Stolið greiðslukort II

Greiðslukortið sem ég rakst á í Bónuskerru og varð tilefni sögu úr hversdagslífinu, varð að umfjöllun í Pressunni. Þar fannst mér reyndar hallað óþarflega á Bónusstúlkuna og ekkert er fjallað um miðaldra afgreiðslukarlmanninn í Húsasmiðjunni sem hafði reyndar fjölbreyttari afsakanir á hraðbergi.  Hafi tilgangur Pressunnar verið að koma smá höggi á Bónus, tekst það prýðilega.  Ég tek ekki þátt í svoleiðis vitleysu.

Ég hef síðan spurt fólk um kortanotkun þess og fengið skrautleg svör. Þau bestu voru frá skógarbóndanum fyrrverandi sem kvittaði forðum daga með ýmsum nöfnum á kortasneplana, sér til skemmtunar. Almennt segir fólk mér að afgreiðslufólk líti aldrei á kortin og beri ekki saman mynd og korthafa, eða undirskrift og kort. Ég er reyndar sekur um að skrifa nafnið mitt svo illa að úr verður garnflækja.

Kona mér nákomin kvaðst oft borga með korti bónda síns og væru ekki gerðar við það athugasemdir. Karlmaður á besta aldri kvaðst senda börnin sín út í sjoppu með sitt kort og gengi það jafnan snurðulaust fyrir sig. Aðrir vitnisburðir voru á sama veg. Fólki fannst þetta sjálfsagt, þægilegt, eðlilegt og óþarfi að gera veður út af þessu.

Þetta blöskraði mér. Afgreiðslufókið ber hluta sakar í þessum tilfellum, því höfuðábyrgðin er hjá kortaeigendum.  Þeim er sama því verslanir bera tjónið, sé korti stolið og það notað.  Svona hugsunarháttur er kenndur við 2007, „þetta reddast“ möntruna og sýnir viðhorf sem ættu ekki að finnast hjá fjárráða og skynsömu fólki. En þessir tveir eiginleikar fara oft ekki saman hjá löndum mínum.

Ég veit að brátt kemur nýtt kerfi í verslanir þar sem fólk verður að slá inn auðkennistölu kortsins til að staðfesta viðskiptin og er þá undirskrift væntanlega úr sögunni og samanburður á mynd og korthafa sömuleiðis.  Þekki ég fólk rétt, finnur það einhverja leið til að halda áfram sínum upptekna hætti sem einkennist af kæruleysi og ábyrgðarleysi.

Auglýsingar

3 athugasemdir við “Stolið greiðslukort II

  1. Ég veit um verslunarstjóra í Nóatúni við Hringbraut sem lagði gildrur fyrir kassastarfsfólkið sitt – bað næsta mann í röðinni að skrifa undir og sagði að það væri allt í lagi.

  2. Minnir að annar sonurinn hafi gert einhverjar tilraunir með frumlegar undirskriftir fyrir nokkrum árum (þá hann greiddi með korti – hann notar nefnilega ekki peninga, þessi elska) og var aldrei gerð nein athugasemd við það. Svo held ég að hann hafi einu sinni eða tvisvar fengið debet-kortið mitt og greitt fyrir pizzur með því en hann vinnur reyndar á pizzustaðnum.

    Til að gleðja þá sem eru hneykslaðir á að hver sem er geti notað kredit/debet kort hvers sem er upplýsi ég að á þeim góða Skaga er a.m.k. ein ströng stofnun í kortamálum, sem er bókasafnið. Sonurinn fékk EKKI lánaða bók út á mitt kort heldur snéri sneyptur heim og þurfti að kaupa sitt eigið bókasafnskort. Ég er mjög fylgjandi þessari stefnu bókasafnsins enda finnst mér ómetanlegt að sem flestir eigi bókasafnskort (það er þá meiri séns á að fólk lesi eitthvað, ekki satt?)

  3. Bókasafnið á Skaga er til fyrirmyndar. Almenn lausung í kortanotkunarmálum er meiri en ég hugði. Ef eftirlitið væri í lagi í verslunum og fyrirtækjum, ætti korthafi að bera skaðann ef sökin er hans að mestu leyti. Það er eins með þetta og margt annað. Fólk verður að reka sig á botninn til að geta komist upp úr.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s