Humarsúpuhákotið

Við hjónin komum ánægð og hæfilega svöng inn á veitingahúsið Hafið bláa við ósa Ölfusár síðdegis í dag, þar sem salurinn var varla hálffullur og var okkkur vísað til borðs. Þar fengum við matseðla og vorum fljót að ákveða okkur, miðað við hungurstöðuna. Þetta varð fyrir valinu:

„Humarsúpuhlaðborð (Alla daga frá 11 til 23)
Humarsúpa hússins og Humarsúpa með saffron borið fram með humarhölum, heimabökuðu brauði, smjöri, pestói og hvítlauks og mangósósu.1.990 kr“
Síðan biðum við í 30 mínútur eftir þjónustu meðan gengilbeinur hússins stjákluðu milli eldhúss og hlaðborðs, dedúuðu við diska og munnþurrkur og horfðu tómum augum í gegnum okkur. Loksins tókst þó að lokka eina til okkar. Tók hún við pöntuninni og kvaðst myndu koma með brauð og viðbit á diski en súpurnar skyldum við sækja að hlaðborðinu svonefnda.
Við biðum í stundarfjórðung eftir brauð-og viðbitsdiskinum en ákváðum þá að bera okkur eftir björginni. Þegar á reyndi var aðeins súpa í öðrum dunknum og þótti hún þunn og moðvolg. Í leiðinni rukkuðum við eftir meðlætinu og kom það með semingi. Við spurðum einnig eftir hinni súpunni sem átti að vera önnur meginstoðin í humarsúpuhlaðborðinu og tautaði þjónustumærin eitthvað um að hún skyldi gá að henni.
Áður en lengra er haldið er best að virða fyrir sér mynd af hlaðborði Hafsins bláa:
Brauðsneiðin er þumalfingurslöng og  af henni má ráða skálastærðina. Í hverri skál var viðbit sem dugði á eina sneið. Við fengum sex þunnar. Með lagni var hægt að treina hverja sneið í þrjá örsmáa munnbita. Súpuskálin er á stærð við meðaltebolla og rúmar eina ausu.
Okkur þótti fyrri súpan frekar þunnur þrettándi og spurðum þrívegis eftir hinni en fengum aldrei svör, heldur strunsaði viðkomandi þjónustumær alltaf burt án þess að virða okkur viðlits. Samt vorum við jafnan kurteis og blíðmál, enda í góðu skapi eftir góðan dag á flakki. Við urðum þess vör af kurri í salnum hjá þessum fáu gestum sem þar voru að þeim leiddist einnig biðin og þessi algeri skortur á þjónustulund meyjanna.
Loks leiddist okkur biðin og spurðum yfirgengilbeinuna um súpuna. Hún svaraði engu en fór fram á ganginn fyrir framan eldhúsið og gekk þar um gólf. Við ítrekaða fyrirspurn og ábendingu um að löng þætti okkur biðin, svaraði hún afgæðingi og rauk burt. Þá vildi ég fara og var ekki lengur í góðu skapi.
Þá kom seinni súpan og var sú rörþunn og bragðdauf, verri en samsvarandi pakkasúpa frá Toro, sem stundum er höfð hér á letidögum. Humarhalarnir voru ekki í fleirtölu, heldur skammtaðir og var hver hali á stærð við litlafingur á nýfæddu ungbarni í meðalvigt. Við fengum okkur einn bolla hvort og nennti ég ekki að klára þunnildislepjuna í mínum og var þó svangur.
Ekki bólaði á afsökunarbeiðni vegna biðarinnar og fyrir herlegheitin greiddum við fullt verð og fannst mikið.
Gamalt máltæki segir: „Það er stórt orð, Hákot.“ Við höfum oft fengið humarsúpu á veitingahúsum hist og her, bæði hérlendis og erlendis, og urðum þarna fyrir miklum vonbrigðum. Að kalla þetta hlaðborð, er svo stórlega ýkt að það er eins og að líkja Árna Johnsen við Bryn Terfel.
Okkur var samt runnin gremjan eftir nokkra kílómetra, enda á svona leiðindauppákoma ekki að spilla góðum degi en ég er þó nógu fúll til að segja frá þessu hérna, um leið og ég fullyrði að á Hafið bláa kem ég aldrei aftur. Það er ekki þess virði.

8 athugasemdir við “Humarsúpuhákotið

 1. það eru 2-3 ár síðan ég hét því að stíga ekki fæti inn á þetta veitingrhús vegna slæmrar þjónustu og atlætis, og ég sé að það hefur ekki lagast mesta furða að það skuli ennþá vera við lýði
  gua

 2. Við hjón höfðum einmitt heyrt af svona lélegri (jafnvel dónalegri) þjónustu Hafsins bláa frá „heimamönnum“ (þ.e. sunnlenskum ættingjum) og fórum þess vegna út að borða á Rauða húsið þegar unglögfræðingurinn útskrifaðist. Vissi ekki fyrr en núna að þeir í Hafinu bláa væru nískir á humarinn að auki. Rauða húsið er fínt ef maður á leið á Stokkseyrarbakka og vill fá sér í gogginn.

 3. Hafið bláa, hafið, hugann dregur / hvað er bak við ystu sjónarrönd? – Man ekki hver orti svo (Örn Arnarson?). Þarna sýnist mér einmitt ort um óvissuna. Vísar nafn staðarins ekki einmitt til þess að heimsókn þar er óvissuferð – er humar í humarsúpunni eða bak við ystu sjónarrönd? – Úr því að ég vitna í kveðskap leyfi ég mér að bæta við: Nú er humar / gleðjist gumar …

 4. Því er við að bæta að þessi staður varð fyrir valinu vegna þess að þannig stóð á skrefi hjá okkur eftir seinustu gönguferð dagsins þarna í nágrenninu. Við hefðum átt að aka aftur til Eyrarbakka eða Stokkseyrar en þar er eðalmatur á boðstólum.
  Ég hef heldur aldrei verið á veitingahúsi þar sem gestirnir ræddu jafn mikið saman um þjónustuna og matinn og þarna.

  • Geturðu ekki sent eiganda Hafsins bláa þessi skrif þín og það sem hinir skrifa? Fólkið þarna við ströndina virðist ekki nógu forframað til að vita hvað Málbeinið er. Ég hef tvisvar verið þarna í síðdegiskaffihlaðborði (er orðið of langt?) og kvarta ekki yfir trakteringunum þá.

 5. Ég fann fésbókarsíðu Hafsins bláa og setti þar tengil á skrif mín. Ég vona að eigandinn fylgist með henni eins og súpugerðinni.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.