Ungmennafélagshúsið í Vatnsfirði

Þessi frétt um sölu samkomuhússins í Vatnsfirði vakti athygli mína í gær. Þetta hús reistu ungmennafélagar í Vísi í Reykjarfjarðarhreppi árið 1925 og á mínum bernskuárum nýttist það til margra hluta. Ég man eftir fjörlegu þorrablóti þar sem harmonikuleikarinn kunni þrjú lög og brot úr því fjórða. Þar var erfidrykkja Bjargar ömmu minnar haustið 1966. Þar gistu sláturhússmenn á haustin og sumarið 1971 (minnir mig) vorum við nokkrir félagar sendir þangað að plokka timbur utan af viðbyggingu við húsið og naglhreinsa. Þetta gerðum við af ungmennafélagshugsjón okkar og sjálfur var ég ritari stjórnar félagsins í nokkur ár. Snemma beygist krókurinn.

Við sama tækifæri hirtum við hey af Vatnsfjarðartúninu meðan klerkur horfði á og dæsti. Fyrir það fengum við kaup en það er önnur og flóknari saga. Á næstu árum var ekkert hugað að húsinu þótt heimamenn í Vatnsfirði hefðu vel getað litið til með því, enda ekki margt við að vera í iðjuleysinu.  Með markvissu hirðuleysi hefur tekist að láta húsið grotna niður.

Síðast kom ég í Vatnsfjörð fyrir nokkrum árum og sá hvað húsið var illa farið. Ófáar milljónir þarf til að gera það íbúðarhæft og í sjálfu sér er gott að einhverjir skuli vilja leggja í þennan kostnað. Ég er nokkuð viss um að hefði ég (og aðrir ungmennafélagar) vitað af óauglýstri sölu, hefði verið sest á rökstóla og málið skoðað. Taugar mínar til Djúpsins eru nógu sterkar til þess. Enda hef ég litið svo á alla tíð að ég ætti minn bút í húsinu eins og aðrir núverandi og fyrrverandi íbúar og ungmennafélagar í hreppnum.

Í fréttinni kemur hins vegar í ljós að Guðbrandur Baldursson Vilhelmssonar kveðst hafa eignast húsið 1987, þá nítján ára gamall. Hvernig hann eignaðist það er mér hulin ráðgáta, enda rekur mig ekki minni til almenns fundar í ungmennafélaginu Vísi þar sem ákveðið er að selja/gefa húsið.  Þó er það víst vaninn þegar fasteignum félaga er ráðstafað. Ég veit heldur ekki hver hafði umboð til að gefa 19 ára prestssyninum heilt samkomuhús en þar sem faðir hans var formaður ungmennafélagsins meðan ég átti heima fyrir vestan, hef ég mínar kenningar um þennan gerning. Hafi Guðbrandur greitt fyrir húsið, nutu ungmennafélagar ekki góðs af því. Guðbrandur segir í fréttinni að verðið hafi verið „yfirstíganlegt“ en það getur verið allt frá einni krónu til einnar milljónar.

Vatnsfjörður er kirkjujörð og skömmu eftir aldamót stóð til að selja hana eins og fleiri slíkar. Þá stóð til hjá hópi afkomenda sr. Páls Ólafssonar, langafa míns, sem var prestur í Vatnsfirði  (1900-1928), að gera tilboð í jörðina og eiga þar athvarf á sumrum. Úr því varð ekki þar sem hætt var við söluna. Séra Baldur, sem er sjálfsagt enn formaður ungmennafélagsins Vísis, er kominn á níræðisaldur og býr enn í prestshúsinu. Að honum gengnum íhugar Kirkjuráð vonandi að koma jörðinni í verð.

Ég fann enga mynd af samkomuhúsinu í Vatnsfirði en skammt fyrir neðan það er þessi fallegi hjallur, sem er um 40 árum eldri. Hann er í betra ásigkomulagi en samkomuhúsið.

7 athugasemdir við “Ungmennafélagshúsið í Vatnsfirði

  1. Sæll gamli granni. Ég verð að taka það fram að það var ég sem var síðasti formaður UMF Vísis. ég minnist þess að Guðbrandur kom til mín og bað mig að gefa sér leyfi til að nýta húsið. Ég sagði honum að ég hefði ekkert umboð til þess, en hvatti hann hiklaust til að dytta að því og nýta það, enda eins og þú sjálfur segir. Húsið ört grotnandi. Á sínum tíma (mig skortir gögn varðandi nákæman tíma) boðaði ég til fundar, þess er síðastur var haldinn í félaginu og mættu þar aðeins örfáir eldri félagar og þar sem ég var að flytja úr sveitinni sagði ég af mér formannsstöðunni og enginn vildi taka við. Það var mál manna að félagið væri liðið undir lok amk að sinni. Við vitum bæði hvernig fór um búsetu í okkar kæru sveit. Málefni hússins voru ekki sérstaklega rædd á þessum fundi að mig minnir. Ég hvorki gaf né seldi, Guðbrandi vini mínum, húsið. Enda hafði ég ekki til þess neitt umboð. Um framvindu málsins veit ég síðan minna en ekkert, nema hvað að ég sé að þær stöllur Bryndís og Ólöf er þinglýstir eigendur þess og sennilega þeir fyrstu. Vertu svo ævinlega marg blessaður. Kv. Þóra í Miðhúsum.

  2. Sæl, kæra grannkona og takk fyrir þessar upplýsingar. Mér gengur það eitt til með þessum pistli að fá svör við óljósum atriðum í fréttum um þetta mál og hef reyndar séð haft eftir GB að Umf og hreppurinn hafi í sameiningu selt honum húsið. Mér finnst gott til þess að vita að það er komið í hendur eigenda sem vilja dytta að því og viðhalda.

  3. Sæll aftur. Ég er reyndar búin að grafa upp afsal frá þessum aðilum til GB svo það stemmir. fh UMF Vísis skrifar fyrrverandi form (eins og þig grunaði) og fh, hreppsins Sigmundur Sigmundsson, vottar eru Hákon og Geir.(báðir í UMF Vísi og sennilega báðir í hreppsnefnd) Eins og þú kannski mannst átti hreppurinn 20% í húsinu. Nú vona ég bara að þær stöllur geri húsið ásjálegt, Það verður skemmtilegra útsýnið úr norðurglugganum í Miðhúsum:) Kv. Þóra.

    • Þetta er allt að skýrast eins og mig grunaði að endirinn yrði. Þakka þér fyrir að finna afsalið. Kemur einhvers staðar fram hvað GB greiddi fyrir húsið? Kannski ekki aðalatriðið. Það verður gaman að sjá hvað nýir eigendur gera.

      • Neibb engin upphæð er nefnd, en skjalið samdi Tryggvi Guðmundsson hdl. og þar er þessi hefðbundna setning. „umsamið kaupverð er að fullu greitt“ og svona aðeins í viðbót. Mig minnir að B.Vil hafi verið síðasti gjaldkeri hins andvana félags þess vegna hefur hann sennilega verið notaður til að skrifa undir. Eins og aðstæður voru á þeim tíma er auðvelt að skilja málið. Bestu kveðjur, Þóra

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.