Dagur reiðinnar

Ég fór að sjá Jesú litla um daginn og skemmti mér ágætlega, þrátt fyrir trúleysið og þvergirðingsháttinn sem plagar mann. Handbók hirðingjanna er ágætur skáldskapur og þar eru gressilega skemmtilegar persónur. Í leikritinu kom Heródes konungur þokkalega við sögu og varð til þess að þetta var barið á lyklaborð:
Í dag er dagur reiðinnar á Netinu. „Dagur reiði, dagur bræði“ eins og Matthías Jochumsson þýddi þennan texta úr Sálumessu Verdis. Þegar fjallað er um reiði er stutt í prédikun séra Jóns Vídalín sem er öllu kjarnmeiri en nútíma netreiði og flutt var á sunnudeginum milli áttadags og þrettánda.

„Hún afmyndar alla mannsins limi og liði. Hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar svo sem þegar hafið er uppblásið af stórviðri. Og í einu orði sagt: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru.“

Guðspjall þessa dags var um reiði Heródesar konungs við tíðindum vitringanna sem koma til Betlehem og tilkynna að þar sé fæddur konungur. Heródes bregst við eins og alvöru öfgafemínisti og lætur drepa öll karlbörn í borginni. (Hér er ekki stuðst við skilgreiningu þekktra samfélagsrýna á öfgafemínistum, sem eru óttalegir Heródesar í eðli sínu). Heródes, líkt og margir netverjar, hafði enga stjórn á skapi sínu, og hefði örugglega liðið betur eftir innblásinn pistil með ívitnuðum heimildum og djarflegum fullyrðingum. Okkar Heródesar fá oft inni á síðum netmiðla og þá er opnað fyrir athugasemdaflórinn sem ámóta reiðir lesendur drulla í þar til flæðir upp úr og slettist jafnvel á þá sem komu bara til að skoða kýrnar (Þessi líking er svo flókin að það þarf glærur með henni).
Dagur reiði er á netinu í dag. Líka á morgun, alla næstu viku, næsta mánuð og ár. Heródesar okkar tíma frétta af boðuðum viðhorfum og skoðunum og vilja deyða þær í fæðingu, líkt og sveinbörnin forðum daga. Þeir vara okkur við af fullum þunga og alvöru, að vá sé fyrir dyrum, hugsanlega sé kennivald í uppsiglingu og þá styttist í öfugu sönnunarbyrðina (fyrirgefið þessar klisjur en reiðin greip mig sem snöggvast). Þá er gott að hafa þetta í huga sem meistari Vídalín sagði:

„En sá, sem reiður er, hann er vitlaus. Og því segir Horatíus, að hún sé nokkurs konar stutt æði, teiknandi þar með, að enginn sé munur þess, sem reiður, og hins, sem vitstola er, nema að reiðin varir skemur, æðið lengur, og eru þó dæmi þess, að sumir hafa búið svo lengi að heiftinni, að þeir hafi aldrei orðið heilvita aftur.“

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Dagur reiðinnar

 1. Hann séra Matthías var nú ekki að þýða Sálumessu Verdi sérstaklega heldur þýða sálm Tómasar frá Celano (dáinn 1256) sem er brúkaður í öllum Requiem eftir því sem ég best veit. Og úr því okkur er Dies irae, dies illa hugleikinn er gott að hafa lok sálmsins í huga:

  pie Jesu Domine
  dona eis requiem. Amen

  sem þýðir:

  Góði Jesús, Drottinn,
  gef þeim frið/hvíld. Amen

  Ekki að ég sé ekki sammála þér um að dagur reiðinnar ríkir á hverjum degi einhvers staðar á netinu … og þá er nú gott að hafa friðarbænina í huga 🙂

 2. Líkna, Guð, því aumum mönnum,
  Jesús, hilmir hreinn, lát þá
  hvíld og endurnæring fá.
  Amen.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.