Letingjar fara á völlinn

Þessi frétt Vísis um bálreiða áhorfendur á knattspyrnuleik er ekkert einsdæmi. Þeir flykktust að Víkingsvellinum í gærkvöldi til að horfa á knattspyrnuleik og lögðu þar út um allar koppagrundir. Lögreglan mætti á svæðið og sektaði alla brotlega. Þetta þótti sektargemsunum ekki skemmtilegt og fóru saltvondir heim, eins og kemur fram í fréttinni og talað er um dónaskap og þröngsýni. Í annarri grein er talað um einelti lögreglunnar.

Svona sektahátíð er ekkert einsdæmi. Þetta fylgir landsleikjum og stórleikjum í Laugardalnum og alltaf verður fólk jafn hissa og hneykslað að það skuli ekki komast upp með að leggja ólöglega. Engum dettur í hug að til sé einföld lausn á þessu vandamáli sem sparar öllum peninga og eykur ánægjuna af leiknum, þ.e. að leggja einhvers staðar löglega og ganga hugsanlega nokkur hundruð metra að leikvanginum. Jafnvel hjóla á staðinn. Taka strætó. 

Í gærkvöldi var undurfallegt sumarveður sem hentaði vel til útiveru og hreyfingar. En þessir svonefndu „íþróttaáhugamenn“ gerðu sitt besta til að komast hjá hreyfingu til að geta setið sem fastast í tvo klukkutíma og horft á aðra hreyfa sig. Því miður fylgir hreyfingarleysi og leti svonefndum áhorfendaíþróttum og er það syndþar sem vaxandi ofþyngd ku ógna þjóðarheilsunni.  Ljóst þykir að þar koma ákveðnar íþróttagreinar ekki til með að auka hreyfingu og heilbrigði,

Við World Class í Laugardalnum eru hundruð bílastæða. Sum hafa þann „galla“ að þau eru um 200 metra frá aðalinnganginum í líkamsræktarstöðina. Til að komast hjá því að ganga þessa 200 metra, troða sumir ökutækjum sínum næstum inn í anddyrið til að spara sér sporin, áður en byrjað er að skokka á færibandinu.  Um svona fólk gæti ég farið ófögrum orðum en geri það ekki af tillitssemi og aumingjagæsku minni.

Auglýsingar

12 athugasemdir við “Letingjar fara á völlinn

 1. Heyr heyr. Svo hjartanlega sammála. Finnst Íslendingar yfir höfuð hrikalegir dónar þegar kemur að því að leggja. Undanfarið hefur farið fram mikil vinna á planinu fyrir framan blokkina á horninu á Neshaga og Hjarðarhaga. Vinnumennirnir sem þar vinna leggja bílum sínum uppi á lóðinni á blokkinni þrátt fyrir að næg stæði séu hinum megin við Neshagann. Eða kannski er þetta fólk sem vinnur í blokkinni? Alla vega, hér myndi ekki einu sinni muna 200 metrum heldur í mesta lagi 50. Og samt eyðileggja þeir frekar grasið en að labba yfir Neshagann. Þeir eru kannski hræddir um að keyrt verði á þá labbi þeir yfir tvöfalda götuna – ekki skrítið, þar keyra bílar um af og til.

 2. Minn kæri Gísli
  Ég vona að það komi sem flestir FHingar í Víkina þegar þeir sækja Víkinga heim eftir nokkrar vikur. Það verður hins vegar líklega ódýrara fyrir þá að taka leigubíl báðar leiðir en að keyra í eigin bíl og fá lögreglusekt vegna þess að það eru einungis 60 bílastæði við Víkina. Nema að þeir gangi á leikinn eins og starfsmaður bílastæðasjóðs lagði til eitt sinn þegar handknattleikslið FH kom í Víkina að vetrarlagi og löggan mætti með sektarmiðana, einu sinni sem oftar.
  Með íþróttakveðju

 3. Ég ætla að hjóla í heimsókn til ykkar, Gunnlaugur, og tel ekki eftir mér nokkra kílómetra hreyfingu til að horfa á aðra hreyfa sig. Þar fyrir utan sé ég núna að á þessu máli eru fleiri fletir en ég hugði í fyrstu en það breytir ekki þeirri grundvallarskoðun minni að í góðu veðri getur ófatlað fólk lagt spottakorn í burtu og gengið.

 4. Gísli.

  Þú skalt þakka Guði fyrir að hafa heilsu til þess að hjóla. Það eru ekki allir það heppnir.
  Það er ekki hægt að leggja löglega „spottakorn“ frá Víkinni. Það er vandamálið.

