Fyrirmyndarfrjálshyggja

Ég er ritari í fleiri félögum en ég man eftir í svipinn og finnst gaman á aðalfundum þeirra. Þar gengur misjafnlega að manna stjórn hverju sinni og í FM kom eitt sinn upp sú ánægjulega staða að fleiri vildu í stjórn en pláss var fyrir samkvæmt lögum. Þegar í stað var ákveðið að breyta lögunum með afbrigðum og fjölga í stjórn. Allir voru sáttir.
Aðalfundur frjálshyggjufélagsins er nýafstaðinn. Þar voru mættir rúmlega 30 manns. 19 þeirra voru kjörnir í stjórn. Allt karlmenn. Sumum finnst vanta konur í stjórnina. Ég vil frekar vita af hverju þessir rúmlega ellefu sem upp á vantar, fengu ekki stjórnarsæti. Hefðu þeir fengið það, væri hver stjórnarfundur félagsins á við félagsfund og aðalfund mætti halda eftir vild.
Á næsta aðalfundi FM ætla ég að flytja tillögu um að fjölgað verði í stjórn upp í 50 manns. Við erum snöggtum fleiri en frjálshyggjumennirnir ungu og hljótum að geta mannað stjórnina.

Auglýsingar

10 athugasemdir við “Fyrirmyndarfrjálshyggja

 1. Væru meðlimirnir í þessari íslensku hitlersæsku ekki allir jafn veruleikafirtir og samstilltir yrði örugglega erfitt að koma nokkru einasta máli í gegn. En það mun örugglega ganga vel á næsta fundi. Þessi var á Kringlukránni svo næsti verður vafalaust haldinn á Goldfinger.

 2. Þetta er stórkostleg lesning. „Einstaklingsframtakið fær ekki að njóta sín við þessar aðstæður“ er merkileg fullyrðing. Svo komust félagsmenn að því að „Pólitísk spilling er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess ástands sem við búum við“. Það er nú eitthvað annað en þegar stóra frjálshyggjutilraunin var gerð á Íslandi. Þá var allt gott og allt gekk vel.

 3. Já, það er einkennilegt að engin kona skuli vera í stjórninni. Samt efast ég ekki um að þessir stuttbuxnadrengir líti á sig sem þverskurð af samfélaginu.

 4. Ég sé að menn eru hver öðrum málefnalegri í athugasemdum hér.

  Bara til að upplýsa fyrrverandi skógarbónda sem ritar hér að ofan þá bendi ég á að þegar Frjálshyggjufélagið var á sínum tíma stofnað var það skilyrði að til þess að mega vera meðlimur í félaginu mátti viðkomandi ekki vera í Sjálfstæðisflokknum. Að segja Sjálfstæðisflokkinn vera „frjálshyggjuflokk“ er álíka viturlegt og að segja Vinstri Græna vera „kommúnista“. Þó að VG halli sér til vinstri er fráleitt að halda því fram að þeir vilji gera 5 ára áætlanir og boði alræði öreiganna.

  Skilyrði um að ekki megi vera í Sjálfstæðisflokki til að vera í frjálshyggjufélaginu er reyndar ekki lengur til staðar, en það er allur gangur á því hvort félagsmenn eru í Sjálfstæðisflokknum, stuttbuxum, náhirð eða skrímsladeild (eru þessi uppnefni réttnefni eða til marks um málefnafátækt?) utan þess að vera í frjálshyggjufélaginu. Sjálfur notast ég sjaldan við stuttbuxur en er þeim mun hrifnari af tights-buxum í staðinn.

  Nema hvað, ég ýtti aðallega á „athugasemdir“ hér til að skrifa þá athugasemd að ef til stendur að fjölga í stjórn félags maraþonhlaupara í 50 þá er ég til í að sitja í báðum fjölmennu stjórnunum, þ.e. bæði í Frjálshyggjufélaginu og í félagi maraþonhlaupara!

