Fésbókarboð og bönn

Fésbókarveldið hefur fleiri boð og bönn en Jósef heitinn og því flýja sumir eins og Trotský gerði forðum en þó ekki til Mexíkó, því þar eru íspinnar á hverju strái. Að öllu gamni slepptu þá er fólki refsað í ríki Zuckerbergs með ýmsum hætti. Sumir eru ofvirkir í vinasöfnun og lækum og á þá er lokað í ákveðinn tíma við grát og gnístran tanna og er þá stutt í eineltistal og grun um kærur frá ótilgreindum óvinum.  Önnur brot skipta minna máli, svo sem hatursáróður og almennt níð og þótt hundruð manna tilkynni einhverja síðu sem þeim er ekki að skapi, hefur það lítil áhrif. Annað gengur miklu betur að kæra eins og dæmin sanna.

Skjáskotið hér til hliðar er úr reglugerð fésbókarinnar. Þar eru tilgreindar ástæður fyrir aðgangslokun og eru margar eðlilegar.  Bannað atferli varðar fjörbaugsgarði eftir ítrekuð brot. Ekki má áreita aðra, vera undir fölsku nafni, ekki villa á sér heimildir en um síðastnefndu atriðin eru hundruð dæma sem hafa engan eftirmála. En síðasti liðurinn er einkar merkilegur.Ekki má birta efni sem inniheldur klám, ofbeldi og almennan viðbjóð. Þar að auki „fjarlægir FB efni, myndir eða ritað mál sem hótar, ógnar, áreitir eða vekur óumbeðna eða neyðarlega athygli á einstaklingi eða hóp fólks„.

Eins og hér kemur fram, hefur Hildur Lilliendahl fengið sjö daga útilokun frá FB, þar sem ástæðan virðist vera sú ein að hafa birt skjáskot af  orðum manns á opinberum vettvangi, sem honum finnst sjálfsagt að veki óumbeðna athygli á sér. Hann kvartar og kvörtun er tekin til greina. Eftir standa ummæli hans á sínum stað, þar sem þau voru rituð.

Af þessu má álykta: Það er í góðu lagi að birta gróf og niðrandi ummæli um einstaklinga eða hópa á fésbókarvegg sínum í tengslum við opinbera umræðu í samfélaginu. Við þetta hamast margir á vettvangi DV.is og spara ekki fúkyrðin.  Þeir hafa tjáningarfrelsi og nota sér það óspart, eru eflaust stoltir og ánægðir með orðheppni sína og þátttöku í þjóðmálaumræðu.

Núna virðist ljóst hvað kostar að hafa slík ummæli eftir og vekja „óumbeðna athygli“ á þeim.

9 athugasemdir við “Fésbókarboð og bönn

 1. Ef ég birti þessa mynd á fésbókarvegg mínum, fengi ég án efa bágt fyrir. En tilvitnun í síðu sem er vistuð utan fésbókar, kemur FB ekkert við.

 2. Þetta er fráleitt og ljóður á ráði Fb. Idjótískt að loka á Hildi á þessum forsendum; fyrir í raun það eitt að hafa eitthvað eftir fólki. (Þó samhengið hljóti nú reyndar að skipta máli.)

  En, ég rak einhvers staðar augun í ummæli þeirra sem tóku upp þykkjuna fyrir Hildi og höfðu einmitt þetta sem einhvers konar viðmið: Að Hildi væri hent út en ekki væri búið að loka einhverjum síðum (væntanlega þessari moskusíðu þarna sem stuðar rétttrúnaðarlýðinn) – sem það hefði þó heldur betur lagt sig fram um að yrði gert.

  Afsakið, meðan ég… Svona lið er náttúrlega ekki marktækt frekar heldur en ég veit ekki hvað og ætti að renna fyrir þverrifuna á sér. Að vera að kvabba undan þessu Fb-Hildarmáli, réttilega, en tala í senn um að það hafi nú heldur betur lagt sitt af mörkum til skoðanakúgunar… Beinlínis átakanlegt hversu fólk getur verið illilega ósamkvæmt sjálfu sér.

  Eigum við ekki að draga fram Evelyn Beatrice Hall, sem skrifaði undir dulnefninu Stephen G. Tallentyre; The Friends of Voltaire: „I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it.“

  • Vissulega hefur þetta mál sýnt hvað reglur FB eru sérkennilegar og hvað í raun er auðvelt að láta loka á einstaklinga þar. Úttekt á þeim er sérkapituli og auðvitað lendir fólk í að bera saman ólíka hluti. Hatursáróður og hatursáróður er ekki einsleitur. Það sem ýtir við fólki eru áhrif svona síðna á áhrifagjarnt fólk með lítt mótaðar skoðanir. Lendum við ekki oft í uppeldishlutverkinu þótt börnin séu flutt að heiman?

