Veturseta

Það kann að skjóta skökku við að skrifa um vetursetu á hásumri en eftir tíðindin um eigendaskipti kastalans á Arngerðareyri (sjá síðustu færslu) kom í ljós að margir höfðu verið í svipuðum hugleiðingum en ekki látið af verða. Hugmyndin er góð meðan ekið er fram hjá húsinu og vangaveltur um hana endast inn í botn Ísafjarðar. Ég sá líka í frétt að nýr eigandi gælir við að flytja þangað til heilsársbúsetu, ef marka má viðtal við hann: „Það fer eftir því hvað krakkarnir okkar segja. Vonandi getum við einhvern tímann sest að hérna.“

Þetta er rómantísk sumarhugmynd og falleg sem slík. Vonandi verða börnin fulltíða þegar að þessu kemur því annars þurfa þau að flytja að heiman til að stunda nám og þá hitta foreldrarnir þau bara í fríum. Góð heilsa er nauðsynleg því aka þarf langan veg til fundar við lækni á Hólmavík eða Ísafirði. Sama gildir um matarinnkaup og öll aðföng til heimilisins, því Djúpbáturinn siglir ekki tvisvar í viku eins og í gamla daga, færandi varninginn heim úr Kaupfélaginu.  Það þarf útsjónarsemi og skipulag fyrir vetursetu á afskekktum stöðum. Þeir sem búa í Djúpinu þurfa að kunna vel við einveruna.

„Eins við brugðum okkur þá, oft á milli bæja.“ Í fásinni sveitalífsins er gaman að hitta fólk, eins og Þorsteinn Erlingsson yrkir í kvæði sínu. Kastalabúar gætu á jeppa sínum (vetrarfærðin er ekki fyrir drossíur) böðlast til Hólmavíkur því heiðin er rudd en oft skefur í förin. Nágrannar þeirra á Snæfjallaströnd eru engir og aka þarf í aðra hreppa í Djúpi til að heilsa upp á fólk. Slíkt ferðalag getur tekið lungann úr deginum en það fer eftir færð.

Ég vona að þessi upptalning dragi ekki upp neikvæða mynd af búsetu á æskuslóðum mínum. Í minningunni var aldrei leiðinlegt í sveitinni, alltaf nóg við að vera, kannski vegna þess að við þekktum ekki annað og þótt sjónvarpið hafi ekki komið fyrr en 1968, um svipað leyti og kviknaði á fyrstu ljósaperunni á heimilinu, fannst okkur við ekki hafa misst af neinu. Þetta líf mótaði mig og fleiri og ég er nokkuð sáttur við útkomuna.

Auglýsingar

4 athugasemdir við “Veturseta

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.