Köttur drekkur kaffi við Sædýrasafnið

Þar sem áður stóð Sædýrasafn er nú golfvöllur og syfjulegt úthverfi. Þar búum við Brandur Högnason meðal músa og manna og mórum okkur vel. Brandur er svo heppinn að hafa tvær fyrirvinnur og þegar sú eldri er horfin á vit höfuðborgarinnar, fer sá ferfætti út að viðra sig, hægja sér til baks og kviðar og gá að músaferðum og veðri, meðan ég vinn fyrir salti í grautinn á heimakontórnum. Síðan kemur hann inn og flytur mér skýrslu um gerðir sínar og rannsóknarniðurstöður. Í staðinn gef ég honum kaffidropa á vísifingri og fer með misgóðan leirburð, líkt og á laugardaginn.

Í logni morguns leysir Brandur lífsins gátur
mætir síðan kampakátur
kaffi þiggur stærilátur.

Gunnar Þorsteinsson, kollega minn á RÚV, herbergjar einnig kött og hefur eflaust verið á svipuðu róli og ég þennan morgun. Framundir hádegi skiptumst við á skotum. Hans framlög í kaffivísur kattarins eru skáletruð.

Enn er kisan aftur visin risin,
kampakátur kattarskratti
kúrir sæll og sýpur latte.

Í kulda nöprum klæði núna kött í sokka
út úr holu hann vill lokka
hagamús og bjóða mokka.

Vanir kettir vilja engan vana hafa
kynntust því á Costa Brava
að kaffið ætti að vera java

Brúnaléttur Brandur heimtar brennt og malað
við mýsnar hefur mikið talað
morgunþorsta líka svalað.

Segir Brandur sæll, úr gini rop er,:
góð var músin , gud jeg håber
að Gísli eigi dropa af Kaaber.

Eftir veiðar ætlar núna inn að flýja
uppáhelling á ég nýja
andann hressir Gevalía.

Eins er veltist meltumús í maga
inni í stofu og úti í haga
er alltaf gott að drekka Braga.

Dagur byrjar dægivel með dropum tíu.
Kaffið er frá Kólumbíu
köttur fyllist innri hlýju

Í dróma koffíns daufur kisi dregst til hlés
en þegar kemur þriðji des.,
þá verður drukkið celebes

Í fimbulkulda fætur bitið frostið getur.
Koníak í kaffið setur
köttur þegar byrjar vetur

Ornar sér við aringlaðan eld með tíu
ekkert jafnast þó á við hlýju
eðalsopa í Brasilíu

Expressóið ætla núna ítalskt blanda
Síðan til að örva anda
út í bollann helli landa

Á þessum nótum þykir engin þulan of fín
vellur út úr ketti koffín
kannski breytist hann í skoffín.

Allt er drukkið er ei rétt að einum launir
úfnum ketti allar raunir
og nú malir nokkrar baunir

Þegar hér var komið sögu, lagði ljósvíkingurinn Lana Kolbrún Eddudóttir orð í belg, enda slær hjarta hennar til katta. Fyrir vikið varð hún persóna í síðustu vísunni og var innrímið ekki sparað.

Sest í kassa sínum flassar síða rassi
kætir músík kattarhlass
kannski spilar Lana djass….

Auglýsingar

3 athugasemdir við “Köttur drekkur kaffi við Sædýrasafnið

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.