Fésbók fortíðar

imageÞessi bók er fésbókarígildi. Hún hefur að geyma hartnær 100 heillaóskaskeyti sem afi minn, Páll Pálsson, óðalsbóndi í Þúfum í Reykjarfjarðarhreppi, fékk á sjötugsafmæli sínu árið 1961. Sveitungar og sjálfstæðismenn nær og fjær, árna honum heilla í tilefni tímamótanna. Þennan dag var gott með kaffinu og við bræðurnir munum vel eftir afmælisdeginum, en systir okkar bræðranna, sem þá var þriggja ára, kveðst ekkert muna, og er það miður, en sýnir raunar minnisþroskamun okkar systkina. Við bræðurnir vorum fjögurra og sex ára þetta haust og munum veður, tíðarfar og heyskap þetta sumar og fleira sem athugul sveitabörn leggja á minnið og þurfa ekkert að hafa fyrir því. Seinni tíma börn þurfa að fara á námskeið í minnistækni. En þetta er útúrdúr.

Hefði afi verið virkur á fésbók, hefði hann sennilega fengið álíka mikið af kveðjum á afmælinu sínu. En fésbókin var ekki til í þá daga og þess vegna er til innbundin símskeytabók.  Svipuð bók er til eftir áttræðisafmæli afa. Hún er öllu þynnri, enda voru þá margir dánir, sem sendu honum kveðju á sjötugsafmælinu. Sigurður Bjarnason, alþingismaður frá Vigur, sem nú er nýlátinn háaldraður, á kveðju í báðum bókunum. Sigurður var kjörinn á þing 1943. Ásgeir forseti sendi afa líka skeyti á sjötugsafmælinu en það er ekki með í bókinni því þeir afi voru ekki sammála í pólitík.

Þegar pabbi hafði afhent mér bókina, ræddum við lengi um svalan haustdag árið 1964 þegar afi datt ofan af sláturhússþakinu og fór úr axlarlið. Hann var að mála þakið og hugðist spara hreppnum nokkrar krónur sem annars hefðu farið í aðkeypta vinnu. Í mörg ár eftir þetta var þakið hálfmálað til minningar um þennan viðburð, því slys voru fátíð í sveitinni í þá daga. Oft þurfti að útskýra útlitið á húsinu fyrir ferðamönnum, einkum útlendingum, en gekk misjafnlega.

Með þessari færslu tengi ég afa minn við nútímann. Honum þætti hann eflaust óttaleg trunta, en hvað veit ég? Ekki hefur afi haft fyrir því að ná sambandi við okkur á miðilsfundum eða með öðrumvið tengingarhætti. Ef svo ólíklega vill til að afi hafi tíma til að leita eftir slíku sambandi, vona ég að hann segi okkur eitthvað merkilegra en um tiltekt í skápum og þess háttar, sem framliðnum er hugað um. En þetta er útúrdúr.

Afi á fésbók? Maður spyr sig.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s