Ást og drama með boðskap

Þessi merku ummæli eru í Fréttablaðinu höfð eftir mannfræðingi sem heklar hálsmen, horfir næstum ekkert á sjónvarp og hlýtur því að velja úrvalsefni. Þannig lýsir hún Grey’s Anatomy eða Læknalífi sem er þáttaröð á Stöð 2. Þar sem ég hef fengið borgað fyrir að horfa á hvern einasta þátt, vinnu minnar vegna, hlýt ég að telja mig sérfræðing í þeim. Þarna er nóg af ást og drama en minna fer fyrir boðskapnum.
Hér fer á eftir lýsing á einum degi í lífi almenns skurðlæknis á Seattle Grace sjúkrahúsinu.
Kl. 06.00: Vaknar kappklæddur við hlið ástmeyjar sinnar, sem er annað hvort deildarlæknir eða nemi með brenglaða fortíð.
07.05: Er mættur órakaður, velklæddur og löðrandi í kynþokka á stofugang með hálfan lítra af kaffi. Hunsar ófríða sjúkraliðann sem hefur þegar greint mein sjúklingsins og vill panta sneiðmyndir og efnarannsóknir.
07.30: Pantar sneiðmyndir og efnarannsóknir meðan hann ræðir samband sitt við ástmeyna í þaula við nærstaddan lýtalækni sem er nýkominn úr hvíldarherberginu eftir másandi morgunmök við gangastúlku. Sjúkraliðinn sést strunsa svekktur með möppur undir handleggnum.
08:00: Ákveður að skipta um hjarta í sjúklingnum og boðar ástmey sína í þvottaherbergið sér til aðstoðar. Þau ræða samband sitt í þaula yfir sápu og vatni og er ljóst að undir faglegu yfirborði svella tilfinningar.
10:00: Á sjúkrahúsið kemur feitur og fráhrindandi sjúklingur með svo sérkennileg einkenni að allir standa ráðþrota yfir honum. Fyrrnefndur sjúkraliði hefur þegar mótaðar kenningar sem falla í grýttan jarðveg. Okkar maður er upptekinn við hjartaaðgerðina.
11:00: Eftir velheppnaða hjartaaðgerð leyfir skurðlæknirinn ástmey sinni að sauma sjúklinginn saman og fær að launum sjóðheitt augnaráð. Vanræktir læknanemar á áhorfendapöllum hugsa henni þegjandi þörfina.
12:00: Grindhoraðar aðalpersónur þáttanna hittast í hádeginu yfir majónesi og flögum sem renna hratt niður. Vegna almennrar tilfinningafötlunar er þagað við máltíðina. Okkar maður bregður sér í hvíldarherbergið með ástmeynni og serðir hana leiftursnöggt eins og minkur.
13:00: Mikið rennirí er á stofu sérkennilega sjúklingsins og er ákveðið að opna hann á skurðstofu til að svipast um. Aðstandendur hans sýna alla tilfinningaflóruna meðan þetta er rætt og fylgjast læknarnir með samræðum þeirra af athygli.
15:00: Sérkennilegi sjúklingurinn deyr á skurðarborðinu þrátt fyrir hróp og köll, hnoð og rafstuð. Eftir uppgjör í þvottaherberginu slítur skurðlæknirinn sambandi sínu við ástmeyna.
16:00: Fyrrverandi ástmey grætur í línherberginu og kyssir ófríða sjúkraliðann ákaflega til að hressa sig. Okkar maður er utan við sig og sagar rangan fót af sjúklingi. Fyrir vikið kemst hann ekki á barinn fyrr en eftir kvöldmat.
20:00: Almenn drykkja á barnum þar sem allir læknar sjúkrahússins eru saman komnir.
02:00: Skurðlæknirinn sættist við ástmeyna og þau ganga allsgáð út í leigubíl eftir stífa tekíladrykkju allt kvöldið.

Boðskapur? Maður spyr sig.

Auglýsingar

8 athugasemdir við “Ást og drama með boðskap

  1. Ég hef heldur ekki séð þetta, en reyni kannski að sjá þátt við tækifæri. Sennilega er óþarfi að sjá fleiri en einn, eða hvað?

  2. Þú og Gurrí eigið að snúa ykkur að því að skrifa sápur – kunnið alveg formúluna … ( Svo geturðu bætt inn í eins og einum þindarlausum maraþonofurhlaupara).

  3. Þetta er greinilega þáttur með boðskap. Mórallinn í þessum þætti er sá að slíta ekki sambandi við gamlan frænda, þrátt fyrir alvarlegt ósætti, því seinna áttar maður sig á því að hann vildi bara vel.

    Er það ekki bara?

  4. Af þessum þætti má læra að ekki er heppilegt að saga rangan fót af sjúklingi því honum gæti sárnað það. Þetta er gott veganesti fyrir þennan dag.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s