Í rusli

Í hrauninu fyrir ofan og vestan Hafnarfjörð er gömul grjótnáma.Sumarið 1984 stóð ég þar löngum með loftbor í höndum og hristist ákaflega meðan borinn át sig niður í bergið. Yfirleitt lauk deginum með sprengingum og fyrirgangi. Grjótinu var síðan ekið í hafnargarðinn í Straumsvík. Í rigningu var þetta sóðalegt og önugt starf, en í góðu veðri var notalegt að baka sig í sólinni og stundum busluðu bormenn Íslands í tjörninni sem hafði myndast í námunni. Þetta var skítbærilegur staður, ekkert nema grjót, möl, lyng og ber. Vegna óhreinindaáhrifa vinnunnar varð ég ekki hreinn þetta sumar fyrr en eftir síðasta daginn en þá tók kennarajakkinn við af regnstakknum. Eftir 1990 held ég að ekki hafi verið unnið þarna, en umferð hefur verið nokkur, eins og sjá má.
Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið bent á sóðaskap á þessu svæði og höfðað til almennings að mæta og tína upp allt smádraslið sem umhverfissóðar skilja eftir sig. Okkur hér á bæ fannst rétt að leggja eitthvað af mörkum og mættum á staðinn, eins og rúmlega tugur annarra bæjarbúa. Aðkoman var eins og sjá má á myndinni.  Við tíndum í nokkra ruslapoka á bakka námunnar en gengum síðan niður til að skoða í tjörnina, þar sem spakir menn höfðu fullyrt að þarna mætti gera gott útivistarsvæði.

Daginn áður höfðu að sögn verið hirt um hundrað tonn af málmum og bílhræjum. Eftir lágu hundruð þúsunda skothylkja og leirdúfubrota. Einhvers staðar í gjótum hafði verið komið fyrir kindahræjum.  Í tjörninni var drasl og vatnið óhreint.

Úr því sem komið er, getur svæðið í kringum námuna orðið ágætt útivistarsvæði. Nóg er af berjalyngi og sprettan góð. Sjálf er náman álíka aðlaðandi og gamalt klósett. Ég myndi fara með jarðýtu og slétta úr hrúgunum sem í henni eru og loka síðan veginum með stórgrýti nógu langt í burtu til að fólk verði að ganga drjúgan spöl til að komast þangað. Það er eina leiðin til að halda skotglöðum og öðrum sóðum í burtu því hugsanlega nenna þeir ekki að rogast með sjálfa sig og sitt drasl um langan veg til að henda því þarna.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s