  Ég sé annars að það er heil kona í stjórn félags maraþonhlaupara en vona að þær verði fleiri þegar verður fjölgað upp í 50 stjórnarmenn. Við vorum með nokkrar stelpur í stjórn frjálshyggjufélagsins í fyrra en því miður bauð engin sig fram í ár. Vel að merkja er stjórn frjálshyggjufélagsins skipuð öflugu liði hlaupara, svo ég held að þú ættir a.m.k. að geta verið ánægður með það Gísli.

  Já og Finnbogi, frjálshyggjufélagið lítur á sig sem frjálshyggjufélagið, ekki sem „þverskurð af samfélaginu“. Við eftirlátum öðrum hópum að tala í nafni „þjóðarinnar“, enda var „Þjóðviljinn“ aldrei sérstaklega frjálslynt rit. Frjálshyggjan snýst einmitt ekki um að segja þjóðinni hvað hún vill heldur að leyfa hverjum og einum meðlimi hennar að gera það sem hann vill, vitandi það að „þjóðin“ vill ekkert heldur er það misjafnt hvað hver og einn einstaklingur vill.

 5. Ég er vissulega ánægður með fjölda hlaupara í stjórninni, Máni, og þú værir fengur fyrir stjórn FM.
  Um athugasemdir þeirra sem hér hafa tjáð sig, má segja þetta: Þær eru snöggtum skárri en þær sem finna má með Eyjargreininni og hér eru allir höfundar þekktir. Ólíkt nafnleysingjunum og rugludöllunum sem eyðileggja marga umræðuna þar.
  Meðan ég man: Eru engar fjöldatakmarkanir í stjórn Frjálshyggjufélagsins? Hefðu allir fundarmenn komist í stjórn, hefðu þeir viljað það?

 6. Það er spurning. Við tókum einfaldlega þann pólinn í hæðina í félaginu að leyfa öllum þeim sem vilja vera í stjórn og láta til sín taka að vera í stjórninni og láta til sín taka, að því gefnu auðvitað að aðalfundur samþykki þá. Þar sem þarna eru saman komnir menn með alvöru hugsjónir þá gerir fjöldi stjórnarmanna yfirleitt ekki mikið til, það er samstaða um flest stærri mál í hópnum. Annars væri auðvitað hægt að hafa þriggja eða fimm manna stjórn og hafa stjórnarfundi t.d. opna þannig að þeir sem vilja koma geti þá komið á þá, en okkur fannst einfaldlega einfaldara að hafa þá sem hafa áhuga á að mæta á fundi bara alla í stjórn! Líklega eru þó einhver þolmörk, þ.e. líklega yrði einhverntíman sagt hingað og ekki lengra í fjölda stjórnarmanna, en hvar þau mörk liggja veit ég ekki. Starfið gekk a.m.k. vel síðasta vetur með 16 manna stjórn!

  En ég er sammála því að athugasemdir hér eru ekki slæmar miðað við á Eyjunni, en þær virðast reyndar flestar vera álíka gáfulegar og að segja „frjálshyggja pjálfshyggja“. Svo sá ég að Egill Helgason heldur að það sé eitthvað að hormónastarfseminni hjá frjálshyggjumönnum. Ég ætla að vona ekki, en bara þó að Egill Helga kæmist hvorki í stjórn frjálshyggjufélagsins né í stjórn félags maraþonhlaupara sé ég ekki ástæðu til að brigsla mönnum um ójafnvægi í hormónaframleiðslu.

  Annars er það lélegt þegar menn hyggjast gagnrýna frjálshyggju sem slíka með því að segja að íslenskir bankar hafi farið á hausinn, eins og mér sýnist Fyrrverandi skógarbóndi vera að vísa í hér að ofan. Sá litli hluti fjármálakerfis Evrópu og Ameríku sem kalla má „fjálsan markað“ var fyrir lifandis löngu búinn að sjá að rekstur íslensku bankanna stefndi í óefni, þ.e. markaður með það sem kallað er „skuldatryggingarálag“. Það álag á íslensku bankanna var rokið upp fyrir löngu og þeir kvörtuðu mikið undan „Íslandsálaginu“. Það sem keyrði þenslu þeirra áfram út fyrir öll velsæmismörk, Íslandi til mikils tjóns, var tröllatrú manna á að ríkið myndi ábyrgjast tapið þegar spilaborgin loksins myndi hrynja. Því miður höfðu þeir lánveitendur sem trúðu því ekki rangt fyrir sér!

