Aflitað hár, sílikon og Njálssaga

Í gærkvöldi las ég nokkra kafla í Njálssögu mér til hugarhægðar og staldraði einkum við mannlýsingar.  Þar sem myndum frá þessum tíma er ekki til að dreifa, verður að treysta lýsingum á fólki, atburðum og samtölum til að gera sér skýra mynd af persónum, sem eru nokkuð margar og eru karlar í meirihluta. Vel er lagt í lýsingar á þeim eins og þetta dæmi sýnir:

„Gunnar var mikill maður vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann hjó báðum höndum og skaut ef hann vildi og hann vó svo skjótt með sverði að þrjú þóttu á lofti að sjá. Hann skaut manna best af boga og hæfði allt það er hann skaut til. Hann hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig. Hann var syndur sem selur. Og eigi var sá leikur að nokkur þyrfti við hann að keppa og hefir svo verið sagt að engi væri hans jafningi. Hann var vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fór vel. Manna var hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann var vel auðigur að fé.“

Uppáhaldskonurnar mínar í Njálssögu eru tvær, Hildigunnur Starkaðardóttir og Hallgerður Höskuldsdóttir. Þeirri fyrrnefndu er svo lýst: „Hún var skörungur mikill og kvenna fríðust sýnum. Hún var svo hög að fár konur voru jafn hagar. Hún var allra kvenna grimmust og skaphörðust en drengur góður þar sem vel skyldi vera.“

„Hallgerður var kvenna fríðust sýnum og mikil vexti og því var hún langbrók kölluð. Hún var fagurhár og svo mikið hárið að hún mátti hylja sig með. Hún var örlynd og skaphörð.“

Með orðfæri Njálu í huga yfir morgunblöðunum þolir maður alveg texta á borð við þann sem er hér til skreytingar. Hann er af dægurmálasíðu Vísis og stíllinn er auðþekktur. Blaðamönnum er uppálagt að draga fram aðalatriðin í hverju máli og þótt lýsingin sé merkileg, verður ekki sagt að meðfylgjandi fréttamyndir styðji hana.

Auglýsingar

4 athugasemdir við “Aflitað hár, sílikon og Njálssaga

  1. Fyrir ári síðan birtist í tilefni afmælis gamals kunningja míns mannlýsing af honum í smáauglýsingu í Fréttablaðinu. Allir sem hann þekktu vissu við hvern var átt:

    Lýsing landshornamanns

    Bleikur, manna vörpulegastur. Göngulag fjaðurmagnað og kastar til höfði. Breiðleitur, rjóður í vöngum og kinnbeinamikill, varir þykkar. Granstæði breitt og oft í vanhirðu. Herðasterkur og vöðvaber, þjómikill og spengilegur, þó kringilfættur. Útskeifur. Sögusamur og kenningagjarn um betri menn. Fjölorður um hugðarefni, segist vel frá, rætinn. Drykkjumaður þaulsætinn og góður, ör, slyngur að vaka, skemmtinn og hávær, en yfirgangsamur við lítilþæga ef vill. Sundurgerðarmaður og lostasamur, ötull útilegumaður. Sækir í ritað mál, einnig tónmál. Þó lesblindur án sjónglerja og óhirðusamur um þau sem aðrar eigur. Tónsmiður nokkur ósemjanlegra verka, en afkastalítill. Vandlætingasamur. Fimmtíu og eins árs.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s