Um samsæri og skítabombur

Ég birti í gær nokkrar úrklippur úr safni Hildar Lilliendahl þar sem frambjóðandi Pírata í 9. sæti í NA-kjördæmi fór mikinn með einbeittan ummælavilja. Upphafið var að ég sá þess getið í staþus að hann væri í framboði og mundi þá eftir þessumm ummælum hans, enda var af nógu að taka. Honum fannst þetta allt í lagi þá en vill núna iðrast. Sennilega af því að hann er í framboði. Hvað veit ég? Svona þvinguð afsökunarbeiðni er ekki einlæg.

Að gefnu tilefni og vegna viðbragða hist og her, bæði hjá Pírötum og öðrum, dreifði ég þessum athugasemdum í gærkvöldi:

„Ég hef séð því haldið fram á netinu að færsla mín í dag um frambjóðanda Pírata tengist Vinstri Grænum, sem biðu viljandi fram á síðasta dag með að birta þessar upplýsingar, eingöngu í þeim tilgangi að koma höggi á Pírata. Svo er ekki. Hér er ekkert samsæri á ferðinni (þó ég hafi gaman af samsæriskenningum. ) Ég var félagi í VG til 28. mars. Þá sagði ég mig úr flokknum og útskýrði það nánar hérna. Ég geng óbundinn til kosninga. Ég er atkvæði í leit að flokki.
„Ég geng ekki erinda VG eða annarra flokka, tilheyri engri skrímsladeild, vil ekki ata Pírata auri fremur en aðra og hef frekar hrifist af stefnumálum þeirra eins og hér segir fyrir ofan. Ég vinn ekki við að grafa upp óhróður, misheppnuð ummæli, lélegt grín og slít vonandi ekkert úr samhengi í þeim efnum. Ég veit að þessi maður er ekki Píratar. Ég vona að flokkurinn gjaldi hans ekki að óþörfu. “

Þeir sem nenna að fletta gegnum bloggfærslur mínar á þessum áratug, taka vonandi eftir ákveðnu pólitísku mynstri. Ég hnýti í Framsóknarfokkinn við hvert tækifæri og hlífi ekki Sjálfstæðisfokknum. Ég hef gagnrýnt VG undanfarin ár og ekki gert upp á milli flokka í þessum efnum. Og þar sem Píratar leggja mikið upp úr mætti netsins, eru á móti leyndarhyggju og vilja hafa allt uppi á borðinu, hefðu þau átt að taka þessum pistli mínum í samræmi við þessi viðhorf. Internetið er fíll.

Skjámynd dagsins er tileinkuð efsta manni Pírata í Reykjavík Norður. Ummælin eru sex ára gömul. Heimild: Hólmar Hólm.

Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati 2

Viðbót: Þar sem allir eiga að njóta sannmælis er mér ljúft og skylt að bæta við þessari yfirlýsingu Helga Hrafns Gunnarssonar:
„Ég stend ekki lengur við það sem er haft eftir mér á Bland.is, í það minnsta ekki nálgunina og hortugheitin, enda er langt síðan ég skrifaði þetta og ég hef gengið í gegnum nokkra lífskafla síðan þá. Skoðanir, viðhorf, aðstæður og umræðan breytast öll, en það sem maður skrifar í brjálæðiskasti fyrir mörgum árum á netinu breytist ekki af einhverjum undraverðum áhrifum meðfram manni sjálfum.

Netið er svolítið eins og opin dagbók þar sem hægt er að glugga í þroskaferli fólks langt aftur í tímann og léttilega má fókusa á bút þar sem maður er í miðjum klíðum við að gera mistök til að læra af. Helst vildi ég taka til baka allt sem ég hef sagt á tveggja ára fresti og byrja upp á nýtt, vegna þess að maður öðlast sífellt betri sýn á málin eða finnur allavega leið til að nálgast þau með betri hætti.

Ég vona að það komi ekki neinum á óvart að á margra ára tímabili þroskist maður aðeins og læri. En það er satt sem er sagt, að internetið gleymir ekki.

Þessi ummæli mín eru frá tíma þar sem ég hafði ekki þá sýn á málin sem ég hef nú og var í einhverju brjálæðiskastinu, og ég vildi gjarnan draga þau til baka, en á sama tíma finnst mér ég eiginlega eiga þetta skilið, jafnvel ef það er bara til að sýna fólki hversu öflugt internetið raunverulega er og hversu erfitt það verður fyrir blóðheitt, skoðanaríkt ungt fólk að verða að opinberum persónum seinna meir, láti það í ljós tilfinningar sínar á netinu í of ríkum mæli. – En þá vaknar mikilvæg spurning; á fólk að ritskoða sjálft sig af ótta við framtíðina? Átti ég að vita betur en að tjá hvernig mér leið á þeim tíma, í allri minni reiði og hroka?

Eru skilaboðin þau að ef maður segi eitthvað ljótt á netinu, þá skuli maður gleyma því að geta reynt að bæta samfélagið mörgum árum seinna?

Eða eru það kannski mistök að dæma manneskjur og hugmyndir þeirra alfarið eftir því versta sem þær hafa nokkurn tíma sagt?

Svona ummæli hefði enginn fundið fyrir daga internetsins vegna þess að það fengi aldrei birtingu í víðtækum fjölmiðli og því væru jafnan ekki heimildir fyrir þeim. Núna getur hver sem er grafið upp hvað sem hver sem er hefur sagt, langt aftur í tímann. Þá er líka alveg hægt að taka „Top 3 Worst of“ og skella á Bland.is.

