Ríma af James Bond

Að glíma við rímorð er góð skemmtun. Reyndar er stutt í hortittina við slíka iðju en það skiptir ekki máli því kappið má aldrei bera fegurðina ofurliði. Þetta sagði séra Friðrik einu sinni, en hann var aðallega í stúfhendunum. (Þetta er útúrdúr). En hér skiptir öllu máli að skipta á milli lína eftir þörfum.  Rétt er að taka fram að íslenskur framburður er á öllum útlenskum orðum sem þýðir að James er James, ekki Djeims og áin Thames er bara Thames.  Jane Fonda sem bregður fyrir, lýtur sömu framburðarreglum.  Að öðru leyti ættu aðdáendur Jamesar að kannast við ævintýri kappans.

Úr mansöng:

Soðnar blanda huga hjá
hvergi anda kenni.
Boðnarlanda oftast á
ekki vanda nenni.

Lærði að brjóta lás og fól
lærði spjót að pússa.
Lærði snót að leggja í ból
lærði að skjóta Rússa.

Drusilmenni drepur vond
dregur víf á tálar
í jakkafötum James Bond
í jólabjórnum skálar.

Víða liggja leiðir Bond
lipur tólum beitir
Á Ítalíu einn á gond-
óla fór um sveitir.

Elda saman Emm og Bond
ótal rétti laga.
Þeirra föstudagafond-
ú fyllir vel í maga.

Heineken er hellt í Bond
honum magnast skita.
Langar  meira í Leffe Blond
og lifrarpulsubita.

Vinnu sinnar vegna Bond
víða þarf að flakka
en íbúð góða á í Lond-
on við Temsárbakka.

Menninguna metur Bond
þótt myrða þurfi skúrka
Eftir Mósart elskar Rond-
ó Alla Turcha.

Í konum jafnan James óð
en Jane unni Fonda
í sínum draumum seimatróð
seigur var að Bond-a.

Í karaókí keppti Bond
með koníak á brúsa.
Ljúfast þótti lagið Tond-
eleyjó eftir Fúsa.

Argur steig á annars heml-
a ef frúin bað hann.
Aldrei James kom til Kreml
en kynntist mönnum þaðan.

Hér er vikið að æskuárum Bonds en hann ólst upp við þröngan kost og í mjög lítilli íbúð. Það skýrir lokaðan persónuleika hans, kaldlyndi og tilfinningabælingu.

Í íbúð sem var ekki stór
átti piltur kames
þar við spegil fingrum fór
um fílapensla James.

‎“Snemma beygist krókurinn“ var máltæki sem James litli Bond tók bókstaflega. Hann var ólatur að draga björg í þröngt bú foreldra sinna, enda var enginn kvóti á veiðum í borgaránni á þessum árum.

Vaskur sinni veiðistöng
veifa kunni James.
Drengur undi dægrin löng
við dorg á bökkum Thames

Condoleeza Rice, fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafði fá tækifæri til að fara í kvikmyndahús á embættistíð sinni en átti öngvu að síður sínar sælustundir með VHS-tækinu og teppi á síðkvöldum.

Unaðsstundir á með Bond
þó ekki í bíó skreppi
Löt í sófa liggur Kond-
ólísa undir teppi.

Mörg ævintýri Bonds bíða umfjöllunar. Sjaldan er ríma fullkveðin en þetta verður lokaerindið:

Bond mun lifa lýðum hjá
lengist ævivegur
Bondinn vil í bíó sjá
Bond er ódauðlegur.

Auglýsingar

5 athugasemdir við “Ríma af James Bond

 1. Ríms frá glímu reistur má,
  rimmungur orðsins ganga.
  Lífs má vífsnaut í ljóði sjá,
  af lipurð tókst yður fanga.

 2. Bondvísa dagsins er veðurtengd. Jamesi er margt til lista lagt og margir telja hann son Guðs hér á jörð. Vitnisburðir um kraftaverk hans skipta tugum og eru allir meira sannfærandi og framburður útrásarvíkinga fyrir héraðsdómi.
  Þó að vindinn vondan herði
  vakir þjóð í frið og ró
  eins og Jesús jafnan gerði
  James kyrrir vind og sjó.

 3. Bondrímorð dagsins er Blofeld sem James elti í nokkrum bókum og þótti sá seigdræpur. Í þjónustu hennar hátignar hélt hann t.d. til fjalla, gisti í glæsilegum skíðakofa og hitti þar heilaþvegnar ungmeyjar. Höfðu sumar ekkert á móti nánum kynnum við okkar mann og þar sem á þessum árum var í tísku að hafa bjarnarfeld við arininn, þarf ekki að geta í eyðurnar með framhaldið.
  Eftir leiki ástar þar
  einatt varð þvo feld
  daginn eftir elti snar
  Ernest Stavro Blofeld.

 4. Bondpersóna dagsins er fólið Irma Bunt, meint eiginkona Blofelds, sem vann sér það til frægðar að myrða Treisí, konu Jamesar, frekar nýgifta. James tók það dálítið inn á sig eins og menn muna. Á þessum árum var ekki búið að finna upp femenismann og James hlutgerði kvenfólk, enda buðu aðstæður í myndunum ekki upp á annað.
  Konur eru upp á punt
  ósköp lítið gera.
  En fyrir augað Irma Bunt
  ekki þykir vera.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s