Vöruskiptajöfnuðurinn

Eins og ráða má af pistlum hér undanfarið, erum við Sædýrasafnsbúar í Dublin, þar sem við fengum hús og bíl í skiptum fyrir okkar heima.  Þetta er frumraun okkar í slíkum viðskiptum og við erum harla ánægð með útkomuna. Við búum núna í úthverfinu Goatstown, gerum þaðan út í ferðir um sveitir landsins, förum í búðir í nágrenninu en öðru hverju er farið í miðbæinn til að hafa áhrif á vöruskiptajöfnuð. Við  gætum auðvitað ræst rennireiðina og ekið niður Laugavegina hér í bæ en þeir eru margir og gera allir ráð fyrir gangandi vegfarendum. Bílastæði kosta 1 evru á klukkutímann og eru umsetin á annatímum. Þess vegna förum við með lestinni (LUAS) í bæinn. Miði fram og til baka kostar 4,50 evrur.  Strætó kostar 4.30 en gengur ekki eins ört.

Þar sem Laugavegskaupmenn heima kvarta sáran undan viðskiptahruni ef kúnnarnir geta ekki lagt við dyrnar hjá þeim, held ég að dýflinskir Sillar og Valdar ættu að taka þá í smá kennslustund og hjálpa þeim að ná bjálkanum úr gróðaauganu. Það er hægt að reka verslun við göngugötu.  Líka á Íslandi. Vöruverð er annars svipað og heima, enda fer enginn í innkaupaferð til Dublin eins og á síðustu öld.

Hér þarf að borga fyrir allt. Allt sem þykir einhvers virði að skoða, fornminjar, fyrirbæri, merkir staðir og þess háttar, er metið til fjár en á móti aðgangseyri kemur þjónusta og upplýsingar. Ég þykist vita að margir landar mínir vilji ekki taka upp þessa viðskiptahætti en hjá þessu verður ekki komist. Sá sem borgar, getur gert kröfur á móti. Þetta er ekki flókið. Jafnvel klósettafnot kosta 0.20 evrur. Meira að segja bensínið er á sama verði, sem er umhugsunarvert fyrir vælara og tuðara heima á Fróni.

Það er gott að fara að heiman og reyna að losna við heimóttarsvipinn og túnhyggjuna. Svo kemur maður heim og fer kannski aftur í sama farið. Hver veit.

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Vöruskiptajöfnuðurinn

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.