Glötuð þýðing í Júróvisjón

Það er jafn auðvelt að hafa skoðanir á Júróvisjón og iðnaðarsalti. Þetta eru einföld og afmörkuð mál sem allir geta sett sig inn í. Óskandi væri að allt í samfélagi okkar væri svona en raunin er önnur. Ég er jafn einfaldur og aðrir, gyrði mig í mína þýðingabrók á hverjum morgni og segi þýðingabrandara í samkvæmum. Þeir eru fimm aura virði.

Þetta er formáli að júróvisjónþýðingarvillubloggi. Orðið er viljandi haft langt til að minna á ónefnda söngtexta í undankeppninni sem eru svo orðmargir að ekkert situr eftir, ekki einu sinni viðlagið, sem er nauðsynlegt fyrir fólk eins og mig sem er á saltstiginu. Við þurfum okkar ræræræ á fjórða glasi í partíinu. En lagið sem hér um ræðir, uppfyllir alla kosti júróvisjónlags. Það er flutt af ungum og glaðbeittum piltum sem kunna að klappa saman lófunum, fá fólk til að standa upp og dilla sér. Lagið heitir Stattu upp og í viðlaginu er sungið mörgum sinnum: Stattu upp fyrir sjálfum þér.

Í eðli sínu er auðvelt að standa upp. Þá losnar sæti og manni er í lófa lagið að setjast strax aftur niður. Sá sem tekur þennan texta bókstaflega á ferð í strætisvagni, getur lent í fádæma hringavitleysu og að lokum ekki vitað hvort hann er að koma eða fara. Margur hefur misst af biðstöð af minna tilefni.

Hér virðist pistlahöfundurinn Gúgul Transleit hafa komist með puttana í handritið. Stattu upp fyrir sjálfum þér er ákaflega bein þýðing á Stand up for yourself. Þetta má staðfesta á heimasíðu Gúguls Transleit, sem hefur eflaust fengið textann á ensku í upphafi og snarað honum á ástkæra ylhýra án umhugsunar.

Unnendur þýðingabrandara hafa ærnar ástæður til að fagna sívaxandi umsvifum Gúguls Transleit á undanförnum árum. Hann hefur oft lagt DV og Vefpressunni lið, snarað játningum fyrir drottningasíðuna og hjálpað afleysingafólki á Mogga og Vísi. Um leið og ég stend upp fyrir sjálfum mér og sæki kaffi í leiðinni, minni ég lesendur á að fylgjast með verkum Gúguls á nýju ári. Hann verður umsvifamikill, ef ég þekki hann rétt.

Auglýsingar

10 athugasemdir við “Glötuð þýðing í Júróvisjón

 1. Ekki þekki ég til textahöfundar þessa tiltekna lags en ég hef tekið eftir því að ungt fólk er í vaxandi mæli farið að hugsa á ensku og þýða svo yfir á íslensku. Þess vegna verður málið bjagað. Ég tók sérstaklega eftir, að unga konan sem aðstoðaði Brynju við kynninguna sagði orðrétt, „Ég er að segja þér“ sem er nákvæm þýðing á „I’m telling you“ og passar ekki inn í íslenska málvenju. Ekki frekar en beinar þýðingar Gúgul transleit

 2. Gúgul Transleit var skráður þýðandi júróvisjónlagsins ,,Er det sant?„ sem Hundur í óskilum og Lúðrasveitin Svanur fluttu á tvennum tónleikum í síðustu viku en Jóhanna Guðrún gerði upphaflega frægt. Sú þýðing þótti mér til fyrirmyndar.

  • Því skal þó haldið til haga að Norðmanni í salnum þótti þýðingin hafa mun meira skemmtanagildi en bókmenntagildi.

 3. Þessir smámunir sem þú tínir til blikna í samanburði við það þegar aðstoðarkynnirinn í bakherberginu ákvað að taka keppendur tali til að heyra „hvernig þeir voru að elska atriðin sín“. Ef Eiður Guðnason hefur verið að hlusta hlýtur hann að hafa farið í hjartastopp. Vel á minnst, hefur einhver heyrt í Eiði eftir helgi … ?

  • Mér fannst líka gaman þegar aðstoðarkynnirinn sagði með breiðu brosi að þarna væri allt að verða vitlaust. Þá ríkti spennuþrungin og vandræðaleg dauðaþögn í herberginu og brakaði í brosvöðvunum.

 4. „Stattu upp fyrir stórveldi“ hefur glumið um Vesturbæinn undanfarin ár svo þetta er ekki ný uppfinning. Söngur sem heyrist um víðan völl með fjölbreyttum textaútfærslum við lagið Go West. Mér finnst ofrausn að bæta þessu blómi á Gúgul Transleit – þetta er þýddur íþróttafrasi og hefur ekkert með góða strætósiði að gera.
  Mér finnst öllu verra að svona eftirhermulag nái inn í úrslit. Þið Eurovisionsérfræðingar hljótið að muna eftir þessu:http://www.youtube.com/watch?v=4acm3gcWhAE

  • Ég get alveg staðið upp til að hylla einhvern og votta virðingu. Strætólíkingin var til að útskýra villuna nánar. Mér finnst þessi dæmi ekki alveg sambærileg.
   Gaman að fá slóðina á franska lagið.

  • To stand up for yourself þýðir alls ekki að standa upp fyrir sér heldur að standa í lappirnar og láta ekki kúga sig þannig að ég tek undir með Gísla, þetta er alls ekki sambærilegt.

 5. Já, mér er kunnugt um þessa merkingu og textahöfundi virðist vera það líka miðað við fyrstu hendingar textans. Það er landlægt, sérstaklega í sambandi við íþróttaumfjöllun, að þýða hugsunarlaust erlenda frasa og nota sem góða og gilda íslensku. „Stíga upp“ er algengt dæmi. Jóhannes #1 segir allt sem segja þarf um þetta. Líklega er kynslóðamunur á því hvort fólki finnst þetta gelt eða gilt. Alltaf gaman að spá í þessu 🙂

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.