Auðveldu áramótaheitin

Um áramót tíðkast að strengja heit og lofa bót og betrun á einhverju sviði. Þessi heit duga oft fram á þorra en þá er úthaldið búið og fólk tekur upp fyrri vellíðan.  Því miður sitja margir uppi með umtalsverð útgjöld og óþarfa kostnað vegna stóryrða í staupagleði. Til þess eru vítin að varast þau og vegna aumingjagæsku minnar legg ég fram þessar ráðleggingar.

1. Ekki kaupa árskort í líkamsrækt. Það er yfirleitt notað í janúar og febrúar, rykfellur síðan á hillu eða í veski en finnst oft í vetrarbyrjun og þá næst tveggja mánaða tryllingslegt átak fyrir jólin. Nýting er 4 mánuðir en greitt er fyrir 12. Eina örugga leiðin til að hreyfa sig meira á nýju ári er að selja bílinn og labba í vinnuna.

2. Ekki fara í megrun. Allir megrunarkúrar, einkum þeir sem snúast um að borða minna, borða sjaldnar, svelta, fara á safakúr, fasta eða dítoxa eru birtingarform lotugræðgi og átröskunar.  Vilji fólk pína sig er skárra að herða korsilettið þar til yfirliði er náð. Þá er ekki jetið á meðan.

3. Sverjið auðveld áramótaheit. Þar er af nógu að taka. Horfa meira á sjónvarp (eykur víðsýni). Stofna Moggablogg(eykur þröngsýni). Vera virkari á fésbók (eykur hjarðhegðun). Kommenta á netmiðlum (eykur tjáningargleði og samskiptafærni). Hringja reglulega í Útvarp Sögu (gerir mann að fávita eða rasista). Hætta að flokka sorp (sparar tíma, þetta fer allt í sömu landfyllinguna hvort sem er).  Fá sér ketti (dregur úr káfþörf). Sofa meira (meinhollt og auðvelt í framkvæmd).  Lesa oftar á klósettinu (bætir hægðir og heilastarfsemi samtímis).

Myndin táknar þann stað sem flest háfleyg áramótaheit lenda að lokum. Verum raunsæ á nýju ári (áramótaheit!)

Auglýsingar

4 athugasemdir við “Auðveldu áramótaheitin

  1. Þetta eru flottustu áramótaheit sem ég hef séð til þessa. Er strax farin að nota eitt þeirra til að auka tjáningargleði og samskiptafærni 🙂

    Svo óska ég ykkur Brandi árs og friðar!

    • Sömuleiðis sendi ég ykkur fröken Jósefínu kveðju og öllu ykkar fólki. Brandur vill koma mali á framfæri hér við öxl mína.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s