Pjattrófan Jesús

Jesús krossfit á krossinum

Eins og allir vita er alþýðu manna ekki treystandi fyrir útliti sínu. Án hjálparsveita fjölmiðla, útlitsgúrúa og tískuspekinga færu flestir sér að voða, enda er ekkert fullkomnara en staðlað og samræmt útlit miðað við hæð, þyngd, hárlit, stjörnumerki, starf, stétt og þess háttar.

Sú var tíðin að boðað var til almennrar föstu á vegum pjattrófa  (UPPFÆRT: færslunni var eytt vegna móðgunargirni höfunda en feitletraðar línur eru bein tilvitnun) og þar var vitnað í ekki ómerkari mann en Jesús, sem fastaði 40 daga í eyðimörkinni og hafði svo gott af því að við hann eru heilsubótarföstur kenndar. Neikvæðir og róttækir  öfganærbuxnadólgafemínistar vilja auðvitað fá að fitna og safna hári í friði en vegna áhuga míns á útliti og biflíusögum er einboðið að upplýsa fólk um megrunarguðspjallið og ellefta boðorðið sem fannst nýlega á steintöflubroti. „Þú skalt líta út eins og þér er sagt.“

Eins og allir vita var Jesús Kristur óttaleg pjattrófa og umhugað um útlit sitt, enda dramatísk steingeit með rísandi kross á föstudegi. Hann var hrifinn af víðum og þægilegum klæðnaði, var berfættur í ilskóm. ávallt vel tásnyrtur og gneistaði af sjálfsöryggi. Hann notaði eingöngu náttúrulegar snyrtivörur og hvergi er þess getið að hann hafi átt slæman hárdag eða verið með ljótuna. Jesús fann upp föstudaginn, TGIF og fótanuddtækið í einfaldri mynd með hjálp kvenna sem þvoðu á honum býfurnar eftir langa gönguferðir með strákunum milli þorpa í Betlehemsýslu og nágrenni.

Guðspjallamaðurinn Anorex er lítt þekktur hjá trúfróðum, enda lagði hann eingöngu föstuboðorðin fram við ritnefnd biflíunnar. Þau þóttu of mörg, of langt á undan sinni samtíð og ónærgætin gagnvart fólki sem átti hvort sem er ekki til hnífs og skeiðar. Síðari tíma biflíutúlkendur hófu síðan beinagrindarlúkkið til vegs og virðingar. Pjattrófur eru vel lesnar í Anorex og hans helstu kennisetningum sem tilgreina kosti föstunnar. Þær eru feitletraðar og teknar beint af pjattrófusíðunni. Annar texti er eftir fræðimanninn Rigor Mortis, sem oft hefur brynnt Málbeininu af spekibikar sínum.

„1.     hvíld fyrir meltingarkerfið

Einhæft mataræði, ket, fiskur og brauð, hefur slæm áhrif á ristilinn, einkum þegar verið er að éta afganga dag eftir dag, eins og dæmin sanna. Maginn dregst vel saman og vegna magaæfinga kom Jesús sér upp flottum sixpakk á þessum 40 dögum.

2.     leyfir líkamanum að hreinsa sig og ‘dítoxa’ eða losa sig við óæskileg sindurefni

Sjá má víða í ritningargreinum að Jesús tók ekki að fullu undir þetta atriði. Dítoxið svonefnda varði í fjóra daga og eftir það skeit hann varla að heitið gæti, nema á sandskeiðinu. Úthreinsun sindurefna gerðu geislabauginn daufan og undir lokin var ekki lesbjart á kvöldin.

3.     gerir hlé á matarvenjum og býr til tækifæri til að skapa nýjar

Jesús drakk eingöngu Genesaretvatn þennan tíma og tuggði hörfræ eins og sannri pjattrófu sæmir. Hann gleymdi tannburstanum heima en hreinsaði tennurnar með sandi á hverjum morgni. Undir það síðasta át hann sand í hunguróráði, sem hafði óvæntar afleiðingar og þekkja nútímamenn vel orðin sandskeið og steinsmuga sem rakin eru til þessa tímabils föstunnar. Fyrir vikið hætti hann föstunni eftir 40 daga.

4.     hreinsar hugann, gerir hann skírari

Undir lokin hugsaði Jesús bara um mat og sá hann mjög skýrt fyrir sér. Jóhannes vinur hans fastaði með honum í fyrstu en hætti þegar hann varð skírari.

