Horn Mósesar og skjátextalestur

Einu sinni fór ég með fyrirlestur á degi þýðenda og túlka úti í HÍ og hafði gaman af. Sagði nokkra þýðingabrandara, þar sem sá elsti var um  Híerónýmus sem þeið bifflíuna forðum daga. Honum var dagurinn helgaður.
Híerónýmus er okkur þýðendum góð fyrirmynd. Hann viðurkenndi fúslega kunnáttuleysi sitt og leiðrétti iðulega þýðingar sínar eftir á, en benti jafnan á að nákvæmni þýðinga veltur á frumtextanum, þar sem villur geta lifað öldum saman.
Frægasta villa Híerónýmusar gerði Móses hyrndan. Í hebreska handritinu, 2. Mósebók segir frá því að þegar Móses kom ofan af Sínaí-fjalli, hafi ljósgeislar verið á höfði hans. Hebreska orðið getur einnig merkt “horn” og það valdi Híerónýmus. Þessi villa lifir enn góðu lífi og þegar Michelangelo gerði styttu af Mósesi árið 1515, fór hann eftir lýsingu Híerónýmusar. Þess vegna er styttan í Péturskirkjunni í Róm með horn.
En að öðru. Ég benti foreldrum oft á neðangreindar tölur þegar þusað var í foreldraviðtölum út af litlum lestri barnsins/unglingsins á heimilinu. Yfirleitt kom á daginn að mikið var horft á sjónvarp, mest útlent efni. Þar eru nefnilega fleiri skjátextar en fólk gerir sér grein fyrir. Þetta dæmi sýnir áætlaðan lestur meðalsjónvarpsglápara á viku. Hjá þeim sem „opna ekki bók“ en horfa slatta, er lesturinn meiri en marga grunar:
Hver mínúta í textuðum þætti/kvikmynd inniheldur að jafnaði 10-12 skjátexta.
•Hver texti er 20-30 letureiningar (stafir)
•600-720 textar á klukkustund
•30 stunda áhorf á viku=18.000 textar.
•Heildarlestur á viku=500.000 slög/stafir.
•308 blaðsíður (1620 slög á síðu) (hér er miðað við A4). Í bókarformi gætu síðurnar losað 400.
Ég geri mér grein fyrir að sumir verja fleiri klukkutímum í áhorf en þessum 30 stundum sem hér er gengið út frá. Ég hef marga heyrt segja að þeir lesi ekki skjátexta en þeir eru þarna samt eins og hvert annað áreiti og læðast inn í hugskotið.  Ábyrgð þýðandans er mikil. Textinn þarf að vera lipur, auðskilinn, renna vel og helst villulaus. Hjá þeirri sjónvarpsstöð sem sendir út mest af erlendu efni eru engir málfarsráðunautar eða prófarkalesarar. Þeir voru skornir niður í sparnaðaræðinu á sínum tíma við lítinn fögnuð þýðenda. Þetta er efni í sérfærslu.
Eini liðurinn milli þýðanda og áhorfanda er skjátextarinn (sá sem situr við tölvuna og setur textana inn á þáttinn/myndina). Ekki er hægt að ætlast til þess að hann lagfæri það sem miður fer og fyrir vikið getur allt mögulegt farið út í loftið. Meðan prófarkirnar lásu yfir hjá mér, gerði ég mér stundum að leik að setja ýmislegt fornfálegt í málfar unglinga og þýddi oft heiti fræga fólksins. Þetta voru innanhússbrandarar sem fóru aldrei lengra. Núna er aðhaldið ekkert nema samviska mín og ábyrgðartilfinning. Því fer minna fyrir svona uppátækjum núna.  Maður verður að vanda sig. Aðrir verða síðan að meta hvernig það tekst.
Auglýsingar

8 athugasemdir við “Horn Mósesar og skjátextalestur

 1. Ég tók einu sinni eftir því í lok þáttar á Skjá einum, (þegar hann var enn ólæst stöð), að undirskriftin var „Þýðandi: Étur Börn“. Mér datt í hug að þýðandinn héti „Pétur Björn“, án þess þó að hafa hugmynd um það. Þetta hlýtur að vera dæmi um óritskoðaðan einkahúmor.

 2. Ég hef oft haldið því fram að öll þessi íslenskun barnaefnis hafi verið slæm hugmynd. Skjátexti á barnaefni var mér hvatning til að læra að lesa og í kjölfarið lærði ég ensku af því.

  Þeir sem sjá um að setja textann inn á efnið eru oft góðir í eyðileggja fyrir ágætum þýðingum með því að láta þær birtast aðeins of snemma. Þannig er hægt að eyðileggja dramatísk augnablik. Þannig frágangur texti er ákaflega ergilegur fyrir þá sem lesa hann sjálfkrafa.

  Annars er uppáhaldsþýðingarvillan mín frá því ég vann á Stöð 2 og við söfnuðumst öll saman til að sjá atriði í Entourage þar sem trúður einn bað frægan umboðsmann um að skjóta sig í hausinn – samkvæmt textanum. Hvað heldurðu að hann hafi í raun verið að gera?

 3. Fyrir margt löngu var sýnt frá atkvæðagreiðslu í neðri málstofunni í fréttum á Stöð2.
  „Ays to right – noes to the left“ varð „Augun til hægri – nefin til vinstri“.
  Áttir þú það?

 4. Mínir krakkar hafa lengi viljað horfa á myndirnar sínar ótextaðar (og alls ekki talsettar). Nema þær séu á skrítnum málum sem þau skilja ekki. Stundum setja þau finnska eða ungverska skjátexta við bara fyrir kikkið. Sem betur fer lesa þau síðan öll bækur :þ

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.