Hrukkusteinar

Upphaflega skrifað fyrir  dálkinn: Útlit og fegrun – á þessu vefsetri 

Hver kannast ekki við það að hafa staðið örvæntingarfullur fyrir framan spegilinn, gráti nær eftir að hafa fundið fyrstu hrukkuna og séð æskublómann hverfa niður í iður skolpræsanna eins og hvern annan tannburstahráka?  Allt í einu rennur upp fyrir manni ljós. Ally McBeal hafði rétt fyrir sér og rennislétt postulínsandlitið vitnar um það. Hún lærði það fimm ára gömul af móður sinni að brosa aldrei og rúmlega þrítug fagnar hún góðum árangri, grafalvarleg og geislandi af fegurð, jafnt að innan sem utan. Fegurðin kemur innan frá. Forvarnir byrja í frumbernsku. Fullorðið sparar barnið hundruð þúsunda í kremum, áburðum, olíum.

Þó er ekki öll von úti því á markaðinn eru komnir hrukkusteinar. Þetta eru mjúkir fjörusteinar sem sjórinn hefur fágað og mótað í þúsundir ára, sérvaldir á íslenskri strönd og flokkaðir eftir stjörnumerki kaupandans. Meðferðin er einföld og þægileg og tekur aðeins stundarfjórðung daglega fyrir framan spegilinn. Árangur kemur í ljós eftir nokkrar vikur og mikill munur hefur mælst eftir samfellda notkun í 3 mánuði. Um það vitna fjölmargar reynslusögu með myndum, fyrir og eftir hrukkusteinsmeðferð.  Í leiðbeiningum frá framleiðanda er fólki ráðlagt að nota ekki aðrar snyrtivörur á meðferðartíma.

1. Takið steininn í hægri hönd (örvhentir nota vinstri hönd). Strjúkið andlitið þéttingsfast með steininum og gætið þess að strokuáttin sé jafnan FRÁ augum og munni út að eyrum í átt að hnakkanum. Farið vel ofan í allar hrukkur, sérstaklega kringum augun.

2. Setjið stút á munninn og dragið kinnar inn. Þetta dregur úr hrukkum sem fyrir eru og spornar við aukinni hrukkumyndun. Haldið þessari stöðu í fimm mínútur. Horfið þéttingsfast í spegilinn á meðan og hugsið um blóm, engi, framandi strönd eða sumarhús í Flórída.

3. Skolið steininn í volgu vatni eftir notkun því annars safnast í hann andlitsfita. Þvalur og feitur steinn gerir voðalega lítið fyrir mann og skapar það mikla klígjutilfinningu að taka hann úr kassanum.

4. Gangið frá steininum í kassanum eftir notkun. Geymist á þurrum og heitum stað.

Umsagnir ánægðra neytenda eru besta auglýsingin:

“ Ég varð miklu sléttari í framan og leið eins og ég væri nýkominn af brettinu í Laugum. Húðin var stinn og þétt. Ég leit bara alls ekki út fyrir að vera nývaknaður. Ég ætla pottþétt að prófa þetta aftur.”

“Mitt vandamál er stress og ég er búin að vera stressuð síðustu daga. En eftir morgunstund með steininum mínum  var ég svo slök að mér leið eins og ég væri nýkomin úr nuddi. Og pokarnir undir augunum voru horfnir.”

“Mér leið ótrúlega vel eftir steinsnuddið. Ég var léttari á mér og alls ekki eins þreyttur  og vanalega og með engan bjúg. Allt er þetta hrukkusteininum mínum að þakka. Víí.”

“Ég kastaði mér, gólandi af gleði, á hrukkusteininn, þegar ég sá hann fyrst. Hrukkusteinsmeðferð byggir á aldagömlum kenningum og aðferðum við að draga út eiturefni undan húðinni og safna þeim í steininn og virkja um leið afeitrunarleiðir líkamans. Náttúrulegra getur þetta ekki orðið. Ég ætla að gefa vinum mínum hrukkustein í jólagjöf.”

Hrukkusteinar fást víða en líka  er hægt að kaupa þá milliliðalaust af framleiðanda.  Þeir koma í handunnum pappakössum úr endurunnum dagblöðum, liggja á fífuknúppum frá Þykkvabæ og bandið utan um kassann er úr íslenskum lopa. Á sérstöku kynningartilboði til lesenda kostar hrukkusteinninn aðeins 3999 krónur. Ekki missir sá sem fyrstur fær.

Ein athugasemd við “Hrukkusteinar

 1. Eiríkur Jónsson bloggaði í vor um að hann notaði hrukkukrem. Þá varð þessi vísa til

  Frá Nivea kemur í krukkum
  krem til að útrýma hrukkum
  svo slétt verði skinn þessa manns
  þótt sálin sé vandamál hans

  Bæði á bólur og flekki
  ber hann og blygðast sín ekki
  Ef barnsandlit bara má hafa
  brjóstin og allt hitt má lafa

  En okkur Eiríki báðum
  ætti að skiljast það bráðum
  að ímynd hins kvenlega kalls
  er klisja sem riðar til falls

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.