5.     losar um ‘föst’ hugsunar, hegðunar eða tilfinningaleg mynstur

Jesús steinhætti öllu skyndibitaáti úti um allar þorpagrundir og var miklu duglegri að hreyfa sig. Hann fór víða með tólf manna gönguhópi sínum og tók fólk tali. Þeir tóku einnig upp stafgöngu og æfingar með steintöflur.  Af þessari hugmyndafræði og öðrum líkamsæfingum guðspjallanna varð til Crossfit.

6.     maður verður léttari á sér og orkumeiri

Skömmu eftir þetta gekk Jesús á vatni í fyrsta sinn og fór hratt yfir. Háar hnélyftur á sprettinum vöktu aðdáun lærisveinanna, sem höfðu upphaflega ekki ætlað að hafa hann með í róður, enda var Jesús alræmd fiskifæla. Eftir það stungu þeir hann aldrei af.

7.     innri friður, sterkari andleg tengsl

Jesús náði mjög góðu sambandi við föður sinn í eyðimörkinni enda lá enginn á línunni til að trufla. Þeir ræktuðu samband sitt, unnu úr höfnunartilfinningu Jesúsar og ranghugmyndum um útlit Guðs, en þar studdist hann eingöngu við óljósar minningar Maríu um bjúglaga vitjun um nótt.

8.     unglegra útlit, tærari húð

Allar fyrir og eftir myndir af Jesú sýna miklu betri og sléttari húð og hann virtist ekki degi eldri en 31 árs. Hvergi vottar fyrir fílapenslum og bjúg á ökklunum.

9.    betri svefn

Jesús átti eftir þetta mjög gott með svefn og brýndi fyrir lærisveinum sínum að taka sængur sínar meðferðis á gönguferðum. Upphaf svefnpokahönnunar er rakið til þessa tímabils.

10.     nýjar hugmyndir

Um þetta leyti fór Jesús að þróa breytingu á vatni í vín og kallaði það kraftaverk. Aðrar hugmyndir hans, sem samtíðarmönnum þóttu frekar „wild“ leiddu að lokum til handtöku hans.

11.     æfing fyrir sjálfsagann

Jesús þoldi sársauka miklu betur eftir þetta og kveinkaði sér ekki að ráði á krossinum en var fámáll eins og heimildir herma.  Stuðst var við orð hans á krossinum þegar ákveðin var lengd SMS-skilaboða. Stutt og laggóð.

12.    þú léttist

Jesús leit hrikalega vel út eftir föstuna, vel undir kjörþyngd og línurnar góðar. Pílatus hefði aldrei reynt að krossfesta 130 kílóa hlunk. Þar með má segja að fastan hafi auðveldað dómsfullnustuna.

Heimildir:  Anorex-bréfið, 1-12. kapítuli.

Ernst Kretschmer: Körperbau und Karakter, Berlín, 1921.

Sr. Helgi Dagur Kristinsson: Sandskeiðið. (Óbirt BA-ritgerð) HÍ 1991

23 athugasemdir við “Pjattrófan Jesús

 1. Ég hafði barasta ekki gert mér grein fyrir að biflíusögurnar væru svona skemmtilegar. Kannske er þarna nýtt lesefni handa mér.

 2. Mér finnst þetta drep fyndið mjög lærdómsríkt hvernig hægt er að kenna hinum og þessum ráðgjöfum hvernig hægt er að féfletta almenning. Sér í lagi þá sem eiga fulla vasa af hinu þið vitið þeir vilja vera eilífir eins og sumir í sögunni, er hægt að búa til betri story yfir alla þessa vitleysu sem gengur á hér td Jónína B. Solla græðgi.( Feitasta fólk í heimi) bara nefnum það. Ég vil að endingu geta þess að sagan fær 10 vegna þess að engin hlær betur en faðir vor og sá er situr honum til hægri handar…. 🙂

 3. ef hinir guðspjallamennirnir væru svona skemmtilegir væri kannski von um að ég yrði hólpin. Ég verð að láta mér nægja guðspjallið hans Gísla úr þessu og er það ekki slæmur dagskammtur…

 4. Gísli þú ert snillingur! mér finnst þetta næstum jafn-fyndið og bullið sem þetta gerir grín að 🙂 Annars mæli ég með svörum Ernu Magnúsdóttur við upphaflegu greininni, af einhverjum *undarlegum* ástæðum er stór hluti af þeim horfinn af Pjattrófuvefnum en ég yrði ekki hissa þó þau dúkkuðu upp einhverstaðar annars staðar fljótlega..

