Vondar þýðingar og mjög enskuskotið málfar einkennir suma vefmiðla. Þar eru tveir fremstir í flokki, dv.is og bleikt.is. Mbl.is komst oft nálægt þeim, þegar sumarstarfsmennirnir fengu að leika lausum hala í erlendum fréttum, um svipað leyti og prófarkalesarar fóru í frí. En ekkert slær dv.is við á góðum degi. Þar er skemmdasta málfarsið sett fram undir dulnefninu ritstjórn og er vandfundin frétt sem er vel unnin og á góðu máli. Google Translate kemur í stað orðabókar og ekki leynir sér þegar viðkomandi starfsmaður skilur ekki efni fréttarinnar á frummálinu.
Bleikt.is er skör ofar. Þar er greinaflokkur sem nefnist Játningar. Neðst í flestum pistlum stendur þetta: „Ert þú með sögu sem þú vilt deila með lesendum? Sendu okkur póst á jatningar@bleikt.is – við gætum nafnleyndar.“ Af þessu má ráða að pistlarnir séu innlendir, sendir frá lesendum bleiks, sem eru á annað hundrað þúsund í hverri viku. Miðað við lesendafjölda mætti halda að ekki skorti innsent efni, því íslenskar konur (vefurinn er ætlaður drottningum) hafa frá mörgu að segja. Það gera þær hins vegar á öðrum vettvangi, því þessir pistlar eru eingöngu heimasmíðaðir á fjölmennri ritstjórn vefsins, oftast lauslega þýddir og illa staðfærðir úr erlendum veftímaritum. Rannsókn frómra aðila sem lásu flestar játningarnar í dag, leiddi þetta í ljós. Google Translate er helsta hjálpartækið og kastað er höndum til verksins. Um það vitnar þetta dæmi í dag, 8.9.2011.: (Svaf hjá giftum manni og sagði konunni hans það). Merktur Nafnlaust:
„Ég fór á djammið með vinkonum mínum. Þar var þessi ótrúlegi hönk sem nálgaðist okkur. Hann bauð okkur að setjast hjá sér og vinum sínum sem voru með sér borð á staðnum. Hann var ótrúlega áhugasamur um mig.
Hann sagði mér að hann væri skilinn og ánægður með það. Hann talaði um hversu æðislegt það væri að vera einhleypur en sagðist eiga börn. Hann var vel stæður og í góðri vinnu.
Því meira sem ég talaði við hann, því hrifnari varð ég. Hann var gáfaður, kraftmikill og ég heillaðist af honum.Hann sagðist vilja taka mig út að borða og kynnast mér. Hann vildi ekki bara kynnast mér til að sofa hjá mér.
Við töluðum mikið, káfuðum á hvort öðru, dönsuðum og héldumst í hendur. Ég viðurkenni að ég var mjög heilluð. Við eyddum 8 klukkutímum saman og þeir voru stórkostlegir…
Svo kom sprengingin einum og hálfum degi seinna. Ekki frá honum, nei, heldur frá einum vini hans sem sagði vinkonu minni.
Ég var reið. Eða það er ekki rétta orðið. Ég var tryllt. Að gaurinn skyldi voga sér að ljúga beint í andlitið á mér, alla nóttina! Og hann var svoooo góður í því. Af hverju gera menn svona? Finnst þeim gaman að ljúga konur fullar? Hann lék sér að líkama mínum og tilfinningum. Á meðan konan hans beið heima.
Ég hugsaði mikið um hana, eitthvað ótrúlega sterkt bærðist innra með mér. Hún var heima, bíðandi, treystandi honum, hugsandi um heimilið…meðan hann væri úti, ríðandi öllu sem hreyfðist. Ég þekkti þetta of vel því ég hafði lent í þessu sama.
Ég fann hana á Facebook. Ég skoðaði myndina af henni og allt inní mér öskraði: „Þú VARST þessi kona! Þú varst hún á meðan maðurinn þinn hélt framhjá í mörg ár og enginn sagði þér neitt! Ætlaru ekki að segja neitt?“
Svo ég skrifaði henni bréf. Ég sagði henni allt. Við töluðum meira að segja saman í síma. Þegar ég skellti á, fór ég að gráta. Ég var svo ótrúlega sorgmædd því ég vissi að hún myndi í framhaldinu ganga í gegnum helvíti. Ég fann blóðið streyma um líkamann og hendurnar titra, ábyggilega í takt við hennar líðan. Ég vissi að veröldin hennar væri hruninn. Ég upplifði þetta allt með henni…
Þegar ég róaðist bergmálaði rödd hennar í huga mér, síðustu orðin sem hún sagði áður en við kvöddumst: „Takk. Takk fyrir að vera svona hugrökk að segja mér frá þessu.“
Á vefnum I’m divorced, not dead, birtist 18.júlí, 2011, þessi pistill. Ekki þarf gripsvit til að sjá að þarna hefur Nafnlausi höfundurinn á bleikt.is fengið efnið, stolið, stælt og snarað lauslega. Þetta er ekki íslensk reynslusaga. Hvergi er vitnað í erlendu heimildina, frekar en í öðrum stolnum og stældum pistlum á bleikt.is. Þeir þekkjast á slæmu málfari, enskuskotnu orðalagi, erlendum aðstæðum og röngum þýðingum. Af nógu er að taka.
