Við Guðmundur og fokkurinn

Endur fyrir löngu var ég framsóknarmaður í tvær vikur.  Ég gekk í fokkinn (þetta er rétt stafsetning) með umsókn á netinu, var samþykktur tafarlaust og sennilega hefur aðild mín verið kveikjan að ummælum forsvarsmanns fokksins í fjölmiðlum nokkrum dögum seinna þegar hann sagði fólk streyma í Framsókn og fylgisaukning væri í kortunum. Ég varð ákaflega hreykinn heima í sófa og hugði á metorð innan fokksins. En líkt og Guðmundur Steingrímsson sá ég ekki fyrir nógu skjótan frama handa mér innan fokksins og sagði mig úr honum með tölvuskeyti. Þessi úrsögn rataði ekki í fjölmiðla, enda enginn héraðsbrestur, en ég fletti gömlum færslum og rifjaði upp þessa merkilegu daga:

„Fyrstu einkennin eru komin í ljós.
Eins og aðrir framsóknarmenn vil ég fá gott starf, jafnvel embætti, því mér er skylt að skorast ekki undan samfélagslegri ábyrgð, taka þátt í rekstri þjóðfélagsins og mótun þess og mun því á næsta flokksfundi lýsa þessari löngun minni. Þegar kallið kemur, hleyp ég til. Að auki hefur metorðaþrá mín aukist til muna síðan ég gekk í flokkinn. Mér finnst það vera réttur minn sem framsóknarmanns að fullnægja þessari þrá. Ófullnægður framsóknarmaður er geðstirðari en meðalgamalmenni á undirmönnuðu hjúkrunarheimili með nýinnfluttu pólsku starfsfólki.
Til að sýna metnaðinn set ég markið hátt. Ég mun ekki óttast völd og mannaforráð og góð laun eru engin fyrirstaða. Oft eru gerðar kröfur um ákveðna menntun og reynslu, jafnvel heilmikla menntun og reynslu, en það finnst mér óþarfi. Ég hef alltaf verið hrifinn af ráðherrum sem þora að skipa reynslulaust og lítt menntað fólk í ábyrgðarstöður því þá “getur fólkið mótað starfið eftir sínu höfði.” Þessi röksemdafærsla var viðhöfð á sínum tíma og er enn í fullu gildi. Í mínum flokki er ekki verið með óþarfa vesen. Flokksskírteinið er í fullu gildi.“

Þetta var á öðrum degi. Ég fann hvernig fokkurinn mótaði mig. Daginn eftir tók ekki betra við.

… ég finn fyrir miklum breytingum, aðallega andlegum. Í morgun varð vart við þunglyndi Halldórs, skopskyn Guðna, nöldurtón Valgerðar, durtshátt Jóns, ásamt vaxandi löngunar til að virkja Kaldána og sökkva nærliggjandi hrauni á kaf, þar sem það er með eindæmum ljótt og engin eftirsjá að því. Mér finnst samsömunin ganga ágætlega en verð var við vaxandi andúð samferðafólks míns. Þetta hlýtur að vera eineltistilfinningin.“

Um stefnuskrána má lesa hér.  Mér þykir gott að rifja þetta upp og þægilegt er fyrir áhugafólk um félagsleg áhrif fokksins að fletta þessum færslum.  Skógarbóndinn, fv. samkennari minn, ætlaði alltaf að ganga í fokkinn með mér og síðan ætluðum við að segja okkur úr honum saman til að skapa flótta úr fokknum, jafnvel atgervisflótta. En það getur víst aldrei orðið þegar framsóknarfokkurinn á í hlut.

Ein athugasemd við “Við Guðmundur og fokkurinn

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.