  • Já, mér þykir miður að jafn pennafær blaðakona og MHG skuli ekki vilja ræða þetta á málefnalegum nótum og merkilegt hvað hægt er að skola athugasemdum burt. En kannski er þetta feilnóta í forriti.

 5. Einstaklega skemmtilegt vissulega Gísli – og næstum prédikunarefni hvað hann Jesú var „fit“;;; enda þurfa menn að vera alveg „crossfit“ – til að þola krossins raunir…

 6. Þetta er alveg eiturfyndið, hélt satt að segja að þetta vær þessi nýi bjór sem ég var að drekka (Old Foghorn), er stórum létt að (líklega) ódrukknir hlóu líka! Ef maður les svona pistil á hverju kvöldi þá verður tilveran alveg þolanleg!

 7. Mér fannst þetta frábær pistill og áttaði mig alls ekki á að hann styddist að hluta við fyrirmynd (aðra en Nýja testamentið) fyrr en ég sá kommentin fyrir neðan. Svo las ég fyrirmyndina / kveikjuna og þótti hún jafn fyndin. En skrítið að það skuli ekki vera nein komment við þann grínpistil …

 8. Gyðingar til forna höfðu engan áhuga á útliti fólks. Í Biblíunni, sem og öðrum fornum ritum þeirra, eru engar lýsingar á hvort fólk var feitt eða mjótt, dökkt eða ljóst, nema með örfáum undantekningum. Við fáum að vita að konan í ljóðaljóðunum er svört (en kona Móses var líka svört, segja önnur fornrit gyðinga en Biblían) og í Nýja testamentinu er talað um til dæmis „Eþíópíumann“, en ekkert minnst á útlit hans, né er minnst á útlit Grikkjanna sem þar eru nefndir, þó þeir hafi eflaust haft til að mynda aðeins annað andlitsfall og svo framvegis en venjulegustu Hebreanir. Jú og við fáum að vita að Sara og Ester voru fallegar. En þar endar eiginlega málið. Til samanburðar eru fornbókmenntir Íslendinga fullar af nákvæmum lýsingum á andlitsfalli, hárgerð og háralit, vaxtarlagi og öðru sem Hebreum hefði þótt bæði óáhugavert og óviðeigandi að eyða púðri í að lýsa, og bera vitni yfirborðsmennsku og lítilli greind. Við ættum kannski í anda jólanna að láta af útlitsdýrkun okkar og því að horfa á yfirborð náunga okkar, og reyna þess í stað að horfa á manneskjuna, innræti hennar og framlag til heildarinnar.

 9. Ekki bara það, heldur þarf lítið til að sjá að forfeður okkar dæmdu annað fólk eftir útliti sínu. Góða fólkið er næstum alltaf líka fagurt. En það gerir Biblían aldrei. Ester var að vísu í fegurðarsamkeppni, en það var þegar Hebrear bjuggu í Persíu og voru slíkar keppnir innlendur siður þar, en aldrei hjá Hebreum fyrr en á þessari öld vegna sömu Ameríkaniseringar og við hin erum öll að lenda í líka. Og stúlkan fór í keppnina gegn vilja sínum, til að bjarga þjóð sinni. Fyrir örfáum árum byrjuðu þeir að reyna að gera fegurðarsamkeppnir gáfulegar ungfruisland.is stíll. En það getur enginn toppað Ester, sem langaði ekki í slíka keppni, þurfti að brjóta lög síns fólks til að fara í hana, hafði engan áhuga á að giftast manni með annan sið (sem hennar fólki þótti bara harmleikur, þó hann væri konungur), en gerði samt til að bjarga mannslífum. Fáum við að vita í smáatriðum hvernig hún leit út? Nei. Ekki einu sinni háralitinn. Og vitum við eitthvað um hvernig fólkið hélt sér í formi og hvaða fatnaður var í tísku? Það hefur ekkert af ritum þeirra minnsta áhuga á því. En við vitum hvernig skikkjur og klæði hetja Íslendingasagnanna voru á litinn. Breytum nú um stíl og verum jólaleg, og hættum að hugsa um þessa hluti í nokkrar vikur. Við gætum horft í augu fólks í stað þess að horfa á skóna þeirra. Við gætum líka fylgst með breytingum á innra manni fólks, í stað þess hvort viktin fór upp eða niður eða hvort fatnaðurinn sé í tísku eða ekki.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.