Eitt af þessu nægir…

Ég efast ekki um að nýjum biskupi hafi gengið gott eitt til með söfnunarhugmynd sinni fyrir sjúkrahúsið, þar sem sjúklingarnir eru það eina sem er ekki skorið beinlínis niður. Sumir eru skornir upp, en þar sem Saxi læknir er hættur störfum, er ekki lengur skorið í gegn. Þyki fólk nóg um niðurskurðinn núna, verður hann örugglega miklu meiri þegar nýtt hátæknisjúkrahús opnar. Þá er af fleiru að taka.

Umboðsfyrirtæki Drottins hér á jörð, almennt kallað Þjóðkirkjan, fær víst ekki nógu marga milljarða á ári frá ríkinu og bað um meira. Á þetta benti Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingkona og taldi kirkjunnar fólki nær að líta í eigin barm. Þetta fannst sumum prestum jaðra við leiðindi og brugðust við samkvæmt því. Ummæli dagsins á séra Jóna Hrönn Bolladóttir. Þau verðskulda feitletrun:

„Ég er nokkuð viss um það að þó að leiðtogar hinnar íslensku þjóðkirkju myndu ganga á vatni, breyta vatni í vín, lækna sjúka, reisa menn frá dauðum, metta 5000 eða gefa líf sitt, þá væri Sigríður Ingibjörg alþingiskona og félagar hennar ekki ánægð.“ 

Samkvæmt handbók hirðingjanna (gælunafn trúlausra á Biblíunni) mun Jesús Kr. Jósefsson hafa gert þetta allt saman og meira til á sinni stuttu ævi. Að uppgötva árið 2013 að þessum ýkjusögum er enn haldið á lofti, sýnir skort á jarðtengingu sem flinkur rafvirki lagar ekki á einum degi.  En ég er til í að taka séra Jónu alvarlega og geri henni hér með þetta gagntilboð:

Eitt af þessum atriðum nægir. Ég mæli með að leiðtogar kirkjunnar lækni sjúka. Það leysir vanda sjúkrahúsa landsins. Þeir þurfa ekki að breyta vatni í víni. Áfengisvandinn er ærinn eins og er. Að ganga á vatni er góð skemmtun og kæmi sú kunnátta sér vel í langri sjósundskeppni. Mettun 5000 manna myndi útrýma biðröðum fátækra við hjálparstofnanir.  Að reisa fólk frá dauðum er gott stönt fyrir kvikmyndagerðarfólk og að gefa líf sitt er óþarfi, einkum ef það á að sannfæra alþingismenn. Það þarf víst meira til.

Ég myndi einkavæða kirkjuna, hætta öllum ríkisframlögum og láta rekstrargjöldin standa undir kostnaði. Fólk borgar hvort sem er fyrir öll prestsverk þótt prestar séu á föstum ríkislaunum. Duglegur fermingarprestur halar inn hærri árslaun en togarasjómaður. (Biblíulíking).  Ég veit að þetta verður þó ekki á næstunni.

Ég efast ekki um að séra Jóna Hrönn hafi talað í alvöru. Ég ætla að taka hana alvarlega. Eitt atriði nægir. Hún má velja.

Auglýsingar

3 athugasemdir við “Eitt af þessu nægir…

  1. Mikið rétt hjá þér. Sigríður Inga er í því erfiða hlutverki að passa upp á fjármuni okkar. Þegar hún benti á að henni findist undarlegt að þeir sem fá mikla fjármuni frá ríkinu ætluðu að standa fyrir fjársöfnun til spítala skildi ég hana vel en hugsaði um leið; nú verður skrattinn laus. Og það stóð ekki á því að hinn æruverðugi formaður Sjálfstæðisflokksins birtist í öllum fjölmiðlum til að láta í ljósi undrun sína á ummælum Sigríðar Ingu.
    Þá vitum við hvað verður eitt aðal málið í næstu kosningum! Já en hrunið. Hvaða hrun?

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s