 3. Annars náttúrlega er Fb einkafyrirtæki og þeir haga sínum málum náttúrlega bara eins og þeim sýnist og í raun kjánaskapur að vera að veina undan því; snilldin við dæmið sé náttúrlega þetta að notendurnir skapi kontentið en hafa afskaplega lítið yfir því að segja.

  En, eitt kom fram í athugasemdarkerfi umræddrar Hildar á sínum tíma sem mér finnst menn einhvern veginn ekki hafa veitt verðskuldaða athygli. Þetta var í kjölfar þess að Hildur sakaði mig um að vera pottinn og pönnuna í því að henni var hent út þarna fyrst þegar það gerðist. Þá kom einhver Davíð þar inn, sem virðist vita talsvert í sinn haus og skrifaði eftirfarandi:

  „Davíð
  29/02/2012 at 12:38 pm
  Sæl Hildur.

  Mér blöskrar þessi aðferð þín til þess að brjóta niður einstaklinga og bendla þá við kvenhatur.

  Ég skil þinn málstað mjög vel. En þetta er einfaldlega ekki rétta leiðin til þess að koma honum á framfæri.

  Ég er sá sem tilkynnti myndina til Facebook. Ég valdi eina mynd, handahófskennt, tilkynnti hana, og innan við 24 tímum seinna var beitt viðurlögum.

  Með þessu vildi ég sýna fram á það hversu auðvelt það væri að fá þig rekna af samskiptavefnum fyrir að brjóta í bága við persónuverndarstefnu vefsins og bandarísk, sem og íslensk lög. Þessvegna vil því biðja þig um að loka þessu albúmi áður en þér verður hent út fyrir fullt og allt.“

  Og svo fylgdi hann þessum orðum sínum eftir með frekari útskýringum:


  „Davíð
  29/02/2012 at 3:18 pm
  Sæl Birgitta.

  Þú vilt kannski ekkert með bandarísku lögin hafa, en byrjum samt á þeim, ákveð bara að linka inn á eftirfarandi lagabálk (Restatement of the Law, Second, Torts, � 652):

  http://cyber.law.harvard.edu/privacy/Privacy_R2d_Torts_Sections.htm

  Þarna brýtur hún bæði gegn 652B og 652D

  Hvað varðar persónuverndarstefnu Facebook, þá mæli ég með að allir þeir sem nota vefinn lesi hana svo að þeir séu aðeins betur að sér um hvað má og ekki. Hér er hún: http://www.facebook.com/legal/terms?ref=pf

  Hildur gerist sek um að brjóta gegn gr. 2. Sharing Your Content and Information, gr. 3.6, gr. 3.12, gr. 5.1 o.fl.

  Hvað varðar íslensk lög þá gerist Hildur líklegast sek um að brjóta einhverjar greinar Almennra hegningarlaga, þmt. XXV. kafli. Ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. o.fl.

  Kveðja.“

  Svo mörg voru nú þau orð. Ekki að mér hugnist skilaboðin en, menn ættu kannski að velta þessari stöðu og staðreyndum aðeins fyrir sér?

 4. „Þrá er sauðkindin en hvað er það á móts við kvenkindina.“

  Nota bene, ég er ekki að segja að Bjartur hafi einhver algild sannindi fram að færa nema síður sé, en hvers vegna dettur mér þetta í hug nema ég hugsa að ef það væri snefill af sjálfsgagnrýni í bönkernum, ef það væri einhvern tíma hægt að brjóta odd af oflæti sínu, ef það væri einhvern tíma hægt að taka mark á ábendingum, ef það væri aðeins hægt að slaka með þetta hópefli, ef það væri hægt að sleppa því að slá eilíflega skjaldborg um hvaða vitleysu sem er, ef þetta væri ekki keyrt oftar en góðu hófi gegnir á særðu stolti, ef þetta væru ekki púra hagsmunir… hugsa ég að þeim sem virkilega láta sér annt um jafnréttismál yrði betur ágengt.