Oft hefur verið sagt að ábyrgð vinsælla höfunda og vefrita sé mikil, því það les fólk sem fyrir því er haft. Fallegt mál er yndi fyrir auga og anda. Án góðra þýðenda væri bókmenntaheimur okkar fátækari. Það jaðrar við 111. meðferðina að bjóða þeim upp á sora sem eiga aðeins það besta skilið. Vefur sem er ætlaður drottningum, á að vera vandari að virðingu sinni en raun ber vitni og bjóða upp á gæðaefni.
Þessi maður http://mbl.is/smartland/pistlar/velgengni/1189607/ virðist taka allt sitt af erlendum vefsíðum, meira og minna orðrétt þýtt. Tengillinn þarna er t.d. beint þýddur héðan: http://getmotivation.com/articlelib/articles/mcasto_happiness_decision.html og ég hef séð mörg sambærileg dæmi.
Þakka ábendinguna. Ég þigg gjarna fleiri dæmi um stælt og stolið.
DV og Pressan stela daglega erlendum fréttum af viðundrum og frægðarfólki frá breskum og bandarískum fjölmiðlum og birta án þess að geta heimilda. Iðulega er myndum stolið líka. Þetta er skipulega gert og oftar en ekki mest lesna efnið á þessum „miðlum.“
Þessari frétt:
http://www.pressan.is/ATH_efni/Lesa_ATH_efni/saxofonstjarnan-finn-martin-do-spilandi-a-hljodfaerid-sitt—fjoldi-ahorfenda-i-taugaafalli-eftir-slysid
Er líklega stolið héðan:
http://www.expressen.se/nyheter/1.2549267/svenske-finn-stortade-mot-sin-dod
Hér stelur DV myndum:
http://www.dv.is/folk/2011/9/8/victoria-beckham-med-dottur-sina-tiskusyningu/
af slúðursíðunni slashnewsonline:
http://photos.toofab.com/galleries/babys_first_fashion_week#tab=most_recent
Hér er Pressan að stela af Daily Mail, bæði frétt og mynd:
http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Erlent/fimmtan-ara-og-getur-brosad-i-fyrsta-sinn-a-aevinni-otrulegur-arangur-eftir-adgerdir
http://www.dailymail.co.uk/health/article-2034648/Teenager-born-dozens-cysts-face-smile-pioneering-surgery.html
Þessu má halda áfram ad nauseam. Starfsemin þarna byggist á þessum ritstuldi eins og sést á lista yfir erlendu fréttirnar á
Pressunni
http://www.pressan.is/Frettir/Erlent
og DV
http://www.dv.is/frettir/erlent/
Þessir fjölmiðlar geta ekki einu sinni þýtt enska jarðskjálfta og eldgosabloggið mitt almennilega, eða þá haft samband við mig í tölvupósti til að fá einhver atriði á hreint ef þess er þörf (sem stundum er að mínu mati).
Það er svo sannarlega margt rotið í íslenskri blaðamennsku.
Ég hnaut einmitt um þessa „frétt“ á DV: http://www.dv.is/lifsstill/2011/9/7/mommur-metast-skolalodinni/ . Hún virðist vera þýdd úr „fréttum“ af erlendum tískumiðlum en hvergi hef ég fundið þessa „rannsókn“. Sainsburys sem á að hafa unnið rannsóknina er að því er ég kemst næst annað hvort rannsóknarsetur í Asíufræðum eða bandarísk vefverslun.
Flestir bloggarar sem ég þekki gera ríkari kröfur til skrifa sinna en dv.
Hef aldrei skilið hvernig hægt er að „stela“ myndum eða efni af Netinu
Þetta er eins og að skilja vísvitandi eftir rándýran iPad á bekk niðrá Lækjartorgi og koma daginn eftir og vera voða hissa að hann sé horfinn og fara að væla og fara fram á skaðabætur
Gerandinn er í raun fórnarlambið og getur sjálfum sér um kennt
Ingþór: Réttur höfunda texta og mynda er ótvíræður. Ef texti er þýddur, í hann vitnað eða við hann stuðst, ber að geta höfundar og heimildar svo ótvírætt sé. Í vafa skal hafa samband við höfund. Sama gildir um myndrétt. Þetta eru lágmarkskröfur.