  Hins vegar er einfalt að leysa málið með því að setja upp á einfaldan hátt bráðabirgðastæði á grasflötum við Víkina – stæði sem gera löglegt að leggja þessi skipti sem stórviðburðir eru í Víkinni.

  Kristín.

  Það er ekki verið að tala um að leggja 50 metrum frá. Ekki heldur 200 – eins og hjá KR – til þess að fá lögleg stæði. Ef við berum saman við KR þá er þetta svona svipað og að leggja á Vesturgötunni – norðan við Hringbrautina – þá „léttu“ umferðagötu.

  Hjá FH er þetta svona eins og að leggja í Setbergslandinu – hinum megin við „léttu“ umferðagötuna Reykjanesbraut.

  Nú kemur hjörð af fólki sem er svo heppið að hafa heilsu til að hjóla með vandlætingu skilur ekkert í því að það þurfi fleiri bílastæði en 60 fyrir 1500 til 2000 manna atburði. Málstaður þess er svipaður því að ég héldi því fram að börn geti bara hjólað á hraðbrautum ef ekki eru til staðar hjólreiðarstígar.

 5. Ég efast ekki um og veit að þú getur hjólað bæði fram og til baka úr Hafnarfirði með miklum sóma Gísli, en því miður er ekki sömu sögu að segja um alla aðra Hafnfirðinga sem langar til að fylgja liðinu. Sumir eiga ekki hjól einu sinni er ég viss um!!

 6. Þetta er gott hjá þér Gísli.
  Auðvitað halda Íslendingar alltaf að þér séu svo sérstakir og frábærir að þeir þurfi ekki að fara eftir neinu sem hentar þeim ekki, það er ekkert nýtt.

  Nú vill svo til að ég fékk svona sekt á laugardaginn við Smárann en þar var Símamótið í gangi. Ég lagði á gras við Sporthúsið og fékk sekt sem ég borgaði bara með sæmilega glöðu geði í gær, 3900 krónur sem er svona svipað og það kostar að leggja í gott stæði í Evrópu. Ég hefði auðvitað getað lagt aðeins meira á mig og fundið laust stæði en ég nennti því ekki og get tekið ábyrgð á því. Ég hjólaði á föstudaginn á mótið og þá var þetta ekki vandamál en það er samt vandamál að geyma hjól á svona atburðum.

  Það er auðvitað til lausn á þessu sem var fundin upp fyrir löngu síðan hjá siðuðum þjóðum en Íslendingar eru tregir til að taka upp. Lausnin felst í því að rukka fyrir góð bílastæði og bara helst öll bílastæði enda eru þau ekki ókeypis. Fyrir þá sem finnst þetta alveg ægilega ósanngjarnt þá geta þeir skoðað bílastæðin við íþróttavelli í Evrópu. Við erum venjulega að tala um nokkur bílastæði fyrir hverja þúsund áhorfendur þannig að 60 bílastæði við Víkina er yfirdrifið, 20-30 væri nóg. Og í þessi bílastæði kostar pening og það getur verið dýrt að kosta pening. Þeir sem eiga bílastæði nálægt svona íþróttavöllum bjóða gestum upp á að leggja í þau og þá kostar það 5-50 Evrur eftir því hversu nálgægt þau eru. Þá erum við ekki að tala um 50m eða 200m heldur 500m eða 2000m frá leikvanginum. Þeir sem eru ekki svo „heppnir“ að geta labbað þá vegalengd geta horft á draslið í útvarpinu heima hjá sér í staðinn eða látið skutla sér að innganginum.

  Hvergi í Evrópu eru fleiri bílastæði á hvern íbúa en hér og því er það auðvitað bara lélegur spaugstofubrandari að halda því fram að hér sé einhver skortur á bílastæðum. Í þessari athugasemd er engin vandlæting gagnvart þeim sem leggja bílum þar sem þeir eiga ekki að vera.

 7. Hallur, er þá ekki spurning um að merkja öll stæðin 80 sem fatlaðrastæði fyrir þá sem eru ekki svo heppnir að hafa heilsu til að hreyfa sig?

 8. Og ein ábending handa Halli, vini mínum 😉
  „Þú skalt þakka Guði fyrir að hafa heilsu til þess að hjóla“

  Ég mun seint þakka Guði fyrir heilsu mína og heilbrigði, enda hleypur hann ekki, hjólar, syndir eða gengur. Meðan ég gerði ekkert af þessu (og kannski sá Guð þá alfarið um heilsu mína) var ástandið ekki björgulegt og ég hefði sennilega orðið feitur kransæðasjúklingur upp úr fimmtugu. En ég hafði vit á að taka ábyrgð á eigin heilsu og er því þokkalega góður í dag. En það er guði algerlega óviðkomandi.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s