Fokhelda fangelsið í Garðabæ

Sunnuflötin í Garðabæ liggur meðfram læknum og þar um slóðir fara skokkarar á Heiðmerkurleið, til eða frá Hafnarfirði. Efsta húsið við götuna, nr. 48, var á sínum tíma ósköp venjulegt einbýli með stórum garði og vatnsslangan þar svalaði oft þorsta manns á heitum sumardögum þegar góðærið var ekki byrjað og hrun var ekki til í orðabókum nema um grjót á Óshlíð. Hér mætti draga upp seiðandi og rómantíska mynd af veröld sem var en áunnið kaldlyndi kemur í veg fyrir það.

Kringum 2005 hófst niðurrifstímabilið við Sunnuflötina. Einbýlishús voru keypt dýru verði og jöfnuð við jörðu til að hægt yrði að reisa ný á þessum eftirsótta stað. Númer 48 markaði upphafið og í ársbyrjun 2006 keypti það ung athafnakona á 50 milljónir og lét snimmhendis rífa það.

Síðan birtist þessi teikning í blöðum af framtíðarsýn athafnakonunnar og hún seldi lóð og teikningu saman á 70 milljónir. Tæpir þúsund fermetrar af steinsteypu og gleri. Ellefu svefnherbergi. Þetta keyptu hjón sem eiga víst ekki svo mörg börn.

Svo var byrjað að grafa, slá upp og steypa. Síðan kom kreppa og hrun með tilheyrandi afleiðingum og við sem reglulega eigum leið fram hjá höfum fylgst með steypuklumpunum mjakast upp. Fyrir hrun örlaði á aðdáun og tilhlökkun hjá sumum sem sáu. Eftir hrun hristir fólk höfuðið.

Nú á bankinn þetta fyrirbæri sem allir fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um með hrifningartón eins og ekkert sé eðlilegra en að hjálpa bankanum að selja ferlíkið fokhelda á tæpar hundrað milljónir. Áætlað er að kosti allt að 200 milljónir í viðbót til að gera það íbúðarhæft. Samstaða fjölmiðlanna er aðdáunarverð og framsetningin með sama stíl og þegar fagnað er aukinni sölu á rándýrum lúxusbílum. Ef einhver kaupir þetta, er kreppunni sjálfsagt lokið.

Hægt er að gera ýmislegt við þúsund fermetra og ellefu svefnherbergi.  Ef múrveggurinn kringum húsið er hækkaður, er möguleiki á snotru fangelsi fyrir hvítflibba. Ágæt staðsetning og stutt að skreppa heim og fá heimsóknir. En á þessum slóðum býr fólk sem vill helst hafa sína líka sem nágranna og yrði ókvæða við, ef það stæði til. Hugmyndin er samt nógu góð til að fara í grenndarkynningu, þó ekki væri nema til að kalla fram viðbrögðin.

 

Auglýsingar

3 athugasemdir við “Fokhelda fangelsið í Garðabæ

  1. Mamma og pabbi búa einmitt við Sunnuflöt, reyndar í hinum endanum. Þau fengu tilboð á sínum tíma, ekki í húsið heldur lóðina. Pabbi varð skiljanlega svo móðgaður að hann henti fasteignasalanum öfugum út og yrti ekki á hann aftur. Og nei takk annars, það er nóg af hvítflibbum á svæðinu þó þar bættist ekki við heilt hús fullt af þeim…

  2. Það er líka eitt afar myndarlegt niðurrifshús við Bakkaflötina í Garðabæ. Þarna alveg næst auða svæðinu sem er á milli Bakkaflatar og Sunnuflatar. Á systur í Móaflötinni og þar sem ég er sjaldnast hundlaus þá tek ég iðulega hring þarna með hundinn (í taum að sjálfsögðu) Alltaf sama hringinn, enda erum við bæði vanaföst hundurinn og ég. Hundurinn losar nær undantekningalaust alltaf á sama staðnum, fyrir frama einbýlishús eitt í Bakkaflötinni. Sumir hafa bent á að þetta hafi mögulega eitthvað með vegalengd frá upphafspunkti, þ.e. hreyfing/losunarþörf að gera. En, ég er stend á því fastara fótunum að þetta sé bara svona skynsamur hundur sem hefur tjáir þarna álit sitt á ákveðnum stjórnmálaskoðunum…. 😉

    Að sjálfsögðu þrífur þræll… ehm, ég meira eigandinn svo upp að loknu verki/yfirlýsingu..

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s