Ketti strokið öfugt

Eins og margir vita herbergja ég kött. Hann situr löngum úti í glugga meðan ég lem lyklaborðið, horfir æstur á snjótittlinga og leggur sig þess á milli. Stundum liggur hann á stólarminum og horfir á músarbendilinn. Hann fær nóg að borða og mulið er undir hann. Líf kattar er að mörgu leyti öfundsvert. Að vísu svipti dýralæknirinn hann ákveðnum lífsgæðum en það er önnur saga. Kettinum líður best þegar allt er slétt og fellt í kringum hann.

Stundum strýk ég kettinum öfugt. Það er ekki af stríðni eða mannvonsku minni, því ég er gæðablóð og ekki stríðinn, heldur er þetta til að vekja köttinn til vitundar um nærsamfélag sitt og að ekki er allt klippt og strokið í heiminum. Honum bregður oftast við þetta og rýkur á fætur. Mér finnst ég taka eftir meiri íhygli í svip hans eftir öfugar strokur og tel mig hafa með þeim stuðlað að auknum þroska hans.  Enn er hann á því að öfugar strokur séu ekkert gamanmál og hann færir sig yfirleitt úr seilingarfjarlægð minni, ef hann telur ástæðu til.

Aðventusveinarnir á knúzinu eru eins og öfugu strokurnar á kettinum. Þeir eru ekki allra, vekja óhug sumra, velþóknan annarra. Þeir eru ádeila. Misheppnuð ádeila, segja sumir. Ósmekkleg ádeila segja aðrir. Það er eðli ádeilu að sumir skilja hana ekki. Svo eru þeir sem vilja bara pena og smekklega ádeilu en það telst varla öfug stroka í dagsins önn.

Ég átti von á viðbrögðum en kannski ekki þeim að fólki þætti þetta fyndið. Sveinarnir urðu til í samvinnu og eru höfundar margir. Teiknararnir eru enn fleiri.  Enn sem komið er, get ég ekki tekið neinn svein út úr hópnum og sagt hann fyndinn. Samt hef ég ákaflega þróað skopskyn (hrokafullt mat) og skirrist ekki við að henda gaman að ýmsum málum sem upp koma í kringum mig.  Þarna eru sveinar eins og Lagarefur, Hrútskýrir og Beturviti. Er athæfi þeirra fyndið? Giljagaur og Grjótharði? Fyndnir? Ef marka má skrif ónefndra manna undanfarin ár virðast þeir vera til sem þykir svona athæfi hið besta grín og fussa að þeim sem eru á öðru máli. Ef eitthvað þarna er fyndið, vil ég gjarna fá ábendingu þar um. Ef minn aðventusveinn á í hlut, verður hann tekinn inn í leiðréttandi og lausnamiðað ferli.

Þar sem kötturinn er upphaf og endir margs í tilveru minni, má hann eiga síðasta orðið:

Dæsir yfir dagblöðum,
digrum rómi smjattar:
„Hér stendur ekki stafur um
staðalímynd kattar!“

32 athugasemdir við “Ketti strokið öfugt

 1. Ég ætla ekkert að segja um jólasveinavísur því ég er hætt að nenna að taka þátt í deilumálum en hitt vil ég segja að einhvern daginn ættirðu að taka saman kattarvísur þínar og gefa út á bók. Kannski í samvinnu við skemmtilegan ljósmyndara sem tekur myndir af köttum til að fylgja bókinni. Nú eða tekur bara sjálfur myndir af kettinum þínum. En í alvöru, þær eru margar stórkostlegar og nóg er af kattafólkinu sem myndi gleðjast við að sjá þær saman á einum stað.

 2. Ummæli af neti: „Vá hvað það hefði verið gaman ef fólk hefði reagerað á svipaðan hátt þegar Gillz sagði nauðgunarbrandara…“

 3. Burtséð frá því hvort þetta er grín, ádeila, eða eitthvað annað, þá er fórnarlömbum nauðgana varla gerður mikill greiði með því að hafa þetta málefni í flimtingum.