  Það hefur komið fram marktæk og rökstudd gagnrýni á framsetningu þessa albúms Hildar, sem ekki hefur verið svarað nema með hártogunum og útúrsnúningum. Miklu nær væri, að biðjast bara afsökunar á þeim þáttum málsins og loka þessu albúmi, fremur en að gefa þessum orðum Bjarts byr undir báða vængi. Tilgangurinn getur ekki helgað meðalið.

  • Fyrst við erum komnir enn og aftur að albúminu, vil ég segja þetta: Í því kennir margra grasa og ef ætti að raða skjáskotunum eftir einhverjum kvarða myndu þín ummæli lenda frekar neðarlega. En í þessari umræðu hefur verið einblínt á titilinn, Karlar sem hata konur, og bókmenntalega tilvísun hans, því mörgum sárnar að vera settir í þennan flokk. En skoðum aðeins forsöguna:
   Hver sem er hefði getað safnað þessum ummælum af netinu. Ég hefði getað tínt til nokkur í hverri viku, jafnvel birt á bloggi og fjasað eitthvað í kringum þau og fólk hefði yppt öxlum, hrist höfuðið og flett áfram. Þessi umræða hefur verið til staðar síðan netmiðlar buðu upp á athugasemdir við fréttir og greinar. Við vorum orðin samdauna henni og töldum þetta óhjákvæmilegan fylgifisk óhefts tjáningarfrelsis, sem þyrfti að umbera. Á sama tíma fullyrtu margir að þessi hatursumræða væri ekki til. Ég fullyrði að ef albúmið hefði heitið eitthvað annað, hefðu viðbrögðin ekki orðið jafn mikil. Til að vekja athygli á meini þarf stundum að stinga djúpt til að hleypa vessunum út.
   Nú skil ég mætavel þitt viðhorf, Jakob. Miðað við annað í safninu ert þú eins og kórdrengur við kirkjudyr. Ég trúi því ekki að þú hatir konur, enda kominn af konu eins og við öll. Reyndar gafstu þínum hlut í þessu óþarflega mikið vægi með því að hætta á FB og tjá þig um það í fjölmiðlum (sem er auðvitað réttur þinn).
   Ég sé ekki betur en þú sért ekki lengur í albúminu margumrædda, skv. tumblr.com síðunni. Ég fletti því þar og sá ekkert sem þar verðskuldar ekki sess.

 5. Já, sem sagt í þúsundasta sinn… ég fór ekkert af Fb af því að mér sárnaði að vera á þessum heimskulega lista eða vegna þess að ég sé sensetívur gagnvart því sem einhverjir öfgafemmar segja um mig eða að ég óttaðist það svona ægilega að af því að ég er á einhverjum lista hjá Hildi Lill að fólk fari að standa í þeirri meiningu að ég sé einhver ægilegur kvenhatari; ég fór af því að þetta tók einhvern veginn steininn úr með að það sé fræðilegur möguleiki á því að það sé tekinn nótis af því sem maður er að segja: Ýmist er ekki hlustað, harðneitað að hlusta, snúið út úr einföldustu atriðum og helst á haus. Endurtaka eitthvað nógu oft í þeirri von að það verði staðreynd.

  „Ég fullyrði að ef albúmið hefði heitið eitthvað annað, hefðu viðbrögðin ekki orðið jafn mikil.“

  M.ö.o. tilgangurinn helgar meðalið. Þess vegna er þessi listi heimskulegur. Einn af þeim helstu punktum sem varða mína gagnrýni á þessa sellu er einmitt sá að tilgangurinn helgi EKKI meðalið. Þannig getur það aldrei orðið. Þetta er grundvallaratriði sem flestir hugsandi menn ættu að geta áttað sig á. Eða bara allt síðan Friedrich Nietzsche skrifaði á sínum tíma í sinni sveit:

  “Beware that, when fighting monsters, you yourself do not become a monster… for when you gaze long into the abyss. The abyss gazes also into you.”

  Þetta er fúndemental atriði, augljóst einkenni á þeim femínistum sem helst hafa sig í frammi nú um stundir og réttlæta algjörlega það að skeyta orðinu „öfga“ fyrir framan það sem sellan vill kalla sig, meðal annars.

  Þá er ég algjörlega sannfærður um að öfgafemínistar eru að vinna eðlilegri jafnréttisbaráttu skelfilegt ógagn með þvergirðingshætti sínum — alger skortur á því að vilja hlusta á gagnrýni er til marks um að það sem drífur þennan fyrirferðarmikla og háværa hóp er sært stolt og/eða hreinir og klárir hagsmunir.

Færðu inn athugasemd við Jakob Hætta við svar

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.