„Meint“ Grettissund

Á sama tíma og harmað er hve margir Íslendingar hafi drukknað vegna skorts á sundkunnáttu undanfarnar aldir, vogar enginn sér að véfengja sundafrek fornmanna.  Þar þykir mest afrek Grettis Ásmundarsonar sem er látinn synda frá Drangey til lands til að sækja eld:

Býst Grettir nú til sunds og hafði söluvoðarkufl og gyrður í brækur. Hann lét fitja saman fingurna. Veður var gott. Hann fór að áliðnum degi úr eyjunni. Allóvænlegt þótti Illuga um hans ferð.

Grettir lagðist nú inn á fjörðinn og var straumur með honum en kyrrt með öllu. Hann sótti fast sundið og kom inn til Reykjaness þá er sett var sólu. Hann gekk til bæjar að Reykjum og fór í laug því honum var orðið nokkuð kalt. Bakaðist hann lengi í lauginni um nóttina og fór síðan í stofu.“

Þetta er gott og blessað. En fyrr í sögunni þarf Grettir líka að sækja eld yfir sund, þá að vetrarlagi. Þetta er stutt leið en auðvitað þrekvirki hið mesta, því annað sæmir ekki kappanum. Lýsingin er kunnugleg:

Hann fór í kufl einn klæða og söluvoðarbrækur. Hann stytti upp um sig kuflinn og rak að sér utan basttaug að sér miðjum og hafði með sér kerald. Síðan hljóp hann fyrir borð. Hann lagðist nú yfir þvert sundið og gekk þar á land.“

Ég álykta af þessu að kuflinn og söluvoðarbrækurnar hafi verið blautbúningur landsnámsmanna. Þótt sundið sé stutt hafði Grettir með sér kerald og hefur sennilega notað það fyrir kút til að sökkva ekki. Af þessu má ráða að eitthvað hafi vantað upp á sundfærnina. Síðan vex sagan í munnlegri geymd, sundið lengist, kúturinn gleymist og Grettissundið verður til.

Mér hefur alltaf þótt sagan um sund Grettis í land á kaldri vetrarnóttu vera ein albesta lygasaga Íslendingasagnanna. Landnámsmenn og afkomendur þeirra í nær þúsund ár voru algerlega ósyndir, enda engar heimildir um skipulega sundkennslu á vegum goða eða stórbænda.  Grettir litli fór ekki á sundnámskeið í sveit sinni og æfði ekki sjósund á góðviðrisdögum. Á fullorðinsárum sínum fór hann tvisvar í heita laug, ef marka má ævisögu hans. Fornmenn hafa buslað eins og blindir kettlingar eða setið í pottinum eins og Snorri. Síðarnefnda aðferðin hefur reyndar einkennt sundlaugarferðir landsmanna fram til þessa dags. Fólk fer í heitu pottana en syndir almennt lítið. Að því leyti hefur fátt breyst frá dögum Grettis.

Taka ber allar frásagnir af sundafrekum til forna með varúð. Kjartan Ólafsson hefur sennilega verið laginn buslari í vatni ef hann gat spyrnt í botn. Helga jarlsdóttir hefur sennilega komist í land á báti með syni sína, enda fer enginn heilvita kona í kaldan sjó með ósynd börn og á hundasundi með þau langar leiðir.
Góð saga má aldrei líða fyrir sannleikann. Í Grettissögu ýkir höfundur oft svo hraustlega að lesandinn á fullt í fangi með að trúa. En það hefur jú löngum verið háttur okkar að trúa því sem við viljum trúa, þótt skynsemin segi annað.

3 athugasemdir við “„Meint“ Grettissund

  1. Sæll Hr. Aðalritari. Er reyndar sammála um ýkjur til forna en fólk var synt þá eins og nú þó það hafi kannski ekki verið eins útbreitt. Það má heldur ekki taka frá okkur að þegar maður (og kona) eru að þróast í „Eden“ þá eru fornrannsóknir sem sýna fram á sundhæfni. Ég hef prufað að vera lengi (u.þ.b. klst.) á sundi á svokölluðu hundasundi og það venst nokkuð vel og maður nær fram tækni sem gerir sundið auðveldar og effektifara.
    En þetta með Grettir kallinn. Þá held ég hann hafi ekki verið alger vitleysingur, þrátt fyrir skapið. Hann hefur örugglega smurt sig feiti klætt sig í „votbúning“ og haft kút til að þurfa ekki að eyða orku í að halda sér á floti en „róið“ áfram. Ef ég ætti að endurtaka þetta sund með þeirra tíma tækni mundi ég gera þetta eins öruggt og þægilegt, því markmiðið var jú að komast með eldinn út aftur. Það eitt að halda glóð í einhverju kerlaldi alla þessa leið í sjó finnst mér mikið afrek.

  2. Ég held að hafi Grettir synt í land, hafi það verið á hundasundi. Því finnst mér einboðið að skylda alla sem vilja endurtaka þetta afrek, að vera í söluvoðarbrók/kufli og á hundasundi.

Skildu eftir svar við Tóti Steingríms Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.