 4. Um Giljagaur:

  „með nauðung tók þær stúlkur
  sem neituðu hans lók
  en náttúrulega var það
  eintómt grín og djók.“

  Einmitt ekki verið að hafa nauðganir í flimtingum…

 5. Mér finnst þetta reyndar dansa á jaðrinum á sömu línu og sjónvarpsauglýsingar Blátt áfram, sem ég er mjög gagnrýninn á. En þetta eru samt teikningar en ekki börn og þetta er ekki sjónvarp heldur vefmiðill femínista og þessi vandlæting er svolítið jólasveinaleg:

  Vandlætir kom næstur,
  vondan hefur sið:
  Hann birtir frétt á Eyjunni
  ef einhver rekur við.

  Þó einkum þegar femíníska
  hann fúla kemst á slóð,
  því ljúflega blæs úr öðrum rössum
  og lyktin er sæt og góð.

 6. Semsagt allt í lagi að yrkja vísur um nauðganir sem spyrða saman jólasveinum og kynferðisofbeldi til ádeilu, því það getur ekki sært neinn?

 7. Fyndið og ekki fyndið… Ég tel það allavega nokkuð ljóst að þeir sem hafa æst sig mest út af þessum vísum séu húmorslausir, þótt þeir hinir sömu hafi kannski hlegið stórkarlalega að nauðgunarbröndurum “sumra”, sem, ef ég man rétt, beindust aðallega að femínistum?

 8. Nú skil ég loksins ádeilur Einars þessa Gillzeneggers á öfgar sumra femínista.

  Sá kann að strjúka kisunum öfugt.

  Takk fyrir góða ábendingu, Gísli Ásgerisson.

  • Hér mætti gera athugasemdir við margt.
   Hver er þessi Einar?
   Hefur hann deilt á öfgar femínista? Hvaða öfgar eru það annars?

 9. Gísli:

  Þú kannski svarar þessu: Finns þér virkilega allt í lagi að yrkja vísur um nauðganir sem spyrða saman jólasveinum og kynferðisofbeldi til ádeilu? Er það ekki líklegt til að særa?

  • Svara með ánægju. Það er með vilja gert að kenna sveinana við aðventu en ekki jól. Þar með er spurningu þinni svarað. Annars er það kannski smáatriði. En í öllum ádeilum finnst mér best að horfa á kjarna málsins. Við getum deilt um birtingarformið og ýmis smáatriði en aðalatriðið er tilgangurinn, þ.e. gagnrýni á viðhorf, hugarfar og þá sem gera lítið úr ofbeldi og misrétti.

   Mér finnst ekki í lagi að spyrða saman svona ádeilu og jólasveina, enda blundar í mér jólabarnið eins og öðrum. Ég held að við höfum forðast það í þessu tilfelli. Það eina jólalega, ef svo má að orði komast, við þessa Aðventusveina er nafnið á þeim fyrsta, sem felur í sér yfirfærða merkingu og tengist því ádeilunni.

 10. Af hverju ertu að tala um launamun? Ég get ekki séð að það komi nauðgunarsveinum þínum neitt við.

  Birtingarformið þar sem jólum/aðventu og nauðgunum er slegið saman er umhugsunarefni, því þú virðist gefa í skyn að allt birtingarform sé leyfilegt ef boðskapurinn er góður. Ef þú ert einhver alheimshandhafi stóra sannleiks um hvað sé góður boðskapur, þá gæti ég kannski samþykkt þessi rök. Þangað til þú getur sannfært mig um það verð ég að segja að mér finnst þessi ádeila smekklaus og gera lítið úr nauðgunum.

