Farið í hundana

Þessa mynd sá ég á netinu í gær og fannst hún sérkennileg. Nú er góðra gjalda vert að vilja benda fólki á hvernig best sé að umgangast hunda en ég svaraði meðfylgjandi spurningu þannig: „Ég heilsa ekki hundum.“ Það sparar mér tíma og fyrirhöfn að kynna mér allt sem ber að varast í samskiptum við hunda. Hundar eru bestir í bandi, einkum svonefndir malbikshundar, sem eru misgeggjaðir eftir kexruglað uppeldi mannanna. Eigendur hunda skiptast líka í tvo flokka.

Hundaeigendur aga hundinn eins og smábarn, kenna honum að gegna, sitja og þegja. Hundurinn er hafður í bandi nema heima hjá sér og á afmörkuðum svæðum. Hundurinn veit að eigandinn ræður og hlýðir honum. Það þarf ekki skrautlegt veggspjald til að kenna fólki á slíkan hund.

Hundafólk er haldið þeirri grillu að hundurinn þurfi ekki að vera í ól eða taumi nema þegar því þóknast. Hundurinn á helst að fá að hlaupa frjáls og óheftur „því það er í eðli hans“. Þessa rassvasaspeki og fleiri hefur hundafólkið á takteinum og bregst ókvæða við öllum aðfinnslum og gagnrýni. Hundafólki þykir ekkert tiltökumál þótt hundurinn elti fólk uppi, flaðri, urri eða gelti og gætir þess vandlega að ávarpa ekki saltvondan skokkara sem reynir árangurslaust að bægja froðufellandi kvikindinu frá sér.

Hundafólkið er hrifnæmt og áhrifagjarnt. Það mætir fúslega í kertavöku á Geirsnefi eftir meint morð Lúkasar, faðmast og kyssist og vottar hluttekningu í allar áttir. Á Geirsnefi er hundunum síðan sleppt lausum og þótt þeir stóru drepi einn og einn smáhund, er það yfirleitt smáhundinum að kenna sem tróð sér með harðfylgi milli tanngarða þess stóra. Sami rökstuðningur er notaður þegar kettir liggja óvígir eftir meðferð hundanna og eigendur mæta társtokknir í sjónvarpið til að bera blak af besta vini sínum.

Í hverfinu mínu býr hundafólk. Á Völlunum búa nokkrir hundaeigendur. Ég er ánægður með fordómaleysi mitt og æðruleysi í garð beggja hópanna.

Eitt að lokum: Hundurinn á myndinni er ekki með ól og taumur hvergi sjáanlegur. Í hvorum hópnum skyldi hann lenda?

Auglýsingar

6 athugasemdir við “Farið í hundana

  1. Er ekki vissast að heilsa hundum með því að þefa af afturenda þeirra og bjóða upp á slíkt hið sama?

  2. Mér finnst þú draga full margar ályktar af þessu spjaldi Gísli… Mínir hundar eru aldrei lausir þar sem það er bannað, og þeir eru líka aldrei með ólar innanhúss eða á girtu landi mínu. Þeim er heilsað ólarlausum á þeim svæðum. Þessar reglur gilda einnig um hunda í ól og taum, það er nefnilega alveg hreint út sagt ótrúlegt hvað börn og jafnvel fullorðið fólk er fljótt að vaða í hundinn manns án þess einu sinni að spyrja, jafnvel þótt maður standi þarna og haldi kyrfilega í hinn endann á taumnum. Og svo þegar maður stoppar fólkið af og segir að því að það sé lágmark að tala við eigandann fyrst, þá fær maður iðulega spurninguna: „Nú? Bítur hann?“

    • En, vil bæta við hér að Gísli fer alveg nákvæmlega rétt að, hann heilsar ekki hundum, þ.e. hagar sér eins og manneskjan þarna efst til vinstri á spjaldinu. Nú grunar mig að Gísli eigi kött, ég vænti þess að hann hafi kennt börnum sínum og jafnvel barnabörnum hver þolmörk kattarins eru, er ekki sjálfsagt að kynna fólki að hundar hafa ákveðin þolmörk líka sem ber að virða? Með ól eða án, í taumi eður ei…

      En, ég veit líka að það er með öllu ólíðandi að hjólreiðafólk og skokkarar þurfi að kljást við glefsandi hunda sem hlaupa þá uppi, og fá svo jafnvel einhvern skæting í ofanálag frá eiganda hundsins. Við gjöldum öll fyrir svoleiðis ábyrgðarleysi, ekki síst ábyrgir hundaeigendur.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s