Þegar ég vann sem tæknimaður á fréttastofu RÚV gerðist þetta reglulega, alltaf þegar maður skráði sig út af hotmail lenti maður á einhverri ruslfréttasíðu. Ég man ekki hversu oft ég skráði mig út af hotmail og meirihluti hádegisfrétta RÚV birtist mér á ruslsíðunni, orð fyrir orð. RÚV hafa náttúrulega hinn stórfenglega Aðalstein Davíðsson, málfarsráðunaut, innan handar. Svo þetta varð að minnsta kosti stuldur á fallegri íslensku. En þið skiljið siðleysið, sérstaklega í ljósi þess að ég upplifði margar fréttanna sem stríðsáróður.
Kannski kom þetta allt frá Reuters, sem er virt stofnun. En fréttamennskan var engin, svo mikið er víst. Og svo spyr fólk hvernig lygar komast í fjölmiðla.
Annars vil ég taka fram að ég kynntist mörgu góðu fólki á fréttastofunni sem var annt um sannleikann OG íslenskt málfar. Fréttir frá Íslandi voru alltaf bestar 😉
Fréttastofa Rúv notar fréttir frá Reuters og AP, auk þess sem þýddar eru fréttir úr BBC og norrænu ríkisfjölmiðlunum. Þetta er að sjálfsögðu gert með heimild þessara erlendu miðla.
Ég leyfi mér að efast um að „drottningarnar“ á bleikt.is hafi heimild til þess að þýða og staðfæra efni af erlendum bloggsíðum og vefsíðum. Þar fyrir utan er það hrein fölsun að gefa það í skyn að þetta séu „játningar frá lesendum“ þegar þetta eru raunverulega ekkert annað en stolnar og illa þýddar sögur erlendis frá.
Kannski sagan á http://iamdivorcednotdead.com sé líka stolin?
Kannski er hún frá Brasilíu, Litháen, eða Íslandi
Pistillinn á ensku síðunni var birtur talsvert á undan þeim bleika, þannig að það er engin spurning að bleikt.is er að afrita og kynna sem eigin efni. Ég hef séð fleiri dæmi um svona stuld á bleikt.is af hinum ýmsu, erlendu síðum. Þetta virðist beinlínis vera ritstjórnarstefna hjá þeim.
Þær eru hins vegar ansi lítið sáttar við að einhver geri athugasemd við þessa „fréttamennsku“.
Um daginn var mogginn eða dv að segja frá Gardner leikkonu (eiginkonu Ben Atlec), en myndin sem fylgdi var ekki af henni heldur annarri leikkonu. Börnin í slúðurfréttunum þekkja ekki einu sinni heimsfræga leikara og enginn fylgist með því hvað birtist.
Bakvísun: Bleikt var brugðið « Málbeinið
Ég skil bara ekki hvernig það geta talist vinnubrögð að velja greinar af netinu af handahófi, þýða alveg einstaklega illa og birta síðan á netinu undir öðru nafni. Hvernig getur þetta t.d. átt sér stað á mbl.is? Ég hélt einhvern veginn að mogginn hefði ennþá smá snefil af virðingu…
Fyrir nokkru síðan las ég grein inná cosmopolitan.com um komandi tísku; u.þ.b. 10 myndir voru birtar með ítarlegum texta undir hverri mynd. 2 dögum seinna var nákvæmlega sama grein komin inná Smartland Mörtu Maríu, með sömu myndum, í sömu röð hvorki meira né minna, án nokkurra heimilda! Ég verð svo pirruð þegar ég sé svona… Eru ekki einhver lög gegn svona drasli?
Jú, það eru lög gegn svona drasli. Lög um höfundarrétt og Hearst Communications, Inc sem á Cosmopolitan er væntanlega með lögfræðinga á sínum snærum. Mér finnst ritstjórar vefritanna taka ansi mikla áhættu með því að stela frá svona risa og öðrum álíka. Ef þeir tækju upp á því að kæra þá gæti það orðið dýrt spaug.
í fyrra var mér bent á grein með myndum um hárgreiðslu á bleikt.is þar sem bæði myndum og efni var stolið (finn það ekki í svipinn og nenni ekki að eyða tíma í að leita. Kannski er hún horfin, því ég veit að eiganda efnisins var bent á stuldinn og hún var ekki hrifin!
Þetta er alveg frábært, takk fyrir góða grein.
Þetta er alveg með ólíkindum. Daglega sér maður „blaðamennsku“ af þessu tagi. Í dag hef ég séð amk 3 slíkar. Hér er dæmi http://www.dv.is/frettir/2011/9/13/thu-ert-ogedfelld-mannekja/ og svo fréttin á Daily mail: http://www.dailymail.co.uk/news/article-2036556/Gemma-Hayter-trial-jailed-vile-heartless-torture-disabled-woman.html
DV breytti þó fyrirsögninni þó hún sé hálf furðuleg.
Bakvísun: Flokkseigendur leika lausum hala | Atli Thor Fanndal