Viðurkennt einelti

Ég man vel eftir eineltiskönnuninni í „uppáhalds“bekknum mínum. Ég stóð í þeirri trú að öll dýrin í skóginum væru vinir, lékju sér saman innan skóla og utan og væru þokkalega hamingjusöm. Þó kom annað á daginn.

Strákarnir í bekknum voru oft galsafullir og gerðu dálítið af því að hnoðast með þann minnsta og kitla hann og sprella með hann. Oftast lét hann sér þetta vel líka en svo þreyttist hann á þessum leik (ef leik skyldi kalla) og vildi þá oft að félagar hans hættu því. Þeir hafa sennilega verið misfljótir til þess því stráksa þótti þetta nógu leiðinlegt til að segja hreint út í könnuninni að hann væri eineltur. Honum var full alvara og að fengnu samþykki hans var þetta rætt á foreldrafundi þar sem viðstaddir voru foreldrar allra sem komu við sögu. Niðurstaðan varð eins og ég bjóst við, því þetta var ákaflega góður og skynsamur foreldrahópur. Málið var rætt á heimilum drengjanna og ég heyrði þónokkrar afsökunarbeiðnir á næstu dögum og setningar eins og „ég fattaði ekki að þér þætti þetta svona leiðinlegt“ og annað í þeim dúr.  Síðan héldu allir áfram að vera vinir og eru enn, eftir því sem mér skilst. Eineltið var úr sögunni.

Lausn þessa eineltismáls gekk vel vegna þess að hinn einelti sagði frá,  nemendur skildu alvöru málsins, foreldrar tóku á þessu af festu heima fyrir svo að allir skildu að svona framferði væri ekki liðið, og gerendurnir hættu tafarlaust og báðust afsökunar. Allt féll í ljúfa löð.

Annað er uppi á teningnum í Gerðaskóla í Garði eins og hér má lesa um í DV. Meðan skólastjórinn fullyrðir að einelti sé ekki vandamál í skólanum og efast um að tölur um 13% einelti gefi rétta mynd, segir þessi stúlka og móðir hennar aðra sögu. Ég skil skólastjórann að nokkru leyti því samkvæmt lýsingunni er eineltið einna mest utan skólans, þar sem börn koma saman, í sundi, í félagsmiðstöðinni og á leiksvæðum. Þar er skólinn áhrifalítill og þá kemur til kasta foreldranna og samfélagsins. Og þetta litla samfélag hefur ekkert lært af þessari sorgarsögu.  Ekki virðist votta fyrir viðhorfabreytingu. Foreldrar hafa ekki tekið sig saman um að kenna börnum grundvallarreglur um samskipti og tillitssemi. Ekki bólar á vakningu eða átaki. Kannski er beðið eftir niðurstöðum nýjustu eineltiskannananna og ef talan verður lægri en 13%, varpa kannski allir Garðsbúar öndinni léttar og telja eineltið vera á undanhaldi.

Nokkrir foreldrar hafa orðið að flytja úr sveitarfélaginu til að forða börnum sínum frá einelti. Það breytir litlu fyrir gerendurna, sem finna sér þá ný fórnarlömb og halda uppteknum hætti. Atferlið er viðurkennt í samfélaginu og reyndar ætti að setja upp viðvörunarmerki við þjóðveginn að Garði fyrir þá sem íhuga að flytja þangað með börn sín.

VARÚÐ

EINELTI

Auglýsingar

3 athugasemdir við “Viðurkennt einelti

 1. Þær eru misjafnar sögurnar af eineltismálum. Farsæll endir á þinni.
  Ég man eftir ungum manni sem leið vel í barnaskóla; var í fyrirmyndarbekk sem gjarna tók við nýjum nemendum – stundum börnum sem höfðu átt í erfiðleikum vegna eineltis í öðrum skólum. Einn góðan veðurdag voru bekkjarfélagar í leik úti á velli, útsláttarkeppni í fótbolta. Þegar þarna var komið sögu voru 4 keppenda eftir. Þá birtist einn af nýju bekkjarfélögunum, sem ekki hafði verið með í leiknum, heimtaði að vera með og var þá beðinn um að bíða þar til nýr leikur hæfist – eins og allir hinir sem voru úr. Viðkomandi fór og klagaði undan einelti, úrslitamennirnir 4 voru teknir og settir í Olweusarferli út af meintu einelti, með tilheyrandi niðurlægingu – setu á skólastjórabekk, yfirheyrslum, ásökunum og umvöndunum. Foreldrar heyrðu fyrst af málinu og aðgerðum eftirá í tölvupósti.
  Eftir þetta fór ungi maðurinn aldrei framar glaður í skólann sinn og þetta situr eftir í minningunni eftir 5-6 góð ár þar af 7.

  Í þessari sögu sagði sá einelti líka frá … eineltisbatteríið fór á fulla ferð og valtaði yfir hreina samvisku og viðkvæma sál. Sá einelti sagði síðar frá því að það hafi nú bara verið tilviljun hverjir hafi „lent í“ þessu – sá sem hér er sagt frá hafi t.d. aldrei gert sér neitt…

  Olweusarteymið tók á málinu af festu, sá einelti kom sinni líðan á framfæri eins og oft áður…og einhverjir hlutu refsimeðferð sem aldrei gleymist. Flott að hafa svona öfluga eineltisáætlun. Eða…?

 2. Ég fór sosum ekki eftir neinni Olweusáætlun, talaði bara við foreldrana og málið leystist á einni kvöldstund eða svo. Mér fannst þetta ekki eins alvarlegt og önnur mál sem komu upp í skólanum en gerði þetta svona þar sem aðstæður buðu upp á það. Eineltisbatteríið var nú ekki svo stórt í þá daga.
  Eins og þú lýsir reynslu þessa unga manns, þá finnst mér málsmeðferðin alveg út í hött.

  • Þessi málsmeðferð er ekki samkvæmt Olweus, þar sem skilgreiningin á einelti er mjög skýr þar og ekki í samræmi við það sem hérna er gert. Hérna er það „teymið“ sem kann ekki vnnuna sína.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s