Velkomin á internetið. Þetta er allt annar heimur en sá sem var.

Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem hefur fest sig í sessi upp á síðkastið, þ.e. þeirri að femínismi sé „sú skoðun að jafnrétti kynjanna hafi ekki verið náð og eitthvað þurfi að gera í því“, er ég sjálfur femínisti.“

10 athugasemdir við “Um samsæri og skítabombur

 1. Ef tilgangurinn að grafa upp ummæli frambjóðanda í 9. sæti er hvorki að ata flokkinn út né að þvinga hann að til að biðjast afsökunar hver er hann þá?

   • Ef þú átt við tvær seinustu færslur þínar þá sá ég ekki ítarlega útskýringu, eiginlega ekki neina útskýringu nema þá að þú hafir verið að leita að jafnréttisstefnu flokksins og fundið þetta (ég las reyndar ekki kommentin, viðurkenni það). Kannski var betri útskýringar í eldri færslum en ég fór ekki svo aftarlega. Þú setur kannski link á færsluna eða færslurnar svo ég finni þær.

    Ég tek það fram að ég er alls ekki á móti því að birta ummæli manna ofarlega á lista eða í áhrifastöðu t.d. ruglið í Jóni Þór og Helga Hrafni. Ég skil líka að vilja birta ummæli hjá einvherjum vitleysingum í jaðarsætum á framboðslistum en einu ástæðurnar sem ég sé fyrir því væri að ýta á hann að biðjast afsökunar og hugsa sitt ráð eða niðurlægja hann og flokkinn.

 2. Ég hafði tíma til þess eftir hádegi í gær að kynna mér stefnumál Pírata og framboðslista og gerði það. Ég hef margoft tekið fram að einstaklingur er ekki flokkur, að ég voni að Píratar verði ekki látnir gjalda nokkurra skemmdra epla í tunnunni og njóti sannmælis. Í anda þess birti ég að sjálfsögðu yfirlýsingu Helga Hrafns hér í færslunni. Hvatning þeirra til að strika IKS út af framboðslistanum er gott svar við gagnrýninni. Önnur svör talsmanna hafa valdið ákveðnum vonbrigðum, svo sem útskýringar þeirra á sjö ára gamalli bloggfærslu Jóns Þórs Ólafssonar.
  Ég byrjaði á Pírötunum því ég hreifst mjög af einlægri ræðu Birgittu við þinglokin og hef alltaf haft mikið álit á henni. Út á hana og hennar hugsjónir verðskuldar flokkurinn fylgi. Enn vantar slatta upp á stefnuskrána (kannski er ég gamaldags að vilja slíkt plagg) og ég tek afstöðu þegar ég hef séð allt. Hjá Pírötum eru góðir punktar. Kannski fjölgar þeim.

 3. …Aths. frá síðuhaldara: Hér voru ummæli sem verðskulda höfundarheiti. Sá sem við þau kannast má gjarna birta þau, undir fullu nafni. Ef hann þorir : ) Afrit er til.

  • Þetta er afskaplega undarlegt allt saman, hér hef ég sent tvær athugasemdir sem hvorugar hafa fengist birtar, en síðuhöfundur kýs að tala um einhver ótilgreind ummæli sem enginn veit hver á, hvaðan koma eða um hvað fjalla. Ekki hef ég hugmynd um hvort síðuhöfundur á við mín ummæli eða öll hin sem ekki hafa fengist birt á bloggsíðu þessa mannréttindafrömuðar, sem hefur væntanlega fjráls skoðanaskipti að leiðarljósi á sínu bloggi, en ekki hvað?

   Til síðuhöfundar: Ef þú þarft nafn, kennitölu, heimilisfang og símanúmer frá hverjum þeim sem nennir að virða þig viðlits, sýnir þér þá virðingu að virða þig svars, til að þú getir rökstutt þína skoðun, þá er þín skoðun ekki þess virði að rökræða um. Skoðanir eru í eðli sínu nafnlausar, heimilislausar og án kennitölu. Ef þú getur ekki lifað við það, væri ekki best að þú héldir þig utan við skoðanaskipti á almannafæri og héldir þig innan verndaða umhverfisins á knúsinu

   • Ég ákvað fyrir löngu að nenna ekki að eiga orðaskipti við nafnleysingja um það sem skiptir máli. Nógu margir vega úr slíku launsátri. Það sem þú hefur sent inn er eflaust gott og gilt fyrir sinn hatt og merkt
    nafnlaus
    asds6419@yahoo.com
    157.157.141.65

    Þú ert sá eini á þessum bloggvettvangi mínum sem hefur þjáðst af slíku hugleysi að þora ekki að setja nafn þitt við ummæli þín og skoðanir. Ef þú ert ekki maður/kona til að auðkenna, væri þá ekki best að þú héldir þig utan við skoðanaskipti á almannafæri. Allt sem þú hefur lagt til mála er varðveitt hér og fæst birt. Undir nafni. Hinn möguleikinn er sá að þú með þínar skoðanir hefjir bloggskrif og komir þínum eflaust ágætu skoðunum á framfæri.
    Frjáls skoðanaskipti eru auðvitað það besta. Taktu endilega þátt í þeim. Undir nafni. Ef þú þorir. 😉
    já, og meðan ég man… Ég sendi þér auðvitað skýringar á þessum birtingarskorti. Á netfangið þitt. Fékkstu ekki póstana?
    Er kannski möguleiki að netfangið sé falsað? Maður spyr sig.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.