  Eða trúir því einhver að bankahrun um allan heim hefði átt sér stað ef ekki væri fyrir peningaprentun Seðlabanka, innistæðutryggingatilskipanir sem sköpuðu falskt öryggi og stanslausan áróður fjármálaeftirlita og stjórnmálamanna um allan heim, þar á meðal á Íslandi, sem tönnluðust á því að fjármálafyrirtæki væru ekki farin á hausinn? Heldur í alvörunni einhver að „aukið eftirlit“ komi í veg fyrir að það fari eins í næstu umferð? Ef FME hefði fengið 2 milljarða en ekki 1 milljarð á fjárveitingum, hefði þá allt verið í stakasta lagi?

 7. FME var allt of innviklað í ruglið þannig að nei það hefði örugglega ekkert gerst nema forstjórinn hefði hækkað við sig kaupið. Þjóðhagsstofnun hefði mögulega gert gagn enda var hún lögð niður þegar hún fór að byrja að vara við.

 8. Þú átt við að fyrst að X fjöldi eftirlitsstofnanna virkar ekki þá sé rétt að hafa fjölda eftirlitsstofnanna X+1 ?

  Væri ekki betra að hafa minna eftirlit og færri og einfaldari reglur þannig að menn einfaldlega gætu skilið hvað er í gangi hverju sinni?

  Getum tekið eitt samlíkingardæmi. Setjum svo að til stæði að banna klám. Þá er hægt að gera það annað hvort með því að segja „Klám er bannað“ eða það er hægt að semja 1200 reglugerðir um nákvæmlega hvað sé klám og hvaða klám sé bannað. Hugsanlega væri sú löggjöf þá bönnuð, þar sem í henni væru lýsingar á klámi. Svo gætu menn stofnað klámeftirlitsstofnun ríkisins og eitthvað fleira. Og hvað er líklegt að myndi þá gerast? Þeir sem hafa áhuga á að markaðssetja og framleiða klám mundi lesa reglugerðir og lög um efnið, ekki til að sjá hvað stendur í reglugerðunum og lögunum, heldur til að sjá hvað stendur EKKI þar. Mundu svo markaðssetja allt það efni sem ekki er nákvæmlega bannað.

  Flestir eru sammála um hvað klám er. Einhver markatilvik eru til og þar væri einhver vafi. Að sama skapi eru flestir, að því gefnu að þeir hafi engra hagsmuna að gæta sjálfir, sammála um það hvað er svindl og hvað ekki og hvað eru eðlilegir viðskiptahættir og hvað ekki.

 9. Ég er viss um að Máni hefur rétt fyrir sér. Reglurnar voru bara allt of margar. Það átti bara að vera ein regla: „Bannað er að setja landið á hausinn“. Þá hefði allt farið vel í stóru frjálshyggjutilrauninni.

 10. Alls ekki, Máni. Ég held bara að Þjóðhagsstofnun (eða aðilar þar innanhúss) hafi séð á hvaða leið landið var en frjálshyggjuelskandi stjórnvöldum hugnaðist engan veginn sú sýn. Það er hreint ekki sama hver skoðar málin – eftirlitsstofnun þarf ekki að vera sama og eftirlitsstofnun.

  Yfirlýsing ykkar er sorgleg áminning um tíma þar sem allt snérist um frelsi þeirra sem eiga mikla peninga til að valta yfir þá sem eiga minna. „Frelsið“ kom nefnilega fyrst og fremst þeim til góða en ekki öllum almenningi. Trickle down wealth virkar ekki, það hefur sýnt sig ansi vel undanfarinn áratug eða svo. (Það að fólk hafi síðan ofskuldsett sig til að taka þátt í „góðærinu“ er örlítið annar hlutur).

  Sem betur fer hlusta fáir á svona tal lengur. Nóg hefur það fengið að eyðileggja nú þegar.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s