Egill kæri Gilsenegger?

„Ég er ekki ég. Ég er annar.“

Svo kvað Megas forðum daga og þetta geta margir tekið til sín. Ég hef skapað ýmsar persónur, fléttað þær inn í sögur handa barnabörnunum og látið þær lifa sjálfstæðu lífi á Netinu og víðar. Sá fyrsti var Már vinur minn Högnason sem varð til 1990 og flett var ofan af 1993, enda stóð aldrei til að leyna ætterninu. Önnur aukasjálf hafa orðið til síðan, lifa misvirku lífi á Fésbókinni og hjálpa mér að fá útrás fyrir fíflsku og fólshátt, en alltaf á þeirri forsendu að ég ber ábyrgð á því sem þessar persónur segja og gera. Meðan engum sárnar, er þetta græskulaust gaman.

Freysi X 2Aðrir hafa gengið lengra. Margir muna eftir Freysa á X-inu, sem vakti mikla reiði tiltekinna frægra einstaklinga sem logið var ýmsu um, og hótuðu einhverjir kærum. Andri Freyr Viðarsson (Freysi) viðurkenndi síðan faðernið, mætti prúðbúinn í Kastljósið og sagðist enga ábyrgð bera á Freysa og hans orðum, þetta væri bara karakter og gaf ekkert eftir í þeirri afstöðu þótt þráspurður væri. Eftir það var brandarinn búinn og Freysi var jarðsettur í kyrrþey.

Egill Einarsson (hér eftir EE) líkamsræktarfrömuður og skráður höfundur nokkurra bóka hefur lengi gert út á aukasjálf sitt sem upphaflega hét Gillz en nöfn eins og Gillzenegger, Þykki, Stóri, Störe hafa einnig komist á flot í mislangan tíma. Mörgum þykir EE orðljótur og grófur, einkum í garð kvenna og femínista, við lítinn fögnuð þeirra, en sjálfur telur EE sig vera fyndinn. Þeim sem þykir nóg um er þar að auki bent á að oftast sé um aukasjálf EE að ræða en ekki hann sjálfan og því sé rangt að ráðast á hann sem persónu. Í þeirri hörðu hríð sem gerð hefur verið að EE með hléum undanfarin ár, er þetta kjarninn í máli verjenda hans. Þar að auki er þeim sem sárnar sagt að koma sér upp skopskyni og til vara,  að verða sér úti um granítharðan hágæðalim, en það ku lækna öll sálarmein.

Í hinni hönnuðu atburðarás sem hér hefur áður verið fjallað um, er nýjasta útspil EE að íhuga að kæra fjóra aðila fyrir ærumeiðingar í tengslum við margumrætt Mónitorviðtal. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga. Hitt er svo annað mál, að ef á að taka mark á EE og talsmönnum hans, verður að gera greinarmun á einstaklingnum og aukasjálfinu. Ef aukasjálfið lifir sjálfstæðu lífi, getur það kært fólk fyrir meiðyrði? Getur einstaklingurinn EE höfðað mál fyrir meiðyrði um Gilsenegger, Þykka, Stóra og Störe? Er mögulegt að EE móðgist svo vegna einhvers sem Gilsenegger lætur út úr sér að komi til vinslita, jafnvel kæru? Maður spyr sig, jafnvel í bundnu máli.

Kalt á toppnum kjelli hjá
úr kaleik sopin dregg er.
Stefnir kærur Egill á
eða Gilsenegger?

Þessi tvískipting eða tvöfeldni var til umfjöllunar á Fésbókinni í gærkvöldi þar sem rímarar veltu upp ýmsum hliðum á þeim félögum. Eina krafan var rímorðið „Gilsenegger.“

Vaða flórinn verð um sinn
vilpan þar í legg er
en elskar þjóðin Egilinn
eða Gilsenegger?

Flórinn veð í fjósið inn
forin mér í legg er.
Innst á bási Egil finn
eða Gilsenegger?

Þess ber að geta að „flórinn“ er gælunafn á athugasemdakerfi DV, þar sem oftar en ekki er allt vaðandi í skít um nafngreindar persónur. Þar er EE (eða Stóri G) oft innarlega í fjósi. Líkingin er ekki honum til hnjóðs á neinn hátt, eins og þeir vita sem eru kunnugir fjósum.

Ekki verður skilið við vin okkar nema velta upp heillaráði hans um hágæðaliminn sem öllum mun vera hollt að fá reglulega með ýmsum hætti. Í verkum EE (eða Gilsenegger?) er víða að finna ráðleggingar um lífsnautnir af ýmsu tagi og enn hlýtur maður að velta fyrir sér tvíeðli mannskepnunnar.

Hans er lostalistin fim
lipran margan stegg sér
En þráir Egill ákaft lim
eða Gilsenegger?

Auglýsingar

5 athugasemdir við “Egill kæri Gilsenegger?

 1. Þetta hlýtur að verða lykilatriði við réttarhöldin. Lögfræðingar munu þá takast á um það hvort alteregó geti verið lögaðili og hvort einarðar fullyrðingar EE, og þeirra sem hafa varið EE gegnum tíðina, um að EE sé eitt og Gillz annað myndi ekki í raun nýtast sem málsvörn þeirra sem fóru ókvæðisorðum um Gillz – þeir héldu augljóslega að hann væri ekki til og því væri trauðla hægt að særa hann né meinyrða. Hvernig sem á málið er litið getur þetta ekki orðið annað en spennandi júridískt vandamál.

 2. Hnykklar vöðva og harðan kropp
  en höfuð þunnt sem egg er
  streymir „grín“ sem kætir kopp
  úr kjafti Gilsenegger

 3. Nú hef ég kannski ekki fylgst svo nákvæmlega með málinu (á nú bara fullt í fangi með að finna sokkana mína á morgnana) og ekki lesið umrætt viðtal en skilningur minn var sá að viðtalið hefði verið við Egil og forsíðumyndin af honum. Er það misskilningur hjá mér? Hvað með andlitsmyndina sem notuð var í myndverkið sem var kært, er hún af Agli eða Gillz?

  • Mér fannst hann oft tala eins og Gilsenegger í viðtalinu. Þess vegna er ég á báðum áttum.
   Myndin var klárlega af öðrum þeirra. Þar er ég ekki viss.

 4. Á Monitor er margur nagli.
  Einn á miðjum vegg er.
  Ætti þar heima mynd af Agli
  eða Gilsenegger?

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s