 11. Aðventusveinarnir eru 13. Ég vek athygli á sveini dagsins. Það er allt og sumt. Allir sveinarnir eiga að vera ádeila/gagnrýni.
  Ég hef engan stórasannleik höndlað enn þótt leit standi yfir. Í þessum efnum er ekkert fullkomið, ekkert hafið yfir vafa eða gagnrýni. Þú hefur þína skoðun á þessum sveinum. Meðan við getum skipst málefnalega á skoðunum um þetta, þá er það af hinu góða. Góður boðskapur er sá sem reynir að bæta fólk, bæta heim, bæta samfélag og viðhorf. Vondur boðskapur er sá sem fer í hina áttina.

 12. Væri það vondur boðskapur, ádeila eða grín ef hópur manna segði til dæmis á vefsíðu fyrir vini sína að ákveðið fólk væri svo upptekið við að setja bönd kynhegðun annarra að það mætti halda að það sjálft stundaði ekki kynlíf, og því væri þjóðráð að verða þeim úti um smá kynlíf með ungu og spræku fólki?

  Ef það er ádeila, eins og ég myndi halda, væri slík ádeila þá ekki jafnrétthá og jafnviðeigandi og þín ádeila með nauðgunarsveinunum?

 13. Alls ekki. Ég er að spyrja þig sem sérstakan ádeilusérfræðing, því ég get ekki dæmt annað af færslu þinni hér að ofan en að þú hafir gott nef fyrir því hvað sé smekklaust grín og hvað sé þörf ádeila. Mér þætti vænt um svar frá slíkum sérfræðingi.

  • Það er erfitt að taka afstöðu til svona dæmis þar sem ég á erfitt með að sjá ádeiluna í þessu hjá þér. Ég sé bara tilraun til skops og ekki góða. Svona orðræða er eins og froskur. Þegar farið er að kryfja hann, hættir hann fyrr eða síðar að vera froskur.

 14. Þarna svaraðirðu mér, held ég. Þú vilt geta kallað þitt eigið tal „ádeilu“ svo þú getir fjallað um nauðganir og slíkt án þess að fá á þig gagnrýni. Þegar aðrir koma fram með ádeilu með svipað innihald er það léleg tilraun til skops. Þú mátt semsagt nota ádeiluvörnina þegar þú virðist grínast með nauðganir, ekki aðrir.

 15. Ef að svör út úr kú um krossapróf nægja til að „vinna“, þá býst ég við að ég hafi tapað. Ég verð greinilega að bæta mig í að komast hjá því að svara einföldum spurningum.

 16. „Væri það vondur boðskapur, ádeila eða grín ef hópur manna segði til dæmis á vefsíðu fyrir vini sína að ákveðið fólk væri svo upptekið við að setja bönd kynhegðun annarra að það mætti halda að það sjálft stundaði ekki kynlíf, og því væri þjóðráð að verða þeim úti um smá kynlíf með ungu og spræku fólki?
  Ef það er ádeila, eins og ég myndi halda, væri slík ádeila þá ekki jafnrétthá og jafnviðeigandi og þín ádeila með nauðgunarsveinunum?“
  Þar sem ég er í aðventuskapi ætla ég að reyna aftur við spurninguna hans Sigurðar Óla.
  Forsendan er að í þessari fullyrðingu felist ádeila. Það heldur Sigurður Óli. Ég sé ekki ádeiluna, heldur misheppnaða tilraun til gríns. Hvaða bönd eru þetta annars sem á að setja á kynhegðun annarra? (Skýring óskast) Þótt fólk sé mótfallið vændi (hugsanlega á SÓ við það) þýðir það ekki að það stundar ekki sjálft kynlíf. Sama má segja um fólk sem er á móti nauðgunum eins og öðru ofbeldi. Þetta er alls ekki eins einfalt og SÓ fullyrðir. Ef fram koma nánari skýringar, skal ég fúslega svara ítarlega.

 17. Á vefsíðu sinni vann Gísli aftur keppni sína um hvor þeirra Sigurðar hefði síðasta orðið.

  Húrrahh! Húrrahh! Húrrahh! Húrrahh!

  Gísli er meistari í sinni keppnisgrein.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.