Jákórinn

„Um héraðsbrest ei getur þótt hrökkvi sprek í tvennt.“ (GF)

Það þótti tíðindum sæta fyrir skömmu þegar tveir nafnkunnir Fésbókarnotendur ákváðu að hætta. Ekki saman, því þeir eru ótengdir, að því ég veit best.  Þeir ákváðu að hætta á þessu félagsneti sem er upphaf og endir alls í hugum margra og þetta gripu fréttaþyrstir miðlar á lofti og gerðu mikið úr.  Báðum þótti miður að fá ekki nógu mikinn hljómgrunn fyrir skoðanir sínar, ekki nógu afgerandi undirtektir og skilning og sveið að þurfa að sitja undir „miskunnarlausri“ gagnrýni og útúrsnúningum.  Þetta eru Jakob Bjarnar Grétarsson, vinur minn og fv. samkennari í Öldutúninu og Þráinn Bertelsson, flokksbróðir minn í VG sem fengu þessa SéðogHeyrt-meðferð og gátu báðir vel við unað. (VIÐBÓT: Jakob unir því ekki að vera spyrtur við ÞB og ég er honum sammála) Þeirra var sárt saknað og vinir Jakobs kalla hann hrópandann í eyðimörkinni í samnefndum fésbókarhópi, færa okkur fréttir af líðan hans, líkt og Vegagerðin segir okkur af færð á vegum, og vilja fá hann aftur. Þráinn lét sér hins vegar nægja stutt tjáningarfrí en mætti tvíefldur aftur fyrir skömmu.

Ég blanda mér sjaldan í umræðuhala á fésbókinni því ég er hógvær og feiminn piltur úr sveit en gerði það þó síðdegis í gær þegar hinn orðvari og prúði Þráinn Bertelsson sagði þetta í tengslum við frétt um viðtalið við Vigdísi Finnbogadóttur í Monitor: „Ekki alveg orðlausir þó, því að nú er geggjaðasta öfgaliðið farið að níða Vigdísi. Öfgar virða engin mörk.“ Ég spurði kurteislega (held ég) hvar þetta öfgalið hefði tjáð sig og hvað það hefði sagt, því þá hafði mér vitanlega enginn tjáð sig efnislega um viðtalið, og hvort Þráinn gæti bent á dæmi um þetta meinta níð. Hann svaraði engu um það, en mér sýndist fleiri inna eftir því sama. Hugsanlega hef ég strokið þingmanninum andhæris með fyrirspurninni því þessi tilkynning blasti við mér eftir síðdegiskaffið.

You are no longer friends with:

Þráinn Bertelsson 10 minutes ago

Það er gaman að eiga sér jákór, sem tekur undir allt sem út úr manni hrekkur, sama hvað það er fáránlegt, rakalaust, fordómafullt og heimskulegt. Sumir fésbæklingar vilja bara prédika fyrir kórinn sinn og fleygja öðrum út í ystu myrkur. Vegna fyrrnefndrar kurteisi minnar ætla ég þingmanninum ekkert af þessu. Hann þarf sjálfsagt svigrúm til að leita að rökum fyrir máli sínu. Best að trufla hann ekki við þá iðju. Hún gæti tekið langan tíma.

6 athugasemdir við “Jákórinn

 1. Já, þú ert ágætur!

  Ekki ætla ég að svara fyrir Þráinn, svo mikið er víst og það þarf sennilega ekki að leita lengi í þeim ranni til að greina þversagnir — hlýtur að vera erfitt að lifa við það að vilja gagnrýna harkalega sjálfur en vera svo ofursensetívur fyrir mótrökum. Ég held að það sé ekki sanngjarnt að setja mig á þann bás með Þráni — ég neita að sitja undir þessu, herra Gísli: „Báðum þótti miður að fá ekki nógu mikinn hljómgrunn fyrir skoðanir sínar, ekki nógu afgerandi undirtektir og skilning og sveið að þurfa að sitja undir “miskunnarlausri” gagnrýni og útúrsnúningum.“

  Ein ástæðan (af mörgum) fyrir því að ég dró mig í hlé var sannarlega ekki þessi þó skyld sé; ég var bara orðinn leiður á að segja tveir plús tveir eru fjórir og þurfa að útskýra það eins og rispuð grammófónplata trekk í trekk. Þetta var svolítið eins og að stíga í drullu og horfa á fótsporið hverfa um leið og stigið var upp úr farinu aftur. Því alltaf komu þeir aftur tvíefldir sem vildu skiptast á skoðunum við mig um þessi efni. Bara um leið og rauði bossinn þeirra var farinn að jafna sig eilítið. Einhvers konar masókismi. Ég var orðinn leiður á sjálfum mér með það.

  Og það segi ég satt; ég hélt þú værir að lýsa sjálfum þér og bönkersellunni þinni með þessum orðum: „Það er gaman að eiga sér jákór, sem tekur undir allt sem út úr manni hrekkur, sama hvað það er fáránlegt, rakalaust, fordómafullt og heimskulegt. Sumir fésbæklingar vilja bara prédika fyrir kórinn sinn og fleygja öðrum út í ystu myrkur.“ Ég þurfti að lesa þetta þrisvar til að leita eftir samhenginu, því þessi játning, sem reyndist svo engin hreinskiptin sjálfsskoðun, kom mér svo ánægjulega á óvart.

  Annars bestu kveðjur,
  Jakob

 2. Eins og þú sérð, Jakob minn, er þessum pistli fyrst og fremst beint að ÞB, en þú tengist þessu vegna þess að þú hættir á FB og ég skal fúslega afspyrða ykkur ef þér þykir það betur. Framhaldið að því loknu á ekki við þig því þú útilokaðir enga vini, varst ekki í leit að jákór, enda alltaf hægt að ræða við þig málefnalega. Ég vona að ég verði aldrei í leit að jákór því hann er frekar leiðinlegt fyrirbæri, og meðan ég er þokkalega ósammála ýmsum í bönkersellunni ; ), syng ég áfram mína rödd þegar svo býður.

 3. Jájá, bara svona svo það sé alveg á hreinu, þá hef ég aldrei nokkurn tíma hent einum einasta manni út af vinalista mínum (reyndar samþykkt alla sem eftir því hafa leitað) né blokkerað — mér finnst það alveg frámunalega bjánalegt; hláleg vitleysa í raun því auðvitað er Fb opinber vettvangur. En ekki hvað?

  • Þess má líka geta að ég las greinina eftir þig um FB sem fjölmiðil í einhverju auglýsingastofublaði? og fannst hún góð. Ertu annars ekkert á heimleið á víðlendi fésbókar?

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.